- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í Grundarfjarðarhöfn var slegið enn eitt aflametið í júní, en þá var landað 1402 tonnum, m.v. 1099 tonn í júní í fyrra, 538 tonn í júní 2003 og 1280 tonn í júní 2002.
Fyrstu sex mánuði ársins hefur verið landað tæpum 12.954 tonnum í Grundarfjarðarhöfn. Á sama tíma í fyrra höfðu rúm 8.437 tonn borist á land. Aukningin milli ára (á sama tímabili) er því 53,5%.
Allt árið 2004 bárust 15.028.872 tonn á land í Grundarfjarðarhöfn, þannig að eftir fyrstu sex mánuði þessa árs er höfnin komin með rúm 86% af lönduðum heildarafla síðasta árs.
Í ár og á næsta ári eru á döfinni töluverðar hafnarframkvæmdir. Þær felast í byggingu nýrrar „litlu bryggju“ í stað þeirrar eldri, sem verður rifin, en ástand hennar er með þeim hætti að leggja hefði þurft í umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir við endurbætur. Í ár er ætlunin að fara í dýpkun fyrir væntanlega bryggju.
Jafnframt er nú verið að skoða möguleika á landfyllingu og gerð byggingarlóða á svæði út frá landi við stóru bryggju. Áhugasamir aðilar hafa lagt fram fyrirspurn um að koma þar fyrir byggingu þjónustuhúss, sem hýsa myndi frystigeymslu og fleira.
Í ár koma 9 skemmtiferðaskip til Grundarfjarðar. Tekjur af komum skemmtiferðaskipa voru tæp 2% af tekjum hafnarinnar árið 2002, tæp 4% af tekjum hafnarinnar 2003 og tæp 6% af tekjum hafnarinnar árið 2004, en heildartekjur hafa á þessu tímabili jafnframt verið að aukast talsvert.
Í byrjun september n.k. fara Grundarfjarðarhöfn og nokkur heimafyrirtæki á Íslensku sjávarútvegssýninguna sem haldin verður í Fífunni í Kópavogi. Það er í þriðja sinn sem þessi hópur fer á sýninguna og kynnir starfsemi hafnar og fyrirtækja í þjónustu við fiskiskip.