Í vetur hefur verið gott samstarf á milli leik- og grunnskóla eins og undanfarin ár. „Brúum bilið" verkefnið hefur fest sig í sessi og hafa elstu börnin í leikskólanum komið í nokkrar heimsóknir í grunnskólann í vetur.

Dagana 13. – 17. maí var svo komið að vorskólanum. Íslenska fánanum var flaggað í tilefni af komu barnanna en það er ávallt mikil tilhlökkun hjá börnum, foreldrum og starfsfólki skólans þegar komið er að þessum tíma. Fjölbreytt dagskrá var þessa daga. Nemendur fengu meðal annars að prófa sund, smíðar, textílmennt, heimilisfræði og tölvur, að ógleymdu að fá að takast á við stærðfræðitengd viðfangsefni og stafaverkefni. Jafnframt fengu börnin tækifæri til þess að heimsækja heilsdagsskólann og krakkana sem þar eru. Það sem var þó mest spennandi hjá börnunum þessa daga voru nestið og frímínúturnar, kom meðal annars kvörtun um hvað þær væru stuttar.

Við þökkum fyrir frábæra samveru og hlökkum til komandi hausts.