Sjálfboðaliðar á vegum SEEDS að störfum í Grundarfirði.

Í sumar hafa sjálfboðaliðar á vegum SEEDS unnið að ýmsum umhverfisverkefnum í þágu samfélagsins í Grundarfirði. SEEDS Iceland er íslensk sjálfseignarstofnun og frjáls félagasamtök sem stofnuð voru árið 2005 og eru þau óhagnaðardrifin. Markmið samtakanna er að efla menningarskilning, vernda umhverfið og auka vitund um náttúruvernd með samfélags- og menningarlegu sjálfboðaliðastarfi á Íslandi.

Tveir hópar á vegum SEEDS hafa komið til Grundarfjarðar í sumar og dvalið í tíu daga í senn. Í hvorum hóp eru átta sjálfboðaliðar. Sjálfboðaliðarnir koma víða að m.a. frá Spáni, Ítalíu, Portúgal, Frakklandi, Tékklandi, Danmörku, Finnlandi og Eistlandi.

Fyrri hópurinn var í Grundarfirði frá 24. júní til 3. júlí. Meðal þeirra verkefna sem þau tóku sér fyrir hendur var að aðstoða Skógræktarfélag Eyrarsveitar við að stika nýjar gönguleiðir og lagfæra í Brekkuskógi.

Einn dagur fór í að aðstoða Nönnu Vilborgu Harðardóttur, verkefnastjóra skipulags- og umhverfismála, að sá fræjum fyrir samstarfsverkefni Grundarfjarðarbæjar og Fóðurblöndunnar sem tengist ICEWATER verkefninu sem Grundarfjarðarbær tekur þátt í. Einnig gengu þau fjörur og tíndu rusl.

Seinni hópurinn kom til Grundarfjarðar 15. júlí og verður til 24. júlí. Hópurinn hefur hingað til unnið með sóknarnefnd Setbergssóknar að málningarvinnu í kringum Grundarfjarðarkirkju og í Setbergskirkjugarði. Innanbæjar hafa þau málað leiktæki á Hjaltalínsholti og á Sæbóli. Steyptir veggir í kringum Samkomuhús og Bæjarskrifstofu hafa einnig verið málaðar ásamt bekkjum og borðum.

Báðum hópum var boðið í kvöldsiglingu að Melrakkaey. Farið var á tveim bátum, Lukku og Haukabergi, þar sem skipstjórar voru Sigurjón Halldórsson og Gunnar Hjálmarsson. Rennt var fyrir fisk og vakti það mikla lukku sjálfboðaliðanna frá Spáni þegar þorskur, eða „bacalao“ beit á. Nokkur flök voru tekin með heim þar sem eldaður var síðbúinn kvöldverður.

Hér má sjá viðtal við Nönnu Vilborgu og fyrri hópinn.

Sérstakar þakkir fá Skógræktarfélag Eyrarsveitar, sóknarnefnd Setbergssóknar og áhaldahús Grundarfjarðarbæjar fyrir að aðstoða hópinn í þeim verkefnum sem hann tók sér fyrir hendur.