Með hækkandi sól blása Vormenn Íslands til tónleikaferðar um landið. Hópinn skipa engir aðrir en tenórarnir Jóhann Friðgeir Valdimarsson og Óskar Pétursson, Ólafur Kjartan Sigurðarson baritón ásamt Jónasi Þóri píanóleikara. Þessa söngvara þarf vart að kynna, svo rækilega hafa þeir sungið sig inn í hjörtu landsmanna á undanförnum árum.

Á efnisskrá þeirra félaga eru óperuaríur, sönglög í íslensk sem erlend ásamt söngleikjatónlist. Þó er spurning hvað þeim tekst að halda andliti og alvarleika lengi dagskrár, enda ekki langt í grín og gaman þegar svona söngfuglar koma saman. Óhætt er að lofa afar fjölbreyttri og skemmtilegri efnisskrá.

Sunnudagskvöldið 26. febrúar nk. halda þeir félagar tónleika í Grundarfjarðarkirkju kl. 20.00.

Snæfellingar eru hvattir til að fjölmenna og njóta góðra tóna!