Bergvin Sævar, til vinstri á mynd, sinnir m.a. umsjón með húsnæði leikskólans. Hér er hann með Margr…
Bergvin Sævar, til vinstri á mynd, sinnir m.a. umsjón með húsnæði leikskólans. Hér er hann með Margréti Sif leikskólastjóra, Sigurborgu Knarran og Áslaugu Stellu eldvarnafulltrúum leikskólans og Valgeiri slökkviliðsstjóra/verkstjóra við yfirferð um eldvarnir leikskólans í janúar 2023.

Bergvin Sævar Guðmundsson hefur verið ráðinn til starfa við eignaumsjón hjá Grundarfjarðarbæ. Sævar hefur sinnt starfinu í afleysingum frá því í byrjun september 2022, en starfið var auglýst þann 21. apríl sl. og var gengið frá ráðningu í kjölfarið.

Starfið felur í sér umsjón fasteigna og annarra mannvirkja bæjarins, eftirlit og umsjón með viðhaldi eignanna, samskipti við notendur húsnæðis, verktaka, birgja og fleiri.  Á síðastliðnum vetri var unnið að auknu samstarfi eignaumsjónar og áhaldahúss, og er stefnan að auka samstarf og samrekstur þessara þjónustustofnana enn frekar.

Sævar býr í Grundarfirði ásamt fjölskyldu sinni. Hann hefur starfað við sjómennsku í yfir 40 ár, lengst af á togurum en einnig á smærri bátum, auk þess sem hann hefur unnið fjölbreytt störf í landi. Sævar er með 30 tonna skipstjórnarréttindi og hefur stundað eigin trilluútgerð í mörg ár.

Við bjóðum Sævar velkominn til liðs við okkur hjá Grundarfjarðarbæ!