Ársreikningur 2011

Ársreikningur Grundarfjarðarbæjar fyrir árið 2011 var samþykktur við síðari umræðu í bæjarstjórn 10. maí sl. Rekstrarniðurstaða var jákvæð um 121 milljón kr. sem er verulega betri niðurstaða en árið 2010. Skýring á bættri afkomu er sú að á árinu voru ólögleg gengisbundin lán sveitarfélagsins endurreiknuð og voru tekjufærðar 206 milljónir kr. vegna þess. Grundarfjarðarbær hefur glímt við þrönga fjárhagsstöðu undanfarin ár og er fjármagnskostnaður sveitarfélaginu þungur. Þann 15. febrúar 2010 féll dómur í Hæstarétti þar sem segir að óheimilt hafi verið að reikna Seðlabankavexti á lánin aftur í tímann. Nota átti samningsvexti lánanna. Ef dómurinn hefur almennt fordæmisgildi munu lán sveitarfélagsins lækka enn frekar en óvist er hve mikil sú lækkun gæti orðið.  

Vinnuskóli sumarið 2012.

Vinnuskóli Grundarfjarðar verður starfræktur sumarið 2012 frá 4. júní fram til 26. júlí, alls átta vikur. Vinnuskólinn er fyrir unglinga fædda árin 1996, 1997 og 1998 og starfar í tveimur tímabilum. Hið fyrra stendur frá 4.-28. júní að báðum dögum meðtöldum og hið seinna 2.-26. júlí að báðum dögum meðtöldum.  Þátttakendum verður skipt niður á tímabil eftir að skráningu lýkur. Vinnutími: mánudaga til fimmtudaga kl. 8:30-12:00.  

Augnlæknir

Guðrún Guðmundsdóttir augnlæknir verður með móttöku á HVE Grundarfirði fimmtudaginn 31. maí n.k.Tekið er á móti tímapöntunum á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar, sími 432 1350.  

Slökkt á ljósastaurum

Ákveðið hefur verið að slökkva á ljósastaurum nú yfir bjartasta tíma ársins. Þegar hefur verið óskað eftir við Rarik að slökkva á staurunum og er þess vænst að það verði gert allra næstu daga. Slökkt verður til 26. júlí.   Tilraun var gerð með þetta í fyrra og tókst hún vel. Á þessum árstíma loga ljós á ljósastaurum á næturna þegar þungbúið er. Með þessari aðgerð næst nokkur orkusparnaður. Tímabilið sem slökkt verður á ljósastaurum er nú  lengt um tvær vikur í maí en stytt um tæpa viku í júlí.   Við vonum að bæjarbúar taki þessu jafn vel og í fyrra. 

Bæjarstjórnarfundur

149. fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðar verður haldinn í Samkomuhúsinu, fimmtudaginn 10. maí 2012, kl. 16:30.   Fundir bæjarstjórnar eru opnir og er öllum heimilt að koma og fylgjast með því sem fram fer.  

Köttur í óskilum.

  Þessi köttur er í óskilum í Áhaldahúsinu og geta eigendur hans vitjað hans þar.  

Frá Tónlistarskóla Grundarfjarðar

Skólaslit og vortónleikar Tónlistarskóla Grundarfjarðar verða í sal Fjölbrautaskóla Snæfellinga sunnudaginn 13. maí kl. 14. Vonumst til að sjá sem flesta.  

Háls-, nef og eyrnalæknir

Þórir Bergmundsson háls-, nef og eyrnalæknir verður með móttöku á HVE Grundarfirði föstudaginn 25. maí n.k.   Tekið er á móti tímapöntunum á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar, sími 432 1350.    

Fundur með eldri borgurum

Bæjarstjóri og forseti bæjarstjórnar boða til fundar með eldri borgurum  í safnaðarheimili Grundarfjarðarkirkju mánudaginn 7. maí kl. 15:00.   Allir eldri borgarar í Grundarfirði eru hvattir til að koma og eiga samræður um málefni sem á þeim brenna.   Bæjarstjóri

Vorið er komð

Hreinsum bæinn Nú er vorið loksins komið eftir langan vetur. Búið er að sópa götur bæjarins og innan tíðar verða merkingar á götur málaðar. Þá er verið að undirbúa sumarstörfin í áhaldahúsinu en þau verða með svipuðu sniði og undanfarin ár. Áætlað er að ráða fleiri starfsmenn en áður í ýmis umhverfisverkefni.   Nokkurt rusl er á götum bæjarins eins og oft er á þessum árstíma. Gjarnan vilja menn kenna vetrinum um sóðaskapinn og enn aðrir kenna því um að starfsmenn bæjarins hirði rusl ekki nógu oft. Ástæðan fyrir rusli á götum og torgum er okkur mun nær, þ.e. að rusli er hent á víðavangi en ekki í ruslatunnur. Það er því okkar eigin umgengni sem skiptir mestu máli. Göngum snyrtilega um bæinn okkar, okkur sjálfum og gestum okkar til ánægju.   Mánudaginn 7. maí og mánudaginn 14. maí munu starfsmenn áhaldahúss hirða garðaúrgang sem skilinn er eftir við lóðarmörk. Íbúar eru hvattir til þess að nýta tækifærið nú um helgina og næstu helgi að hreinsa sitt nánasta umhverfi. Mikilvægt er að ganga frá ruslinu þannig að einfalt sé að hirða það.   Það er einkar ánægjulegt þegar íbúar sýna frumkvæði í umhverfismálum og eru öðrum til fyrirmyndar í þeim efnum og hvetja aðra til góðrar umgengni. Höldum því áfram, hvort sem það er með eigin umgengni, greinskrifum í blöð eða hvoru tveggja.