Bleik dagrenning, 27. október 2020.
Bleik dagrenning, 27. október 2020.

Kæru íbúar!

Við höfum fengið ákall, enn á ný, um að sýna skilning, samstöðu og þolinmæði í yfirstandandi baráttu.
Á miðnætti tóku gildi nýjar reglur um hertar aðgerðir, sem eru núna hinar sömu fyrir landið allt. Gefið hefur verið út að þær gildi til 17. nóvember, með fyrirvara um endurskoðun og breytingar eftir því hvernig gengur að ráða við útbreiðslu veirunnar. Við þurfum að laga okkur að þessu nýja mynstri, hratt og vel. Það er tímabundið og við skulum ganga í verkið, samstillt og ákveðin.

Helstu breytingar

Helstu aðgerðir eru þessar:

 • 10 manna fjöldatakmörk eru meginregla. Þetta gildir ekki um heimilisfólk þar sem fleiri búa á sama heimili.
 • Á vinnustöðum og í allri starfsemi þarf að tryggja að ekki séu á sama tíma fleiri en tíu einstaklingar inni í sama rými og að ekki sé samgangur milli rýma.
 • Sérreglur gilda um skólastarf og verða þær kynntar á morgun, sunnudag.
 • 50 manna hámarksfjöldi í lyfja- og matvöruverslunum, en reglur eru um aukinn fjölda með hliðsjón af stærð húsnæðisins.
 • 30 manns mega vera við útfarir en 10 að hámarki í erfidrykkjum.
 • Fjöldatakmarkanir gilda ekki um almenningssamgöngur, hópbifreiðar, innanlandsflug eða störf viðbragðsaðila.
 • Íþróttastarf er óheimilt, jafnt innan dyra sem utan.
 • Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar loka.
 • Starfsemi og þjónusta sem krefst mikillar nándar má ekki fara fram, t.d. hjá hársnyrtistofum, snyrtistofum, nuddstofum og í ökunámi. Þetta gildir þó ekki um heilbrigðis- og umönnunarstarfsemi. 
 • Krár og skemmtistaðir loka.
 • Veitingastaðir með vínveitingaleyfi mega hafa opið til 21.00, en fjöldatakmörkin eru 10 manns og starfsmenn teljast þar með, svo ekki er sennilegt að mörg veitingahús sjái sér fært að taka á móti matargestum. Þó er heimilt að selja mat út úr húsi til kl. 23.
 • Sviðslistir og sambærileg starfsemi er óheimil.

Ein helsta breytingin nú felst í því að við eigum öll að nota andlitsgrímur í verslunum og annarri þjónustu, einnig í almenningssamgöngum. Eins og áður er grímuskylda alls staðar þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðarmörk milli einstaklinga sem ekki eru í nánum tengslum.  

Sóttvarnareglurnar ná til allra sex ára og eldri. Það er breyting, því hingað til hafa þær ekki náð til barna á grunnskólaaldri. Þegar talað er um fjöldatakmörk, þá teljum við ekki með börn fædd 2015 og síðar. Yngri börnin eru nefnilega undanþegin fjöldatakmörkunum, nálægðartakmörkum og grímuskyldu. 

Skólastarf

Í leikskóla verður ekki nein teljandi breyting á starfi með börnunum. Starfsfólk þarf áfram að gæta að nálægðarmörkum sín á milli og 10 manna fjöldamörkin hafa ekki ýkja mikil áhrif m.v. það hvernig starfinu hefur verið háttað síðustu vikurnar. Grímuskylda er hjá foreldrum þegar komið er með börnin og þau sótt. 

Ef frekari breytingar verða, sendir leikskólastjóri póst til foreldra og tilkynning verður birt á vef bæjarins.

Um miðjan dag á morgun, sunnudag, verður kynnt ný reglugerð um ráðstafanir í starfsemi grunnskóla, en við vitum að þær reglur taka ekki gildi fyrr en næsta miðvikudag, 4. nóvember. [BREYTING 1. NÓV.: Ný reglugerð tekur gildi þriðjudag 3. nóv.] Það verður því starfsemi að venju í grunnskólanum, með nær óbreyttu sniði hjá okkur á mánudag, [en á þriðjudag verður breytt fyrirkomulag, sem kynnt verður nánar mánudag 2. nóv.]

Starfsfólk mun á þeim tíma undirbúa breytt fyrirkomulag sem felur væntanlega í sér hólfaskiptingu í líkingu við það sem við kynntumst í vor. Þó vissulega sé það krefjandi, þá gekk það fyrirkomulag vel upp hjá okkur hér í Grundarfirði og við búum að þeirri reynslu núna.

Við vitum líka að breyttar reglur nk. miðvikudag munu þýða grímuskyldu fyrir unglingastigið, en ekki yngsta stigið – en óvíst er með miðstigið.

Ég heyrði í skólastjóranum okkar í dag, en hann og aðstoðarskólastjóri hafa þegar lagt línur um væntanlegar breytingar, byggt á reynslu síðasta vors.

Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til þess að fylgjast vel með tilkynningum frá grunnskóla og verða þær tilkynningar einnig birtar á vef og Facebook-síðu grunnskóla og bæjarins. 

Kennsla í framhaldsskólum og háskólum takmarkast við 10 manna hópa og áhersla er lögð á fjarnám. Hjá FSN er kennsla nú alfarið í fjarnámi, á TEAMS, einnig kennsla á starfsbraut. 

Íþróttir, hreyfing og félagsstarf

Íþróttastarf leggst núna af, fram til 17. nóvember, með fyrirvara um hvernig gengur.

Íþróttahúsið lokar alveg og verður væntanlega tekið undir starf grunnskólans. Frá og með deginum í dag lokaði sundlaug og heitir pottar. Líkamsræktarstöðvar loka sömuleiðis.

Það er mikilvægt að minna á að þessi takmörkun nær EKKI til einstaklingsbundinna æfinga án snertingar.
Það þýðir að okkur er algjörlega fært að fara út að ganga, skokka, hjóla, dansa, iðka sjósund og sambærilega hreyfingu.

Í fréttum dagsins heyrðum við af því að nú tekur gildi mánaðarlangt víðtækt útgöngubann á Englandi, í annað sinn frá því veiran stakk sér niður. Við búum við mikil forréttindi hér á landi, að geta notið íslenskrar náttúru, víðáttunnar og mikilla loftgæða. Hér í Grundarfirði búum við með náttúruna í bæjarhlaðinu, en tökum því stundum sem sjálfsögðum hlut. Við gætum sett okkur markmið um að nýta betur útisvæðin okkar og nærumhverfið, til að hreyfa okkur og næra, einmitt núna.   

Félagsstarf unglinga hefur að mestu fylgt reglum um skólastarf, t.d. fjöldamörk í hópum, svo við bíðum nýju reglugerðarinnar sem birt verður á morgun.

Félagsstarf eldri íbúa hefur verið í hléi í nokkurn tíma. Heilsueflingin var farin að hittast á útiæfingum í Þríhyrningi og mæltist vel fyrir. Við verðum að skoða vel hvað hægt er að gera til að styðja eldri íbúana okkar til hreyfingar og til að njóta félagsskapar. Meira síðar.

Verslun og þjónusta

Mig langar aðeins að tala um verslun og þjónustu. Starfsfólk í verslunum og við þjónustu leggur sig fram á hverjum degi til að við getum náð í nauðsynjar; mat, lyf, hannyrðavörur, nammi og já ... þið vitið allt hitt. Veitingafólkið sömuleiðis og aðrir í þjónustu. Fyrir það er ástæða til að þakka – og ennfremur að reyna að styðja við þjónustuaðila í heimabyggð.

Við skulum taka höndum saman og vanda okkur þegar við nýtum þeirra þjónustu. Fylgjum skyldu um að nota andlitsgrímur þegar við förum í verslanir og á aðra staði þar sem erfitt er að halda 2ja metra reglunni. Við erum orðin vön að spritta hendur. Það er líka gott að reyna að fækka verslunarferðum og senda aðeins einn úr hverri fjölskyldu í búðirnar. Með góðri skipulagningu er hægt að versla meira í einu, ganga ákveðið til verks með góðan innkaupalista og taka tillit til annarra á staðnum.

Menningin

Þessa vikuna hafa staðið yfir árlegir Rökkurdagar, menningarhátíð Grundfirðinga. Rökrétt fyrstu viðbrögð hefðu verið að slá hátíðina af, vegna 20 manna fjöldatakmörkunar sem í gildi hefur verið, auk annarra varúðarráðstafana. Í staðinn var farin sú leið að hugsa hvað við gætum gert, bæjarbúar, til að njóta menningar með öðrum hætti og huga hvert að öðru. Dagskrá Rökkurdaga ber þess merki að allt er nú með öðrum brag. Engu að síður höfum við notið þess að hreyfa okkur í hægu haustveðri, sett ljós og hjörtu út í glugga til að lýsa upp vaxandi skammdegið, að ekki sé talað um metnað í hrekkjavökuskreytingum sem gaman er að skoða. Börnin hafa glatt okkur með list sinni og skilaboðum, sem borin voru í hvert hús nú í gær. Í gærkvöldi var svo rúsínan í pylsuendanum; Rökkurlögin á Rökkurdögum. Þar komu fram söngelskir Grundfirðingar og glöddu okkur með söng, í útsendingu á Youtube-svæði Grundarfjarðarbæjar á vefnum. Hér má horfa á gleðigjafana.

Ég vil þakka þeim fjölmörgu sem lagt hafa sitt af mörkum í þessari viku til að gleðja okkur með margvíslegum hætti.

Gerum þetta saman

Það er mjög eðlilegt að detta í þann gír að „nenna þessu ekki“. Það reynir á okkur á svona tímum; áhyggjur af fjármálum og heilsufari íþyngja fleirum en við vitum. Við eigum líka misgott með að takast á við röskun á daglegri rútínu og því sem við höfum talið til sjálfsagðra hluta, eins og að umgangast vini og fjölskyldu og njóta afþreyingar. Það er í eðli okkar að sækjast eftir samfélagi við aðra.

Við skulum samt ganga til þessara breytinga af æðruleysi og jákvæðni. Skoðum þessar nýju reglur og leiðbeiningar og leggjum okkur fram um að fylgja þeim. Tölum jákvætt um þær - því flest erum við fyrirmyndir einhverra annarra. Þó smitum hafi ekki fjölgað í Grundarfirði  vitum við að þetta er viðkvæm staða og það þarf lítið til að smit geti breiðst út á ógnarhraða.  

Höldum áfram að gleðja og gleðjast, styðja og hugsa hvernig við getum gert þennan sérstaka tíma betri, fyrir okkur og fyrir aðra. Fyrir hvað getum við verið þakklát og hvernig viljum við minnast þessa tíma, seinna meir, þegar þessu tímabili lýkur? Hvað var það sem hjálpaði til við að komast í gegnum þetta, hver var það sem studdi og gladdi? – Leggjum öll okkar af mörkum og gerum þetta saman.

Björg