Skúlína Hlíf skipuð skólameistari

Menntamálaráðherra hefur skipað Skúlínu Hlíf Kjartansdóttur í embætti skólameistara Fjölbrautaskóla Snæfellinga til fimm ára frá 1. apríl 2009 að telja að fenginni umsögn skólanefndar skólans. Tíu umsóknir bárust um embætti skólameistara fjölbrautaskólans. 

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla

Alþingiskosningar fara fram laugardaginn 25. apríl 2009. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar er hafin. Í umdæmi sýslumanns Snæfellinga fer hún fram á eftirtöldum stöðum: Skrifstofu sýslumanns, Hrannarstíg 2 í Grundarfirði, virka daga kl.11 til 15. Skrifstofu sýslumanns, Bankastræti 1A í Ólafsvík, virka daga kl.11 til 15. Skrifstofu hreppsstjóra, Þverá í Eyja – og Miklaholtshreppi, virka daga kl.12 til 13. Skrifstofu sýslumanns, Borgarbraut 2 í Stykkishólmi, virka daga kl.10 til 15.30 en þar verður einnig opið um helgar frá kl. 12 til 13 eftir 1. apríl.

Lögheimili fyrir alþingiskosningar 2009

Með forsetabréfi um þingrof og almennar kosningar til Alþingis nr.14/2009 hefur verið ákveðið að kosningar skuli verða laugardaginn 25. apríl 2009. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 23. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000, sbr.  a-lið ákvæðis til bráðabirgðar í lögum nr. 16/2009, skal taka á kjörskrá alla þá sem skráðir voru með lögheimili í ákveðnu sveitafélagi samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár fjórum vikum fyrir kjördag, uppfylli þeir að öðru leyti skilyrði 1. mgr. 1 gr. kosningalaga.

Danssýning í grunnskólanum

Danskennsla hefur staðið yfir í grunnskólanum síðastliðnar vikur og hefur gengið mjög vel í alla staði. Síðasti danstíminn hjá nemendum verður á morgun, þriðjudaginn 24. mars en kl. 17.00 verður danssýning í íþróttahúsinu og eiga allir nemendur að mæta. Vonumst til að sjá sem flesta foreldra og gesti. Skólastjóri. 

Heimsókn forsetans

Tómas Freyr Kristjánsson fylgdi forsetanum eftir og tók þessar skemmtilegu myndir. Viðbót: Bætt var við myndum Gunnars Kristjánssonar úr Sögumiðstöðinni.   Hr. Ólafur Ragnar Grímsson hóf daginn með morgunverðarfundi með bæjarfulltrúum og embættismönnum Grundarfjarðarbæjar á Hótel Framnesi. Að þessum fundi loknum var haldið í Leikskólann Sólvelli. Nemendur og starfsfólk leikskólans tóku vel á móti forsetanum og var honum m.a. færð teikning að gjöf. 

Sorphirða

Vinsamlegast athugið að sorphirða sem átti að vera í dag frestast til klukkan 13:00 á morgun vegna veðurs.  Einnig er fólki bent á að gámastöðin lokar ef vindhraði fer yfir 20 metra á sek.

103. fundur bæjarstjórnar

103. fundur bæjarstjórnar verður haldinn í samkomuhúsinu á fimmtudaginn 19. mars klukkan 16:15. Og eru allir velkomnir að mæta og hlýða á það sem fram fer. Fundarboð og dagskrá má nálgast hér.

Bókaverðlaun barnanna og örugg netnotkun

Krakkar! Munið að skila kjörmiðum til bókasafnsins fyrir 20. mars. Lesendur á aldrinum 6-12 ára geta valið bestu barnabækurnar af þeim sem komu út árið 2008. Við drögum úr innsendum seðlum og veitum smá verðlaun.   Örugg netnotkun. Minnispunktar fyrir þá sem mættu og hina sem sátu heima. Kveðja, Sunna á bókasafninu.

Hamingja í heimabyggð

 Þriðjudagskvöldið 31. mars nk. munu Kvarnir - áhugahópur um framtíð Snæfellsness boða til íbúafundar í Grundarfirði. Rætt verður þar um allt það sem íbúar telja að við getum gert til að láta hamingjuna blómstra hér á Nesinu, þrátt fyrir umrót í samfélaginu. Fólk er hvatt til að mæta og taka þátt í umræðunum.

Heilbrigði og hreysti

Þemadagar í Grunnskóla Grundarfjarðar 16.-19. mars 2009 Nú standa yfir þemadagar í skólanum og mikið um að vera hjá nemendum. Skóladagurinn byrjar á hollum morgunverði þar sem nemendum er boðið upp á hafragraut og lýsi og síðar ávexti eins og alla aðra daga. Á yngsta stigi er m.a. lögð áhersla á söng og hreyfingu ásamt því að finna út hvaða matur er hollur og hvaða matur er óhollur.