Borrannsóknir í Berserkseyrarodda

Borfyrirtækið Alvarr ehf. hefur verið að störfum í Berserkseyrarodda að undanförnu, skv. samningi við Grundarfjarðarbæ um borverkefnið.

Boraðar voru tvær grunnar hitastigulsholur nálægt landi og var ætlunin að láta niðurstöður úr mælingum úr þeim segja til um nánari staðsetningu sprungusvæðisins og heitavatnsæðar. Niðurstaðan var sú að í þessum tveimur holum var hitastig lækkandi í átt að landinu. Út úr því vill dr. Kristján Sæmundsson jarðfræðingur hjá Orkustofnun lesa, að sprungustefna sé austur-vestur, en ekki norður-suður, sem þýðir að heitavatnssprunga eða æð liggi ekki upp að landi heldur sé úti í sjó/skerjum.

Næsta skref er að bora skáhallt út frá Akrastöpum í átt að Laugaskeri. Ætlunin var að stór bor, 35 - 40 tonn að þyngd, kæmi að og boraði þá holu, milli 300-400 metra skáholu. Þar sem forarblautt er um allt svæðið er ekki hægt að flytja borinn á staðinn og var byrjað á skáholunni með litla bornum sem Alvarr er með á svæðinu og borað allt að 200 metrum á ská og reynt að lesa niðurstöðurnar sem úr því fást. Borað verður svo lengra með stærri bor þegar vegur eða slóði verður kominn á svæðið í tengslum við vegarlagningu um Kolgrafarfjörð.

 

Fundur með sjávarútvegsráðherra um skelmál

Miðvikudaginn 9. apríl sl. fóru 7 fulltrúar fyrirtækja og bæjarstjórnar á fund Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra til að ræða stöðu skelveiða við Breiðafjörð og minna á þá hagsmuni sem í húfi eru á svæðinu. Farið var yfir stöðu mála, en um 50-60 manns hafa að jafnaði unnið við skelveiðar og –vinnslu í Grundarfirði á u.þ.b. 5-6 mánaða tímabili undanfarin ár. Mikið er í húfi ef til niðurskurðar kemur í veiðiheimildum í hörpuskel

Útboðsmál

Búið er að bjóða út byggingu 7 raðhúsaíbúða fyrir eldri borgara sem staðsettar verða efst við Hrannarstíg. Gert er ráð fyrir að 3 íbúðir verði tilbúnar þann 1. desember 2003, 2 verði tilbúnar 1. mars 2004 og þann 1. júní 2004 verði síðustu 2 íbúðirnar tilbúnar. Lóðaframkvæmdir eiga sömuleiðis að klárast 1. júní 2004.

Í byrjun næstu viku verður síðan auglýst útboð gatnagerðar í s.k. Ölkeldudal, þ.e. framlenging á Hrannarstígnum og svo þvergata sem nær frá Borgarbraut að Hrannarstíg og áfram upp á Hjaltalínsholtið. Sú gata hefur hlotið nafnið Ölkelduvegur.

Með þessari framkvæmd er hafist handa við að byggja upp nýtt íbúðarhúsahverfi, þar sem fást margar mjög skemmtilegar byggingalóðir.

Fundur VÍS með forstöðumönnum stofnana bæjarins

Föstudagsmorguninn 11. apríl var haldinn kynningarfundur af hálfu Vátryggingafélags Íslands með forstöðumönnum stofnana bæjarins. Verið var að fara yfir tryggingar sveitarfélagsins og þau atriði sem skipta máli varðandi starfsemi stofnananna og tryggingar þeirra og starfsmanna. Fundurinn var mjög gagnlegur og töluvert spurt um það sem snýr að vátryggingavernd bæjarins, stofnana, skjólstæðinga (s.s. nemenda) og starfsmanna.