- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Á 302. fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar fyrr í mánuðinum ályktaði bæjarstjórn um stefnumörkun ríkisins um svokallaðar byggðatengdar veiðiheimildir.
Bókun bæjarstjórnar er þannig:
Stefnumörkun ríkisins um byggðatengdar veiðiheimildir
Málsnúmer 2510014
Lögð fram ýmis gögn tengd stefnumörkun ríkisins um byggðatengdar veiðiheimildir, m.a. skelbætur.
Endurskoðun innviðaráðherra á byggðakerfi sjávarútvegsins stendur enn yfir og hefur leitt af sér bið og mikla óvissu hjá þeim fyrirtækjum sem hafa á undanförnum árum fengið úthlutað skel- og rækjubótum, sem og byggðakvóta.
Bæjarstjórn lýsir yfir þungum áhyggjum af þessari stöðu. Úthlutun byggðakvóta og skelbóta hefur um árabil skipt atvinnulíf og samfélag í Grundarfirði miklu máli. Fyrirsjáanleiki er lykilatriði þegar kemur að starfsemi og úthlutun veiðiheimilda eins og hér.
Hér er um að ræða umtalsverða hagsmuni fyrir fyrirtæki sem stunda útgerð og fiskvinnslu í bænum og hafa byggt rekstrargrundvöll sinn að hluta á þessum aflaheimildum.
Sjávarútvegur er hryggjarstykkið í atvinnulífi Grundarfjarðar og langstærsti hluti útsvarstekna sveitarfélagsins kemur frá veiðum og vinnslu.
Með því að skerða eða afnema skelbætur og byggðakvóta er verið að veikja rekstrargrundvöll þeirrar starfsemi sem hér fer fram, bæjarsjóðs og samfélagsins þar með.
Bæjarstjórn tekur fram að ekkert samráð hefur átt sér stað við sveitarfélagið vegna stefnumörkunar ráðherra og þeirra tafa sem orðið hafa á útgáfu framangreindra heimilda. Bæjarstjórn leggur ríka áherslu á að tryggt verði samráð við sveitarfélög í þessari stöðu, í þeirri stefnumótunarvinnu sem nú stendur yfir.
Bæjarstjórn lýsir jafnframt yfir alvarlegum áhyggjum af því að reglugerð um skelbætur hafi ekki verið gefin út og svo virðist sem unnið sé að því að svipta skelútgerðir aflaheimildum með varanlegum afleiðingum fyrir atvinnulífið. Bæjarstjórn telur rétt að árétta sögulega tilkomu skelbóta, þegar fyrirtæki við Breiðafjörð afsöluðu sér varanlegum aflaheimildum í staðinn fyrir skelkvóta; staðreynd sem ekki má horfa framhjá við ráðstöfun heimildanna nú.
Bæjarstjórn leggur því þunga áherslu á að reglugerð um skelbætur verði gefin út án tafar, þrátt fyrir þá stefnumörkunarvinnu ráðherra sem nú stendur yfir.
----
Ályktun bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar var komið á framfæri við innviðaráðherra, atvinnuvegaráðherra og forsætisráðherra.
Grein úr Skessuhorni 10. september 2025
Grein úr Morgunblaðinu 5. september 2025
Þingmálaskrá innviðaráðherra