Vitinn, menningarverðlaun Eyrbyggja, hollvinasamtaka Grundarfjarðar, verður afhentur í þriðja sinn í Grundarfirði laugardaginn 23. júlí. Afhendingin er liður í fjölskyldudagskrá hátíðarinnar á Góðri stund í Grundarfirði og fer fram á Hátíðarsvæði kl 14.

 

Það eru Hollvinasamtök Grundfirðinga, Eyrbyggjar, sem standa að Vitanum. Verðlaunin eru veitt einstaklingi sem hefur látið verulega til sín taka í þágu lista, menningar eða annarra framfara í byggðarlaginu og er það stjórn samtakanna sem tilnefnir og velur verðlaunahafa. 

Vitinn var fyrst afhentur árið 2009 og hlaut Ingi Hans Jónsson hann fyrir frumkvæði sitt og þrautseigju í uppbyggingu Sögumiðstöðvarinnar og fjölmörg önnur verkefni.

Árið 2010 hlaut Dögg Mósesdóttir Vitann fyrir hina ört vaxandi alþjóðlegu kvikmyndahátíð, Northern Wave Film Festival, sem haldin hefur verið í Grundarfirði undanfarin ár.

 

Að þessu sinni hlýtur Hildur Sæmundsdóttir Vitann fyrir störf að heilbrigðis- og velferðarmálum. Hildur er öllum Grundfirðingum kunn fyrir störf sín, t.d. í heilsugæslunni og fyrir Rauða krossinn. Hildur hefur vakað yfir heilbrigðis- og velferðarmálum af mikilli elju og dugnaði um langt árabil og einnig lagt mikið af mörkum til íþrótta- og tómstundastarfs.

 

Aðalfundur Eyrbyggja, hollvinasamtaka Grundarfjarðar, verður haldinn á Hótel Framnesi laugardaginn 23. júlí kl 11 og eru allir áhugasamir hvattir til að mæta.