Kirkjufellsfoss hefur orðið til sem sjálfsprottinn ferðamannastaður og hefur fjöldi gesta aukist gífurlega hratt. Staðurinn er orðinn einn vinsælasti áfangastaður og mest myndaðasti ferðamannastaður á Snæfellsnesi. Á síðustu árum hefur aðstaða við fossinn verið bætt, s.s. bílastæði og göngustígar, en sú aðstaða annar ekki þeim fjölda gesta sem kemur á svæðið. Vegna aukinnar umferðar ferðamanna að fossinum er mikilvægt að byggja betri umgjörð um þennan ferðamannastað til framtíðar; umgjörð sem tryggir öryggi vegfarenda, stýrir umferð gesta um svæðið, dregur úr álagi og lágmarkar sjónræn áhrif umhverfis fossinn. Grundarfjarðarbær áformar því að vinna deiliskipulag fyrir áfangastaðinn við Kirkjufellsfoss og nánasta umhverfi, í samvinnu við landeigendur.

Í verkefnislýsingu sem nú er kynnt óskar bæjarstjórn eftir viðbrögðum vegna mótunar og þróunar áningarstaðarins. Bæjarstjórn hvetur því íbúa og aðra áhugasama til að kynna sér þá vinnu sem er að hefjast og koma á framfæri hugmyndum og ábendingum sem nýst gætu við skipulagsvinnuna og síðar frekari þróun og kynningu staðarins. Verkefnislýsinguna má nálgast á skrifstofu Grundarfjarðarbæjar og á vef bæjarins www.grundarfjordur.is

Í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010,  samþykkti bæjarstjórn á fundi þann 14. desember. 2017, að auglýsa lýsingu vegna deiliskipulags við Kirkjufellsfoss.

 

Athugasemdir og ábendingar berist skriflega á netfangið grundarfjordur@grundarfjordur.is
eða með pósti merkt: Grundarfjarðarbær, Deiliskipulag, Borgarbraut 16, 350 Grundarfjörður
fyrir 1. febrúar 2018