Fjölbrautaskólinn – hugmyndir unglinganna

Í dag funda ungmenni af öllu Snæfellsnesi og leggja á ráðin um hvernig þau vilja sjá Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Á fundi í Stykkishólmi, sem stendur yfir í allan dag og fram á kvöld, ætla þau að setja saman sínar hugmyndir um hvernig þau vilji t.d. sjá félagslíf og aðstöðu í væntanlegum skóla. Fundinum stýrir bandaríski sérfræðingurinn Susan Stuebing sem ráðin var til að aðstoða við undirbúning skólans. Hún leggur upp ýmsar spurningar og lætur fundarmenn gjarnan fara á hugarflug og sjá fyrir sér hvernig þeir vilja hafa hlutina, n.k. hugarflug en með því þó að safna hugmyndum ólíkra aðila saman í heildarmynd.

Um kvöldmatarleytið er pizza-veisla og unglingarnir munu gera fulltrúum bæjarfélaganna allra og fulltrúum foreldra frá stöðunum grein fyrir vinnu sinni.

Í dag var einnig á ferðinni Sigurður Björgúlfsson arkitekt frá Vinnustofu Arkitekta í Reykjavík, en húsnæðisnefnd sveitarfélaganna mun í kvöld skrifa undir samning við stofuna um að taka að sér hönnun nýs húsnæðis fyrir Fjölbrautaskóla Snæfellinga.

 

 

Fundur með íbúum að Hrannarstíg 18

 

Bæjarstjóri og byggingafulltrúi áttu í dag fund með íbúum að Hrannarstíg 18, íbúðum eldri borgara, um ýmislegt sem snýr að rekstri og viðhaldi hússins. Þetta var reglulegur samráðsfundur um almenn málefni hússins, en slíkur fundur var síðast haldinn í árslok 2001. Á fundinum var m.a. farið yfir fyrirhugaðar framkvæmdir við lagfæringar á tengigangi milli íbúða og Dvalarheimilis og hugmyndir um hvort hægt væri að fjölga bílastæðum í kjallara og fyrir framan húsið. Einnig var farið yfir þau atriði sem gjarnan þyrfti að dytta að í einstökum íbúðum.

Fundurinn var góður og ekki að spyrja að gestrisni íbúanna, sem buðu upp á pönnukökur og kræsingar.

 

Frakkar í heimsókn á morgun 14. júní

 

Á morgun, laugardaginn 14. júní, eigum við Grundfirðingar von á um 40 frönskum gestum. Þetta eru áhafnir af skútum sem taka þátt í siglingakeppni milli Paimpol í Frakklandi og Íslands. Keppnin hófst 1. júní og var siglt til Reykjavíkur, ætlunin síðan að fara til Akureyrar og aftur til Paimpol á Bretagne-skaga, þar sem keppninni lýkur. Þessi keppni er haldin til minningar um Íslandssiglingar Frakka og var slík keppni haldin árið 2000.

Skúturnar koma ekki til Grundarfjarðar en áhafnarmeðlimir og forsvarsmenn keppninnar koma hingað landleiðina. Ætlunin er að bjóða þeim til skoðunar á Grundarkampi, í léttan hádegisverð, bæjarrölt og söguskoðun og í fiskverkun Láka, þar sem ,,íslenskar veitingar” verða í boði!