- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Hinrik Konráðsson hefur verið ráðinn íþrótta- og tómstundafulltrúi hjá Grundarfjarðarbæ.
Ráðning hans var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar 11. september sl. út frá ráðningarferli sem fram fór.
Hinrik lauk námi frá Lögregluskóla ríkisins og hefur starfsréttindi sem lögreglumaður og fangavörður. Hann hefur tekið ýmis námskeið tengd störfum sínum, bæði sem lögreglumaður og fangavörður. Hann er með BSc próf í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands og leggur nú stund á meistaranám í áfallastjórnun við Háskólann á Bifröst. Hann stundaði einnig um tíma nám í sagnfræði við Háskóla Íslands.
Hinrik hefur tuttugu ára reynslu sem lögreglumaður og fimm ár sem fangavörður. Hann hefur starfað hjá Lögreglunni á Vesturlandi sem varðstjóri á Snæfellsnesi síðustu árin. Hinrik hefur hefur víðtæka reynslu af félags- og tómstundastörfum, sem og af íþróttum og íþróttastarfi, og kenndi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga eina önn. Hinrik var kjörinn fulltrúi í bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar árin 2014-2022 og sat samhliða því í nefndum á vegum bæjarins. Hann er formaður í vinabæjarsamtökunum GrundaPol, sem annast samskipti við systurfélag sitt í vinabænum Paimpol á Bretagne í Frakklandi.
Starfssvið
Íþrótta- og tómstundafulltrúi hefur stjórn og umsjón með íþrótta- og tómstundamálum, forvörnum, lýðheilsuverkefnum og ýmsum viðburðum á vegum bæjarins. Í því felst fagleg og rekstrarleg ábyrgð á starfsemi íþróttamannvirkja, félagsmiðstöðvar unglinga og skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Íþrótta- og tómstundafulltrúi ýmist leiðir eða tekur þátt í þróun, skipulagningu og samræmingu íþrótta- og tómstundastarfs, á vegum bæjarins eða í samstarfi með skólum, íþróttafélögum og öðrum félagasamtökum. Hann er starfsmaður íþrótta- og tómstundanefndar, ungmennaráðs og öldungaráðs. Auk þess leiðir hann undirbúning í verkefni um barnvænt sveitarfélag. Samstarf við félagasamtök, s.s. íþróttafélög, er afar mikilvægur hluti starfsins.
Hinrik mun hefja störf 1. október nk. og er hann boðinn hjartanlega velkominn til starfa!