Eins og fram hefur komið er farin af stað vinna við að móta svæðisgarð á Snæfellsnesi. Vinnan fer aðallega fram með gerð svæðisskipulags fyrir svæðisgarðinn.  

Tekin hefur verið saman lýsing á því hvernig staðið verður að vinnunni sem framundan er við að móta svæðisgarðinn.  Lýsing svæðisskipulags er „uppskriftin“ að þeirri vinnu sem felst í að ákveða viðfangsefni svæðisgarðs og verklag. Lýsingin innifelur einnig grunnupplýsingar um svæðið, byggðar á gögnum frá fjölmörgum aðilum.

Lýsingin er nú auglýst og kynnt á vef verkefnisins, svaedisgardur.is, í samræmi við 23. gr. skipulagslaga. Útprentað eintak lýsingar liggur einnig frammi á bæjarskrifstofum Snæfellsbæjar, Grundarfjarðarbæjar og Stykkishólmsbæjar og bókasöfnum sömu sveitarfélaga, hjá oddvitum Helgafellssveitar (Egill) og Eyja- og Miklaholtshrepps (Halldór) og hjá skipulags- og byggingarfulltrúa þeirra síðast nefndu, að Þórðargötu 18 í Borgarnesi (Jökull). 

 

Íbúar á Snæfellsnesi og aðrir hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér lýsinguna og koma á framfæri ábendingum um nálgun og helstu forsendur áætlunargerðarinnar fyrir 1. desember 2012. Þær má senda til svaedisgardur@svaedisgardur.is eða til Bjargar Ágústsdóttur, verkefnisstjóra hjá Alta, Borgarbraut 16, 350 Grundarfirði.

 

Hér má finna auglýsingu um lýsinguna 

Og hér er lýsingin sjálf og einnig er hér viðauki við lýsinguna..