Bæjarstjórn og bæjarstjóri við upphaf fyrsta fundar kjörtímabilsins, þann 9. júní 2022. 
Frá vinstr…
Bæjarstjórn og bæjarstjóri við upphaf fyrsta fundar kjörtímabilsins, þann 9. júní 2022.
Frá vinstri Garðar Svansson, Signý Gunnarsdóttir, Loftur Árni Björgvinsson, Jósef Ó. Kjartansson, Davíð Magnússon sem sat fundinn sem varamaður Sigurðar Gísla Guðjónssonar, Ágústa Einarsdóttir, Bjarni Sigurbjörnsson og Björg Ágústsdóttir bæjarstjóri.

Fimmtudaginn 9. júní sl. kom nýkjörin bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar saman til fyrsta fundar á kjörtímabilinu.

Bæjarstjórn skipa nú Ágústa Einarsdóttir, Bjarni Sigurbjörnsson, Garðar Svansson, Jósef Ó. Kjartansson, Loftur Árni Björgvinsson, Signý Gunnarsdóttir og Sigurður Gísli Guðjónsson. Fjórir bæjarfulltrúar af sjö eru nýir fulltrúar í bæjarstjórn, en þeir Jósef og Garðar hafa báðir setið í átta ár í bæjarstjórn og Bjarni í eitt kjörtímabil, fjögur ár, sem varamaður og síðan aðalmaður. 

Á fundinum var Jósef Ó. Kjartansson kosinn forseti bæjarstjórnar til eins árs og Ágústa Einarsdóttir varaforseti, til sama tíma. Í bæjarráði fyrsta árið verða Garðar Svansson, Jósef Ó. Kjartansson og Sigurður Gísli Guðjónsson, sem jafnframt var kjörinn formaður bæjarráðs til eins árs. Á fundinum var samþykkt að ganga frá ráðningu Bjargar Ágústsdóttur, bæjarstjóra, til næstu fjögurra ára.

Bæjarstjórn fundar mánaðarlega, en þó ekki yfir sumarmánuðina, júlí og ágúst. Á þeim tíma fer bæjarráð með sömu heimildir og bæjarstjórn og afgreiðir fundargerðir nefnda og þau mál sem upp koma, nema ástæða þyki til að kalla bæjarstjórn sérstaklega saman til fundar um sérlega mikilvægar ákvarðanir. 

Á fyrsta fundi bæjarstjórnar var skipað í fastanefndir og ráð bæjarins næstu fjögur árin. Nefndarfólk fær á næstu dögum sent kjörbréf sem staðfestir nefndarsetu og bæjarstjóri mun síðan kalla nefndir til fyrsta fundar í Ráðhúsinu.  

Bæjarstjórn samþykkti jafnframt að halda fljótlega fræðslu- og kynningardag fyrir kjörna fulltrúa í bæjarstjórn og nefndum, þar sem farið verður yfir helstu þætti í stjórnsýslu og starfsemi bæjarins og nefnda hans og gerð grein fyrir helstu verkefnum sem nefndir síðasta kjörtímabils höfðu til meðferðar. Með þessu er reynt að tryggja sem skilvirkasta yfirfærslu á þekkingu og verkefnum, milli eldri og nýrra nefnda, að afloknum sveitarstjórnarkosningum. 

Um leið og nýjum nefndum og ráðum er óskað velfarnaðar í störfum sínum er fráfarandi nefndarfólki þakkað fyrir störf sín á liðnu kjörtímabili. 

Hér má lesa fundargerð 262. fundar bæjarstjórnar þann 9. júní 2022.

Hér má sjá fulltrúa í nýjum nefndum og ráðum Grundarfjarðarbæjar 2022-2026.