Eglé Sipaviciute - mynd af vefnum www.skatamot.is
Eglé Sipaviciute - mynd af vefnum www.skatamot.is

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Undanfarin ár hefur Grundarfjarðarbær boðið upp á sumarnámskeið fyrir börn í 1.-4. bekk grunnskóla (fyrir Eldhamrabörn er opið í ágústhluta námskeiðs). Námskeiðin hafa staðið yfir í 4-5 vikur í júní og ágúst.

Í sumar verður einnig boðið uppá slík námskeið en nú verða þau með nokkuð öðru sniði. Eglé Sipaviciute hefur verið ráðin umsjónarmaður námskeiðanna. Eglé er nemi í mannfræði við Háskóla Íslands og mun dvelja í Grundarfirði í sumar. Hún hefur áralanga reynslu af stjórnun námskeiða fyrir börn og má þar meðal annars nefna uppsetningu leiksýninga hjá Þjóðleikhúsinu frá 2017. Hún er jafnframt skátaforingi til margra ára og hafði umsjón með Útilífsskóla Skátafélagsins Skjöldunga árið 2021. Þessi reynsla mun einmitt setja skemmtilegt mark á  námskeiðin í sumar og verður krökkunum meðal annars boðið að taka þátt í uppsetningu leiksýningar, þar sem allir fá verkefni við sitt hæfi, og námskeið í útivist.  

Í byrjun apríl sótti Grundarfjarðarbær um styrk úr Barnamenningarsjóði til að skipuleggja og bjóða uppá listgreinar sem þema í sumarnámskeiðum fyrir börn, sumarið 2022. Ekki er búist við svari við umsókninni alveg strax en ráðning Eglé til að hafa umsjón með sumarnámskeiðunum fellur vel að hugmyndum um að flétta listgreinar inní sumarnámskeið barna, eins og sett var fram í umsókn til Barnamenningarsjóðs. Leitað verður til skapandi fólks á svæðinu, um aðkomu að námskeiðunum - og leitað verður eftir góðu og gefandi samstarfi við foreldra, við mótun starfsins. 

Okkur vantar enn 1-2 aðstoðarmenn, sem munu verða Eglé til aðstoðar á sumarnámskeiðunum í sumar. Við hvetjum áhugasama til að sækja um - sjá nánar í auglýsingu hér.

Ólafur Ólafsson íþrótta- og tómstundafulltrúi Grundarfjarðarbæjar hefur yfirumsjón með sumarnámskeiðunum og vinnur með Eglé að þróun þeirra. Þau munu kynna fyrirkomulag námskeiðanna betur þegar Eglé kemur til Grundarfjarðar í byrjun maí og þá verður nánar auglýst þannig að foreldrar/forráðamenn geti sótt um fyrir sín börn á námskeiðin.

Það er von á skemmtilegum og ævintýralegum námskeiðum í sumar fyrir krakkana í Grundarfirði!