Hreinsum bæinn

Nú er vorið loksins komið eftir langan vetur. Búið er að sópa götur bæjarins og innan tíðar verða merkingar á götur málaðar. Þá er verið að undirbúa sumarstörfin í áhaldahúsinu en þau verða með svipuðu sniði og undanfarin ár. Áætlað er að ráða fleiri starfsmenn en áður í ýmis umhverfisverkefni.

 

Nokkurt rusl er á götum bæjarins eins og oft er á þessum árstíma. Gjarnan vilja menn kenna vetrinum um sóðaskapinn og enn aðrir kenna því um að starfsmenn bæjarins hirði rusl ekki nógu oft. Ástæðan fyrir rusli á götum og torgum er okkur mun nær, þ.e. að rusli er hent á víðavangi en ekki í ruslatunnur. Það er því okkar eigin umgengni sem skiptir mestu máli. Göngum snyrtilega um bæinn okkar, okkur sjálfum og gestum okkar til ánægju.

 

Mánudaginn 7. maí og mánudaginn 14. maí munu starfsmenn áhaldahúss hirða garðaúrgang sem skilinn er eftir við lóðarmörk. Íbúar eru hvattir til þess að nýta tækifærið nú um helgina og næstu helgi að hreinsa sitt nánasta umhverfi. Mikilvægt er að ganga frá ruslinu þannig að einfalt sé að hirða það.

 

Það er einkar ánægjulegt þegar íbúar sýna frumkvæði í umhverfismálum og eru öðrum til fyrirmyndar í þeim efnum og hvetja aðra til góðrar umgengni. Höldum því áfram, hvort sem það er með eigin umgengni, greinskrifum í blöð eða hvoru tveggja.

Atvinnulóðir

Því er sérstaklega beint til lóðarhafa atvinnulóða að hreinsa til á lóðum sínum og fjarlægja eða sækja um stöðuleyfi fyrir gámum. Gámar verða seint bæjarprýði og því síður þegar þeir eru ryðgaðir og grónir fastir eftir margra ára stöðu.

Hreinsum hundaskít

Hundaeigendur eru beðnir að þrífa skít upp eftir hunda sína. Það er afskaplega ógeðslegt að stíga í hundaskít á förnum vegi og hygg ég að hundaeigendum finnst það einnig. Ábyrgðin er hjá hundaeigendum.

Sjá samþykkt um hundahald í Grundarfirði.

Sorpflokkun

Þriggja tunnu flokkun á sorpi var tekin upp fyrir réttu ári síðan. Almennt hefur sorpflokkun gengið vel en einhver dæmi eru um það að íbúar flokki ekki sorp. Í þeim tilvikum fyllast gráu tunnurnar fljótt og skapar það óþrifnað. Flokkun sorps er mjög einföld og er umhverfisvæn þar sem endurnýta má mikið af því sorpi sem við hendum frá okkur.

Festum ruslatunnurnar

Húseigendur eru eindregið hvattir til þess að festa ruslatunnur við hús sín en í hvassviðri vetrarins fuku tunnur með þeim óþrifnaði sem því fylgir. Ýmsar lausnir eru til við tunnufestingar. Í meðfylgjandi flokkunarhandbók sem dreift var á síðasta ári má sjá hugmyndir um festingar.

Sjá flokkunarhandbók. 

Opnunartími sundlaugar

Þegar komið er fram í maí eykst spenningur fyrir því að opna sundlaugina. Opnunartími verður með svipuðum hætti og í fyrra og mun sundlaugin opna laugardaginn 19. maí og vera opin til sunnudagsins 19. ágúst. Opnunartími verður auglýstur nánar síðar í mánuðinum.

Útivistartími

1. maí breyttist útivistartími barna og unglinga þannig að börn 12 ára og yngri mega vera úti til kl. 22 og unglingar 13-16 ára mega vera úti til kl. 24. Aldur miðast við fæðingarár. Mikilvægt er að við sýnum samstöðu og gætum þess að virða útivistarímann.