Úr kvöldfréttum RÚV 26. maí 2022
Úr kvöldfréttum RÚV 26. maí 2022

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar hefur fylgst vel með ástandi vegamála og ályktað tvívegis um að aukið fjármagn þurfi í viðhald á þjóðvegum 54 og 56, meginleiðinni á Snæfellsnes.

Umferð hefur á síðustu árum aukist gríðarlega. Þrátt fyrir góðar samgöngubætur á svæðinu, þá hefur almennt viðhald meginleiðarinnar ekki fylgt ört vaxandi umferð og álagi á vegina. Vegirnir eru á stórum köflum í slæmu ástandi. Stórir flutningabílar og rútur fara m.a. um vegina allan ársins hring, auk fjölda ferðamanna á eigin vegum og að sjálfsögðu íbúa.
  
 
Þess má geta að árið 2019, síðasta heila ár fyrir Covid, var áætlað að um 600-900.000 ferðamenn legðu leið sína á Snæfellsnes. Á þessu ári gæti fjöldinn farið í a.m.k. 600.000 gesti skv. opinberum upplýsingum.
 
Fiskflutningar hafa sömuleiðis aukist stórlega á/af norðanverðu Snæfellsnesi. Á síðasta ári, 2021, jókst landaður afli í Grundarfjarðarhöfn um 30% og var tæplega 24.000 tonn, sem er langmesta landaða magn frá upphafi í Grundarfjarðarhöfn. Þessi afli er keyrður með flutningabílum af svæðinu, annað hvort sem unnin vara til útflutningshafnar eða í flug, eða beint úr löndun til frekari vinnslu út um landið allt, af hagkvæmni, til að spara stórum fiskiskipum að sigla langar leiðir með aflann sem þau landa í Grundarfirði. Miklir flutningar eru einnig á eldisfiski af Vestfjörðum með Breiðafjarðarferjunni Baldri og suður á bóginn. 
 
Umræddir vegir eru síðan meginleið íbúa á Snæfellsnesi, líflína fyrir erindi og ferðalög út af svæðinu, sjúkraflutninga m.a.
 
Fimmtudaginn 26. maí 2022 var frétt í kvöldfréttum RÚV, sjá hér - um ályktanir bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar um að það sé skynsamlegt að viðhalda betur fyrrgreindum meginleiðum sem stólað er á; það sé hagkvæm meðferð fjármuna, áður en viðhald verður allt of kostnaðarsamt, og ennfremur mikið öryggismál fyrir alla vegfarendur.