- Í miðjum skilnaði flytur bráðalæknirinn Kristín með unglingsdóttur sína, heim til foreldra sinna í lítið sjávarþorp úti á landi. Kristín, sem er bæði raunsæ og jarðbundin, kemst fljótt að því að hún er langt utan við þægindarammann í samskiptum við miðilinn móður sína og neyðist fljótt til að horfast í augu við drauga fortíðar.

Þannig hljómar lýsing á söguþræðinum í þáttaröðinni Vitjanir (Fractions, á ensku). Þættirnir verða alls átta og eru "drama" af bestu gerð. Leikstjóri er Eva Sigurðardóttir og handritshöfundar eru Kolbrún Anna Björnsdóttir og Vala Þórsdóttir. Fyrirtækið Glassriver stýrir verkefninu. 

Yfir 50 manns eru nú komnir til Grundarfjarðar til að vinna við kvikmyndatökurnar. Starfsfólk gistir á hótelinu og gistihúsum bæjarins, auk þess sem íbúðarhúsnæði hefur verið tekið á leigu. Samkomuhúsinu hefur verið breytt í stjórnstöð kvikmyndatökunnar.

Áætlað er að tökur standi fram í byrjun nóvember og var fyrsti tökudagurinn í dag. Veitingahúsið Bjargarsteinn breyttist þá í bókasafn og kaffihús, gamla Hrannarbúðin - H5-íbúðir - er orðin að myndarlegri lögreglustöð, Heilsugæslustöðin hefur fengið nýtt heiti í samræmi við sögusvið þáttanna og aðalsöguhetjan keyrði um götur bæjarins með hjólhýsi í togi, nú í kvöld. Það er sem sagt líf og fjör og mikið umstang. 

Tökurnar gengu vel í dag og vill starfsfólk koma á framfæri þökkum til bæjarbúa fyrir að "taka svona vel á móti okkur", eins og þau sögðu. 

Tilkynnt verður um næstu tökustaði hér á vef bæjarins, yfirleitt kvöldinu fyrir tökudag - en þess ber að geta, að dagskrá getur riðlast, m.a. vegna veðurs.