- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Í dag, 16. ágúst 2024, var tilkynnt um úthlutun styrkja úr Orkusjóði og var Grundarfjarðarbær meðal þeirra sem hlutu styrk.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra staðfesti í dag tillögu Orkusjóðs um að veita 1.342 milljónum króna í almenna styrki til orkuskipta á árinu. Samtals fengu 53 verkefni styrk og hafa þau það að markmiði að draga hratt úr losun. Í frétt ráðuneytisins kemur fram að heildarupphæð styrkja hafi aldrei verið hærri og að áætlaður samdráttur í notkun jarðefnaeldsneytis vegna styrktra verkefna hafi aldrei verið meiri, eða sem nemur 11 milljón olíulítrum á ári.
Grundarfjarðarbær hlýtur 40 milljón króna styrk ´úr Orkusjóði skv. tilkynningu í dag, en eins og komið hefur fram í fréttum á vef bæjarins er eitt stærsta verkefni Grundarfjarðarbæjar um þessar mundir orkuskipti skóla- og íþróttamannvirkja.
Grunnskóli, tónlistarskóli, íþróttahús og sundlaug eru hituð með olíu og hefur árleg olíunotkun vegna kyndingar verið allt að 130.000 lítrar. Árleg losun koltvísýrings er áætluð allt að 300 tonn. Olíubrennsla hefur verið nokkuð jöfn frá uppsetningu núverandi olíuketils árið 1999. Því má áætla að uppsöfnuð losun koltvísýrings vegna kyndingar mannvirkjanna frá þeim tíma eingöngu, sé á bilinu 5.500 til 7.200 tonn. Koltvísýringslosun vegna olíubruna eftir orkuskiptin verður engin.
Framkvæmdir til að undirbúa orkuskipti fyrir húsnæði grunnskóla, tónlistarskóla, fyrir sundlaug og íþróttamannvirki hafa staðið yfir frá sumri 2023. Þá voru boraðar tíu varmasöfnunarholur rétt sunnan við íþróttahúsið og á þessu ári hefur verið unnið við frágang og tengingu lagna úr holunum, gegnum lagnakistu og inn í tæknirými í kjallara íþróttahússins. Orkuskiptin sjálf eru áætluð nú í september næstkomandi.
Mikilvægt er að byggja á þessari reynslu og taka enn frekari skref á sömu braut. Grundarfjarðarbær stefnir að fleiri verkefnum sem felast í að þróa orkuskiptin nánar. Grundarfjörður er sem kunnugt er rafkynt svæði - sem þýðir hærri kyndingarkostnað heimila, fyrirtækja og stofnana og mikla notkun rafmagns, sem er eftirsótt vara. Það er því mikilvægt að þróa lausnir sem miða að því að nýta betur auðlindir og lækka kyndingarkostnað.
Alls bárust um 154 umsóknir í Orkusjóð að upphæð rúmlega 6,7 milljarða kr. og því ljóst að mikil eftirspurn er eftir styrkjum. Þau 53 verkefni sem styrkt eru (utan innviðaverkefna) eru metin á 8,4 milljarða króna, en hver styrkupphæð getur hæst numið einum þriðja af heildarkostnaði verkefna.
Styrkveitinging til Grundarfjarðarbæjar er gríðarlega mikilvægur stuðningur við yfirstandandi framkvæmdir og hvatning til að halda áfram á sömu braut.
Smellið á myndirnar til að lesa textann:
Frá því að sundlaug var byggð í Grundarfirði fyrir um 50 árum, hafa Grundfirðingar alla jafna ekki átt möguleika á að halda henni opinni allt árið. Bæði veldur því takmörkuð geta olíuketilsins til að kynda öll mannvirkin yfir kaldasta árstímann og gríðarlegur kostnaður.
Tíu holur voru boraðar sumarið 2023, níu eru nothæfar. Áætluð varmaafköst hverrar holu eru um 22-24 kW. Lokað hringrásarkerfi til varmasöfnunar var lagt í holurnar og fimm varmadælum stillt upp innanhúss, ásamt þremur hitatúbum. Áætlað uppsett afl varmadælnanna er 240 kW.