Við Miðgarð, Grundarfjarðarhöfn, 6. apríl 2020. Mynd: Aðalgeir Vignis
Við Miðgarð, Grundarfjarðarhöfn, 6. apríl 2020. Mynd: Aðalgeir Vignis

Kæru íbúar! 

Í dag voru áfram 11 manns í sóttkví í Grundarfirði, af samtals 241 sem eru í sóttkví á öllu Vesturlandi. Óbreytt staða frá í gær á fjölda smita, sem voru áfram 37 á Vesturlandi öllu. Sjá nánar á Facebook-síðu lögreglunnar á Vesturlandi

Viðspyrna vegna áhrifa Covid-19, samþykkt bæjarstjórnar í dag 

Í dag var haldinn 237. fundur bæjarstjórnar. Bæjarstjórn og bæjarstjóri hafa átt nokkra stöðu- og upplýsingafundi að undanförnu, á fjarfundum, þar sem farið hefur verið yfir stöðu og viðbrögð vegna þessa einstaka ástands sem nú ríkir. Fundurinn í dag var hins vegar fyrsti formlegi fjarfundur bæjarstjórnar, á grunni nýsamþykktra laga sem heimila slíka fundi. 

Á fundinum samþykkti bæjarstjórn samhljóða tillögu að fyrstu aðgerðum vegna áhrifa Covid-19 á samfélagið. Tillagan er í fimm liðum og felst í grófum dráttum í eftirfarandi: 

  • Fasteignagjöld

Í samræmi við bráðabirgðaákvæði við lög um tekjustofna sveitarfélaga var samþykkt heimild til frestunar greiðslna fasteignagjalda í C-flokki hjá Grundarfjarðarbæ hjá gjaldendum sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi vegna áhrifa Covid-19. Sækja þarf um frestun greiðslna og verður fyrirkomulagið kynnt nánar á vef bæjarins á morgun eða næstu daga. 

  • Þjónustugjöld

Staðfest var áður auglýst fyrirkomulag sem felur í sér mun rýmri heimildir til að fella niður þjónustugjöld. Heimildin gildir vegna Leikskólans Sólvalla, Eldhamra og fæðisáskriftar, þegar börn eru heima af ástæðum eins og sóttkví, veikindum eða vegna ákvörðunar foreldra. Vísað er í áður birta auglýsingu um fyrirkomulag frá 25. mars sl. á vef bæjarins, Reikningar eru sendir út á sömu gjalddögum og áður, en dregið frá næsta gjalddaga tímabil þegar þjónusta er ekki nýtt. Samþykkt var einnig að verði veruleg röskun á starfsemi og þjónustu, verði fyrirkomulag á útsendingu reikninga endurskoðað.

  • Viðspyrna í ferðaþjónustu og menningarlífi  

Samþykkt var að fara í sérstakar aðgerðir eða verkefni til að styðja við frekari markaðssetningu og undirbúning þess að taka á móti ferðafólki, bæði til skemmri tíma og lengri, og að styðja við menningu, með sérstökum ráðstöfunum í fjárhagsáætlun bæjarins 2020 og með því að leita eftir samvinnu fyrir fyrirtæki og félagasamtök. Bæjarráði og bæjarstjóra var falin nánari útfærsla, með hliðsjón af tilteknum atriðum, sem nánar verða kynnt næstu daga. 

  • Samtal við fulltrúa fyrirtækja

Bæjarstjórn mun leita eftir samtali á næstunni við fulltrúa fyrirtækja í bænum, um stöðu mála og horfur, vegna ástands af völdum Covid-19, og um frekari aðgerðir. Slíkir fundir myndu fara fram í fjarfundi eftir páska og verða nánar útfærðir næstu daga.

  • Greining á þróun tekna

Samþykkt var að skoða enn frekar þróun útsvarstekna og leitast við að greina mögulegt tekjutap bæjarsjóðs og hafnarsjóðs, m.v. stöðu atvinnugreina, sérstaklega ferðaþjónustunnar, einnig í samræmi við það sem fram mun koma í samtölum við fyrirtækin. Auk þess verði rýnt í tölur um atvinnuleysi og þróun þess. 

Grundarfjarðarbær hefur leitað stíft eftir því við Ríkisskattstjóra að fá haldbetri upplýsingar um útsvarstekjur sveitarfélagsins, sundurliðun teknanna eftir atvinnugreinum og fleiri þáttum og upplýsingar um þróun þeirra. Í desember sl. átti ég, ásamt fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, fund með fulltrúa RSK um þetta, í samræmi við ályktanir bæjarstjórnar. Í framhaldinu setti þessi viðræðuhópur af hálfu sveitarfélaganna fram beiðni um tilteknar upplýsingar og niðurbrot þeirra, frá RSK til sveitarfélaganna. Nú kemur það vel í ljós, þegar tekjumissir er fyrirséður, hve bagalegt það er að sveitarstjórnir hafi ekki betri upplýsingar um þennan megintekjustofn sinn. Við höldum þó áfram að þrýsta á um að úr þessu verði bætt, á tímum upplýsinga og auðveldra leiða til miðlunar þeirra. 

Ferðumst innanhúss! 

Páskar nálgast og þeir eru vinsælir til ferðalaga, heimsókna, menningarviðburða og margvíslegra hátíðarhalda. Nú eru hins vegar mjög sérstakir tímar og við erum beðin um að sleppa öllu slíku. Við erum hvött til þess að “ferðast innanhúss” - halda okkur heima og umgangast bara okkar allra nánustu fjölskyldu.
Bara núna um þess páska! Við ættum öll að geta lagt það á okkur, til að vinna gegn útbreiðslu á þessum alvarlega vágesti sem veirufaraldurinn er. 

Í þætti á RÚV í kvöld voru það börn og ungmenni sem spurðu spurninga og fengu svör. Í lok þáttarins var svo flutt þetta bráðfallega lag, sem sveitin BG og Ingibjörg gerðu frægt fyrir allmörgum árum, við erlent lag. Hér var það sungið við glænýjan texta sem Leifur Geir Hafsteinsson hafði samið og flutningurinn er glæsilegur, margir okkar allra vinsælustu söngvarar og gestasöngvarar, þ.e. þríeykið Þórólfur, Alma og Víðir! 

Einstaklega vel gert - og förum nú eftir því sem segir í laginu, höfum það huggulegt og ferðumst innanhúss um páskana! 

Björg