- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf
Nýtt deiliskipulag Ölkeldudals í Grundarfjarðarbæ tekur gildi
Frá og með 7. júlí 2025 hefur nýtt deiliskipulag Ölkeldudals tekið gildi með auglýsingu þess í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagið er í samræmi við Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar 2019-2039, m.a. breytingu sem gerð var í tengslum við deiliskipulagið og tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 3. júlí 2025.
Hér má nálgast gögn deiliskipulagsins, uppdrátt 8. maí 2025 í kvarðanum 1:1500, og skipulagsgreinargerð.
Vinna við gerð nýs deiliskipulags var sett af stað með skipulagslýsingu í febrúar 2024 og með auglýsingunni nú lýkur deiliskipulagsferlinu. Með samþykkt deiliskipulagsins nú, fellur úr gildi eldra deiliskipulag svæðisins frá 2003, með síðari breytingum.
Með nýju deiliskipulagi verður hverfið í Ölkeldudal eflt, með fjölgun íbúða við Ölkelduveg og Borgarbraut. Samhliða verður Paimpolgarðurinn byggður upp sem skjólsæll almenningsgarður, til nota og dvalar á öllum árstíðum. Lögð er rík áhersla á gott samspil garðsins við skóla- og íþróttasvæðið og aðliggjandi byggð.
Fjölgun íbúða er í samræmi við þá framtíðarsýn í Aðalskipulagi Grundarfjarðar 2019-2039 að Grundarfjörður sé fjölbreyttur, með íbúðir fyrir alla. Mikil gæði felast í því að fjölga íbúðum og nýta vel þá innviði sem þegar eru fyrir hendi; götur, lagnir og fleira. Hverfið er afar vel staðsett í grennd við skóla- og íþróttasvæðið, Paimpolgarðinn, Fellaskjól, íbúðir eldri borgara og aðliggjandi útivistarsvæði.
Við endurskoðun á deiliskipulaginu voru lagðar til nauðsynlegar breytingar á götum, gangstéttum og umferðarskipulagi til að stuðla að bættu umferðaröryggi fyrir alla vegfarendur. Sérstaklega var hugað að aðkomu og aðgengi að skóla- og íþróttasvæðinu með öryggi skólabarna í huga, auk þess sem bætt var við stígum, gangstéttum og öruggari gangbrautum á svæðinu.
Samhliða uppbyggingu í Ölkeldudal verður fráveitukerfið bætt, með aðgreiningu skólps og ofanvatns, sjálfbærar fráveitulausnir innleiddar fyrir ofanvatnið og núverandi fráveitulagnir nýttar fyrir skólp. Blágrænt fráveitukerfi hefur þannig verið samþætt annarri skipulagshönnun. Þannig er tryggð hagkvæm innleiðing blágrænna ofanvatnslausna, þar sem þær verða óaðskiljanlegur hluti í yfirborðshönnun, uppbyggingu og frágangi gatna, gangstíga og grænna svæða.

Vakin er athygli á málskotsrétti skv. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011, en þar er kveðið á um að þeim sem lögvarinna hagsmuna eigi að gæta sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvarðanir. Kærufrestur er einn mánuður frá birtingu deiliskipulagstillögu í B-deild Stjórnartíðinda, þ.e. frá 07. júlí til 07. ágúst 2025. Leiðbeiningar um hvernig leggja skal fram kæru má finna á vef úrskurðarnefndar, www.uua.is.
Þeim sem gerðu athugasemdir við tillöguna verður tilkynnt um málsskotsrétt sinn.
Í samræmi við 2. mgr. 32. gr. og 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er niðurstaða bæjarstjórnar hér með auglýst ásamt samþykktum deiliskipulagsuppdrætti.
Grundarfirði, 7. júlí 2025
Sigurður Valur Ásbjarnarson, skipulagsfulltrúi