Frá borun á varmadæluholum og prófun á þeim í júlí 2023
Frá borun á varmadæluholum og prófun á þeim í júlí 2023

Fimmtudaginn 7. september 2023 var tilkynnt um úthlutun úr Orkusjóði

Grundarfjarðarbær sótti um styrk í sjóðinn út á orkuskipti í skóla- og íþróttamannvirkjum bæjarins, en það er verkefni sem þegar er hafið og sagt hefur verið frá hér á bæjarvefnum, á Facebook-síðu bæjarins og í fundargerðum, m.a. hér. Um er að ræða stærsta framkvæmdaverkefni bæjarins á árinu. 

Grundarfjarðarbær var meðal styrkhafa í síðustu viku og hlaut 16,4 milljónir króna í styrk til orkuskiptanna. Styrkurinn mun koma sér vel þar sem um viðamikið verkefni er að ræða. Áður hafði bærinn fengið styrk uppá 17 milljónir króna, auk andvirði borunar á einni holu, um 4,5 milljónir króna, samtals um 38 milljónir króna. 

Varmadælukynding í stað olíukyndingar - framkvæmdir hafnar

Skóla- og íþróttamannvirki bæjarins, þar með talin sundlaug og heitir pottar, eru kynt með olíu. Unnið hefur verið að undirbúningi þess að skipta út olíukyndingunni og setja upp varmadælubúnað, sem nýjan orkugjafa allra mannvirkjanna. 

Í sumar fór fram borun á tíu varmadæluholum á svæði sunnan við íþróttahús og var það fyrirtækið Borlausnir ehf. sem annaðist verkið.  Borun gekk vel, flestar holurnar eru allt að 230 metra djúpar og verða níu holur nýttar til orkuöflunar. Lokað hringrásarkerfi til varmasöfnunar var lagt í holurnar og verður varmadælum stillt upp innanhúss, í kjallara íþróttahúss. Varmasöfnunarlögnum var komið fyrir í alls sjö holum til að byrja með.

Fja´rhagslegur og umhverfislegur ávinningur orkuskiptanna

Áætluð orkuþörf mannvirkjanna er um 240 kW og eru væntingar um að holurnar níu muni skila þessu magni af orku, eins og stefnt var að.  Árleg olíunotkun hefur verið um 100.000-130.000 lítrar. Samtals voru notaðir um 130.000 lítrar af olíu árið 2022 og var það 1% aukning í magni frá árinu 2021. Kostnaður milli áranna 2021 og 2022 jókst hinsvegar um 87% enda urðu miklar hækkanir á eldsneytisverði á tímabilinu.

Olíubrennsla hefur verið nokkuð jöfn frá uppsetningu olíuketilsins árið 1999, þó ívið meiri eftir að farið var að hafa opið í heita potta allt árið, fyrir nokkrum árum. Miðað við að árleg olíunotkun hafi verið um 100.000-130.000 lítrar má áætla að árleg losun koltvísýrings hafi verið um 230-300 tonn. Þannig má jafnframt áætla að uppsöfnuð losun koltvísýrings vegna kyndingar mannvirkjanna sé því á bilinu 5.500 til 7.200 tonn alls. Koltvísýringslosun vegna olíubruna eftir orkuskiptin verður engin. 

Næstu áfangar

Efla leggur nú lokahönd á hönnun og teikningar á lögnum og tengingum frá borholum, inní íþróttahús þar sem tæknirýmið verður staðsett með fimm varmadælum og svo áfram inní grunnskóla. Næstu skref eru síðan að koma lögnunum frá borholum inn í hús fyrir veturinn þannig að innivinnan gangi greiðlega fyrir sig og geti farið fram eitthvað inní veturinn.  Verkefnisstjóri, Sigurbjartur Loftsson, annast undirbúning fyrir breytingar innanhúss í íþróttahúsi og samskipti við RARIK um hýsingu fyrir nýja spennistöð sem setja þarf upp samhliða. Búnaðarkaup eru sömuleiðis í vinnslu.

Greining vatns og framtíðarpælingar 

Í sumar voru tekin vatnssýni úr borholunum og þau send í greiningu til Svíþjóðar, að höfðu samráði við dr. Hauk Jóhannesson jarðfræðing og Gísla Guðmundsson jarðefnafræðing. Niðurstöður greiningarinnar voru mjög áhugaverðar uppá frekari borun og nýtingu að gera og vinnur Haukur nú minnisblað um það fyrir bæjarstjórn.