Sumar 2019. Mynd Tómas Freyr Kristjánsson.
Sumar 2019. Mynd Tómas Freyr Kristjánsson.

Kæru íbúar! 

Ég minni á Covid-síðuna á vef Grundarfjarðarbæjar, slóð hér. Þar má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar, einnig á ensku og pólsku, yfirlit yfir þjónustu og starfsemi stofnana bæjarins á tímum takmarkana á samkomu- og skólahaldi og hlekk á opnunartíma og þjónustu fyrirtækja í bænum. Síðan er uppfærð eftir því sem breytingar verða.

Staðan í dag 

Nýtt smit greindist í Stykkishólmi í gær. Samtals hafa þá 41 greinst smitaðir á Vesturlandi en 8 eru nú í einangrun, sem þýðir að 33 hafa fengið bata. Í sóttkví á Vesturlandi öllu eru nú 24, þar af 3 hjá okkur. Sjá nánar á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi

Fundir með fulltrúum fyrirtækja í ferðaþjónustu

Í dag og í fyrradag áttu bæjarfulltrúar fjarfundi með fulltrúum ferðaþjónustufyrirtækja í bænum.
Boðið var til fundanna í samræmi við samþykkt bæjarstjórnar á fundi rétt fyrir páska. Fundirnir voru til upplýsingaöflunar fyrir bæjarstjórn, vegna aðgerða og ráðstafana bæjarins, en einnig fannst fundarfólki samtalið gagnlegt og komu fram hugmyndir um að hittast/heyrast fljótlega aftur.

Langflest ferðaþjónustufyrirtækin eru afar háð erlendum ferðamönnum. Sökum þess hve óvissan er mikil um hvenær þeir fara að koma aftur til landsins, er erfitt að gera áætlanir fram í tímann um rekstur og starfsemi.  Fram kom að mikilvægt væri að horfa jákvæðum augum á næstu vikur og undirbúa ferðasumarið/haustið 2020, þar sem aðallega Íslendingar verða á ferðinni. Mikill samstarfsvilji var hjá fundarfólki og stefnt er að frekari fundum og samtali á næstunni. 

Í næstu viku fundar bæjarráð og skoðar þá m.a. fjárhagsáætlun 2020, einkum framkvæmdaáætlun ársins, og metur þörf fyrir breytingar á henni, m.t.t. breyttrar stöðu. Áform um frekari fundi og samtöl við fulltrúa fyrirtækja verða einnig sett niður.

Stóri plokkdagurinn næsta laugardag

Stóri plokkdagurinn fer fram á degi umhverfisins, laugardaginn 25. apríl nk., og við verðum að sjálfsögðu með! Meira um það síðar - en við getum farið að setja okkur í stellingar. 

Veturinn kveður 

Í dag er síðasti dagur þessa óblíða og óvenjulega vetrar. Við erum áreiðanlega flest tilbúin til að kveðja hann og taka fagnandi á móti sumri, sem við vonum að verði okkur blítt og ljúft, veðurfarslega og að öðru leyti. Sumarkoma hefur lengi verið fagnaðarefni á landinu okkar kalda, þó árstíðaskiptin séu oftar meira táknræn heldur en hitt. 

Í ár verður sumri fagnað með takmörkunum samkomuhalds, sem við erum farin að þekkja. Engu að síður ætlum við að fagna komu sumars, hvert okkar á sinn hátt. Skátarnir efna til útivistardags og skora á okkur að fara í gönguferðir á þrjá vel valda áfangastaði; í skógræktarlundinn í þéttbýli Grundarfjarðar, um Kirkjufellsfjöru að Hnausavita og síðast en ekki síst, uppá Klakk - fyrir þau sem eru sporviljugust. Að sjálfsögðu gætum við fyllstu varúðar, fjölskyldur ganga saman og gæta fjarlægðartakmarkana við aðra. Göngufólk er hvatt til að taka myndir, pósta þeim á samfélagsmiðla og merkja #grundosumar, auk þess að setja nafn sitt á miða í þar til gerða bauka sem staðsettir eru á hverjum áningarstað. Dregið verður úr nöfnum þátttakenda kl. 18.00. Hér má lesa nánar um þetta frábæra framtak Skátanna. 

Vertu nú sæll vetur 2019-2020!
Velkomið sumar 2020! 

Takk fyrir veturinn kæru íbúar og aðrir lesendur! 
Og gleðilegt sumar!

Björg