Nýtt deiliskipulag iðnaðarsvæðis vestan Kvernár tekur gildi

Frá og með 16. maí 2025 hefur nýtt deiliskipulag iðnaðarsvæðisins vestan Kvernár tekið gildi með auglýsingu þess í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagið er í samræmi við Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar 2019-2039, m.a. breytingu sem gerð var í tengslum við deiliskipulagið og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 14. maí 2025.  

Hér má nálgast gögn deiliskipulagsins, uppdrátt 5. maí 2025 í kvarðanum 1:1500, og skipulagsgreinargerð. 

Vinna við gerð nýs deiliskipulags var sett af stað með skipulagslýsingu í nóvember 2023 og með auglýsingunni lýkur nú deiliskipulagsferlinu. Með samþykkt deiliskipulagsins nú, fellur úr gildi eldra deiliskipulag svæðisins frá 1999, með síðari breytingum.

Markmið og helsta breyting í nýju deiliskipulagi er að auka framboð á lóðum fyrir iðnaðarstarfsemi til framtíðar og tryggja hagkvæma nýtingu á landi, innviðum og jarðefnum. Aukin eftirspurn er eftir iðnaðarlóðum, sem nauðsynlegt er að verða við, fyrir þróun og uppbyggingu í sveitarfélaginu. Skipulag og uppbygging iðnaðarsvæðisins er mikilvægur þáttur til að styrkja undirliggjandi grunnþjónustu og fjölbreytni í atvinnusköpun og nýta vel auðlindir sem felast í notkun efnis af svæðinu til grjótnáms, áður en það er byggt upp. Þetta er eina iðnaðarsvæði Grundarfjarðarbæjar og því mikilvægt að nýta svæðið vel.   

Deiliskipulag iðnaðarsvæðis vestan Kvernár 2025

 

Vakin er athygli á málskotsrétti skv. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011, en þar er kveðið á um að þeim sem lögvarinna hagsmuna eigi að gæta sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu deiliskipulagstillögu í B-deild Stjórnartíðinda, þ.e. frá 16. maí til 16. júní 2025. Leiðbeiningar um hvernig leggja skal fram kæru má finna á vef úrskurðarnefndar, www.uua.is.

Þeim sem gerðu athugasemdir við tillöguna verður tilkynnt um málsskotsrétt sinn.

Í samræmi við 2. mgr. 31. gr. og 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er niðurstaða bæjarstjórnar hér með auglýst ásamt samþykktum deiliskipulagsuppdrætti.

Grundarfirði, 16. maí 2025,

Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi