Vinnslutillögur vegna breytingar á aðalskipulagi og vegna nýs deiliskipulags fyrir hafnarsvæði

Þann 11. maí sl. samþykkti bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar að kynna vinnslutillögu vegna breytingar á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 í samræmi við 2. mgr. 30 gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 4.6.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Breytingin er í samræmi við rammahluta aðalskipulags.

Sjá stærri mynd hér

Greinargerð með breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðarbæjar 2019 2039

Helstu markmið aðalskipulagsbreytingarinnar eru að styrkja Framnes sem svæði fyrir heilsársferðaþjónustu, þ.m.t. hótel og aðra þjónustu í bland við hreinlega athafnastarfsemi og íbúðir á hluta svæðisins, að auka svigrúm fyrir hafnsækna starfsemi og bæta umferðarflæði og umferðaröryggi á hafnarsvæðinu. 

Á sama fundi samþykkti bæjarstjórn jafnframt að kynna samhliða vinnslutillögu vegna nýs deiliskipulags fyrir norðurhluta hafnarsvæðis í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Helstu markmið nýs deiliskipulags eru að auka svigrúm fyrir hafnsækna starfsemi, greiða fyrir umferð og gera umferðarleiðir öruggari. 

Helstu efnisatriði aðal- og deiliskipulagsins sem snúa að hafnarsvæði eru að:

  • Koma fyrir lítilli landfyllingu milli Norðurgarðs og Miðgarðs
  • Minnka landfyllingu norðaustan Nesvegar frá því sem gildandi deiliskipulag gerði ráð fyrir
  • Lengja Miðgarð um allt að 50 m
  • Bæta aðstöðu fyrir eldsneytisbirgðir og -dreifingu
  • Breyta fyrirkomulagi bíla- og rútustæða
  • Auka almennt umferðaröryggi gangandi vegfarenda á hafnarsvæðinu
  • Fastsetja lóðarmörk, breyta og aðlaga lóðarstærðir m.a. við strandstíg

Vinnslutillögurnar eru til sýnis á vef sveitarfélagsins www.grundarfjordur.is og einnig liggja þær frammi í Ráðhúsinu og Sögumiðstöðinni á opnunartímum frá 15. maí til og með 26. maí.

Opið hús um tillögurnar verður miðvikudaginn 24. maí frá kl. 9-12 á skrifstofu skipulagsfulltrúa (fundarherbergi) í ráðhúsinu að Borgarbraut 16. 

Hagsmunaaðilum og almenningi er nú gefinn kostur á að senda inn athugasemdir og/eða ábendingar til skipulagsfulltrúa sem nýst geti við áframhaldandi vinnslu tillagnanna á netfangið: skipulag@grundarfjordur.is og skulu þær berast til og með 26. maí 2023.  

Athygli er vakin á því að hér er um vinnslutillögur að ræða. Að lokinni þessari kynningu verða tillögur síðan fullunnar og þá teknar til afgreiðslu í bæjarstjórn og auglýstar í 6 vikur í samræmi við 30. gr., 31. gr. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsagnaraðilum, hagsmunaaðilum og almenningi verður þá aftur boðið að kynna sér tillöguna og senda inn athugasemdir. 

 

Grundarfirði, 12. maí 2023. 

Kristín Þorleifsdóttir,
skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar