Gróf afmörkun á deiliskipulagssvæðinu sýnd með rauðri línu ofan á landnotkunaruppdrætti aðalskipulag…
Gróf afmörkun á deiliskipulagssvæðinu sýnd með rauðri línu ofan á landnotkunaruppdrætti aðalskipulagsins. Hluti af afþreyingarsvæðinu AF-1 breytist og verður hluti af íbúðarsvæði ÍB-4.

Skipulagslýsing - Breyting á Aðalskipulagi Grundarfjarðar og nýtt deiliskipulag fyrir íbúðarbyggð á Háubökkum

Á 272. fundi skipulags- og umhverfisnefndar 10. nóvember sl., staðfest á 303. fundi bæjarstjórnar 13. nóvember 2025, var samþykkt skipulagslýsing vegna fyrirhugaðs deiliskipulags fyrir íbúðarbyggð á Háubökkum og fyrir tilheyrandi breytingu á Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 vegna stækkunar á íbúðarsvæði ÍB-4 (Sæból og botnlangar vestast á Grundargötu). Er þetta í samræmi við 1. mgr. 30. og 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Grundarfjarðarbær finnur fyrir eftirspurn eftir íbúðum og gera má ráð fyrir að 5-10 íbúðir þurfi á hverju ári næstu árin, skv. húsnæðisáætlun. Nú þegar er gert ráð fyrir nýjum íbúðum í Ölkeldudal og fyrirhugaðar eru íbúðir skv. skipulagi á Miðbæjarreit, en þar er um aðrar íbúðargerðir að ræða, þ.e. raðhús og fjölbýli. Á Háubökkum er gert ráð fyrir einbýlishúsum í samræmi við nærliggjandi hús sem þegar eru á íbúðarsvæði ÍB-4. 


Horft í suðaustur yfir skipulagssvæðið, sem er fremst á myndinni og þéttbýlið í Grundarfirði.

Svæðið er staðsett vestan við ystu hús á Grundargötu og er nokkurs konar hlið inn í bæinn frá vestri. Svæðið er mjög vel sýnilegt frá þjóðveginum með einstöku útsýni til sjávarins, í átt að Kirkjufelli til norðvesturs og að Helgrindum til suðurs. Um er að ræða gamalt landbúnaðarland sem hallar niður í átt að sjó og liggur lækur í gegnum svæðið. Verið er að kortleggja vatnsrennsli í læknum til þess að meta hversu nærri honum byggðin má vera. Íbúðarsvæðið verður framlenging á núverandi íbúðarsvæði vestast við Grundargötu með tvöfalda röð af 1-2 hæða einbýlishúsum. Fyrirkomulag og fjöldi lóða hefur þó ekki enn verið ákveðinn.

Grundargata er aðalgata bæjarins, sem liggur þvert í gegnum hann og gegnir jafnframt hlutverki stofnvegar í þjóðvegakerfi landsins. Um hana fer bæði allur gegnumakstur og stór hluti innanbæjarumferðar. Mikilvægt er að tekið sé tillit til beggja hlutverka við útfærslu götunnar, þ.e. að um leið og hugað er að því að greiðfært sé og gott aðgengi að þjónustu, þá þarf að passa upp á góð skilyrði fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og að gatan sé örugg og aðlaðandi sem almenningsrými. Gangstétt meðfram Grundargötu norðanverðri endar núna við hús nr. 92, við vestasta botnlangann á Grundargötu.


Skýringarmynd sem sýnir hugmynd að mögulegu fyrirkomulagi lóða á reitnum. Fyrirkomulag og fjöldi lóða hefur þó ekki enn verið ákveðinn.

 

Skipulagslýsing þessi er einnig auglýst í héraðsfréttablaðinu Skessuhorni og í Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar, sjá slóðir:

https://skipulagsgatt.is/issues/2025/1500

https://skipulagsgatt.is/issues/2025/1502

Útprentuð gögn eru einnig aðgengileg í Ráðhúsi Grundarfjarðar og Bókasafni/Sögumiðstöð, Grundargötu 35.

Lýsingin er auglýst á tímabilinu 14. nóvember – 1. desember 2025. Ábendingar og athugasemdir við lýsinguna skulu berast í síðasta lagi fyrir dagslok mánudag 1. desember 2025 í gegnum Skipulagsgátt Skipulagsstofnunar (sjá slóðir hér fyrir ofan).

Hér má nálgast skipulagslýsinguna

 

Grundarfirði, 14. nóvember 2025, 
Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi Grundarfjarðarbæjar