Verum sýnileg á gönguferðum og í skokkinu - notum endurskinsmerki og borða

Greinilegt er að margir hugsa sér til útivistar, gönguferða og hreyfingar eftir jóla- og áramótahátíðahöldin.  Það er lífsnauðsyn að notuð séu endurskinsmerki eða endurskinsborðar á þessum tíma árs.  Gætum einnig að börnunum sem eru á leið til og frá skóla og að leik úti við.  Þau þurfa að vera mjög sýnileg.

Tilkynning frá Símenntunarmiðstöðinni á Vesturlandi

Námsvísir vorannar hefur komið inn um lúguna um þetta leyti, en brugðið verður út af vananum í þetta sinn. Ástæðan er sú að Símenntunarmiðstöðin á 10 ára afmæli á þessu ári eða 19. febrúar nk. Af því tilefni hefur stjórn stofnunarinnar skipað afmælisnefnd sem mun vinna að veglegu afmælisblaði sem verður gefið út á vormánuðum.  Einnig er fyrirhugað að halda upp á þessi tímamót með ýmsu móti sem mun vara allt afmælisárið.  

Æfingar hefjast aftur

Æfingar á vegum UMFG hefjast aftur samkvæmt tímatöflu þann 7 janúar.   Stjórnin 

Hildur Sæmundsdóttir sæmd riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu

Á nýársdag sæmdi forseti Íslands ellefu einstaklinga heiðursmerkjum Fálkaorðunnar.  Á meðal þeirra sem þessa heiðurs urðu aðnjótandi, var Hildur Sæmundsdóttir, ljósmóðir frá Grundarfirði.  Hildur hlaut riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir störf að heilbrigðismálum og forvörnum.  Hildur er öllum Grundfirðingum kunn fyrir störf sín, t.d. í heilsugæslunni og fyrir Rauða krossinn.  Hildur hefur vakað yfir velferðarmálum í sinni heimabyggð af mikilli elju og dugnaði um langt árabil.  Hildur er afar vel að þessum heiðri komin og eru henni færðar hamingjuóskir af þessu tilefni.