Stöðin, frá Víkurrifi, 3. október 2020.
Stöðin, frá Víkurrifi, 3. október 2020.

Kæru íbúar!

Samkvæmt upplýsingum í gær og í dag eru engin ný smit í Grundarfirði. Það eru góðar fréttir. Á Vesturlandi öllu voru engin ný smit á föstudag og laugardag, 26 manns eru nú í einangrun og 33 í sóttkví á Vesturlandi. 

Áhyggjur af aukningu innanlandssmita 

Á landinu greindust 61 smit á föstudag 2. október, þar af 39 utan sóttkvíar og í gær, laugardag, greindust 47 smit og af þeim voru 36 ekki í sóttkví. Í fréttum hefur komið fram að hröð aukning síðustu daga sé mikið áhyggjuefni. Alls eru nú 634 einstaklingar í einangrun á landinu öllu og 2.554 í sóttkví.

Í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra í gær, 3. október 2020, segir að frá 15. september til 1. október hafi um 560 einstaklingar greinst með COVID-19 innanlands, um 30-40 nýgreind smit á dag og einungis um helmingur nýgreindra hafi verið í sóttkví. Þeim hafi líka fjölgað sem veikst hafa alvarlega og  nokkuð áreiðanleg merki séu um að veiran sé ekki veikari en hún var sl. vetur. Spálíkan vísindamanna bendi til að núverandi bylgja muni a.m.k. standa út október og muni um eða yfir 1.000 manns sýkjast. 

Hertar ráðstafanir á landsvísu

Með hliðsjón af þessari þróun ákvað ríkisstjórnin á fundi í gær að sóttvarnaraðgerðir verði hertar til að vinna gegn útbreiðslu Covid-19. Á morgun, mánudag 5. október, tekur gildi ný reglugerð þar sem heilbrigðisráðherra fer að mestu að tillögu sóttvarnalæknis um aðgerðir. Helstu breytingar verða þessar: 

  • 20 manna fjöldatakmörkun verður meginreglan.
  • Undantekningar eru þó frá því, t.d. 50 manna hámark í jarðarförum og 100 manna hámark í tilteknum verslunum.
  • Ekki verða breytingar á starfsemi leik- og grunnskóla og íþróttastarfi barna.
  • Í framhalds- og háskólum verða 25 manna fjöldatakmarkanir og er þar miðað við algenga bekkjarstærð.
  • Líkamsræktarstöðvum verður lokað, en sundlaugar verða áfram opnar með þrengri fjöldatakmörkunum eða 50% af leyfilegum fjölda samkvæmt starfsleyfi.
  • Krám, skemmtistöðum og spilasölum verður lokað.
  • Áfram verður eins metra reglan í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð.
  • Reglur í íþrótta- og menningarstarfsemi verða birtar í auglýsingu á morgun. Ekki verður t.d. gert ráð fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum og starfsemi leikhúsa miðast við 100 manna hólf og grímuskyldu. 

VIÐBÓT - Neyðarstig almannavarna frá og með miðnætti

Nú um miðjan sunnudag 4. okt. liggur fyrir að ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna sýkinga af völdum COVID-19. Neyðarstig tekur gildi á miðnætti aðfaranótt mánudagsins 5. október, samhliða hertum  sóttvarnaaðgerðum.  
Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, þ.e. sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldra fólks, að huga vel að sóttvörnum og forðast mannamót að óþörfu.
 

Áhrif á starfsemi Grundarfjarðarbæjar

Samkvæmt því sem fram kemur í fréttum á ekki að verða breyting á starfsemi leik- og grunnskóla. Við bíðum eftir að sjá betur hvað breyttar reglur þýði fyrir félags- og æskulýðsstarf, t.d. félagsmiðstöð unglinga. Breyttar reglur ættu ekki að hafa mikil áhrif á opnun sundlaugar.

Hér á vef Grundarfjarðarbæjar má sjá uppfært yfirlit yfir ráðstafanir sem stofnanir bæjarins hafa gripið til

Verslunarferðir og þjónusta 

Ekki er lengur í gangi sérstakur opnunartími í Kjörbúðinni fyrir viðkvæmt fólk milli 9 og 10 virka daga. Of erfitt reyndist að fylgja því eftir gagnvart viðskiptavinum. Í versluninni eru hins vegar spritt og hanskar í boði fyrir viðskiptavini, sem og aðstaða til að þrífa kerruhandföng. Starfsfólk hefur sömuleiðis hert á þrifum, að sögn verslunarstjóra. 

Það er ljóst að nú þurfum við að gæta þess mjög vel að virða fjarlægðarmörk við aðra viðskiptavini í verslunum og þjónustustöðum bæjarins. Sömuleiðis væri æskilegt að við næðum að versla til lengri tíma í einu. Færri búðarferðir draga úr líkum á smitum, auk þess augljósa ávinnings, að spara okkur tíma. 

Hér á vef bæjarins reynum við að uppfæra upplýsingar um opnunartíma og þjónustu í bænum, einkum þegar breytingar eru örar vegna Covid-ástandsins.
Sömuleiðis er almenn umfjöllun um fyrirtæki og þjónustu hér og gefst fyrirtækjum kostur á að skrá upplýsingar um starfsemi og þjónustu, beint inná vefinn, hér.

Heilsuefling og útivist 

Í samtölum mínum við fulltrúa Félags eldri borgara í Grundarfirði kom fram að í raun hefur allt félagsstarf eldri borgara verið sett í hlé. Heilsuefling 60+ (samstarfsverkefni félagsins og Grundarfjarðarbæjar) er komið í tímabundið hlé, sömuleiðis handavinna eldri borgara sem var nýfarin af stað og kór eldri borgara hefur ekki farið af stað í haust vegna ástandsins. Vinahús Rauða krossins og karlakaffi hefja alla jafna starfsemi í upphafi vetrar, en munu taka mið af stöðu mála. 

Nú þegar heilsueflingarstarf er komið í hlé og líkamsræktarstöðvar þurfa að loka aftur, munu íbúar á öllum aldri missa sínar reglulegu æfingar og góðan félagsskap. Reglulegt barna- og unglingastarf íþróttafélaga er þó sennilega undanskilið m.v. fréttir dagsins. Það er nauðsynlegt að við hugsum vel um líkamlega og andlega heilsu, hvort sem við erum yngri eða eldri. Að njóta útivistar er góð leið, fara út að ganga, hjóla, skokka eða gera æfingar úti við. Fyrir helgina færðum við nokkra bekki inní Þríhyrninginn. Það gerðum við í því skyni að íbúar gætu nýtt sér svæðið til útivistar, til að hittast með möguleika á persónufjarlægð og mögulega gera æfingar í garðinum; bekkir eru kjörnir til að nýta í því skyni.

Nú þurfum við að vera frumleg og finna okkar leið til hreyfingar, útivistar og samveru, til heilsueflingar og með öryggið í fyrirrúmi. Eins getur skipt miklu, að við hvetjum hvert annað til hreyfingar og heilsubótar. Hvaða hugmyndum lumum við á? 

Björg