Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson
Mynd: Tómas Freyr Kristjánsson

SUMARNÁMSKEIÐ BARNA

Sumarnámskeiðin eru í boði fyrir börn fædd 2010-2016. Námskeiðin verða í þrjár vikur í júní (7. - 24. júní) og tvær vikur í ágúst (8. – 19. ágúst). Athugið að á lögbundnum frídögum verða ekki námskeiðsdagar.  

Listasmiðjur verða haldnar fyrir hádegi þar sem krakkarnir fá að spreyta sig í hinum fjölbreytta heimi listsköpunar. Unnið verður með ýmsa miðla og reynum við að efla hugmyndaflug barnanna, m.a. í gegnum samsetningarlist, vidjógerð, endurvinnslu, ritlist og svo framvegis.  

Leikhússmiðjur verða síðan haldnar eftir hádegi þar sem markmiðið verður að setja upp leikrit sem sýnt verður í lokavikunni í ágúst. Í samvinnu við leiðbeinanda munu krakkarnir vinna saman að því að búa til leikverk út frá uppáhaldsævintýrum þeirra og persónum. Þau börn sem ekki verða skráð allar vikurnar geta auðvitað verið með og þau sem treysta sér ekki til að leika á sviði geta lært um hin ýmsu hlutverk sem leynast innan sviðslista og sinnt öðrum verkefnum sem tengjast því að setja upp sýningu.

Sumarnámskeiðin eiga að henta öllum börnum – öll börn eiga að finna eitthvað við sitt hæfi og að þau hafi hlutverk.

Umsjón með sumarnámskeiðunum hefur Eglé Sipaviciute. Netfangið er: sumarnamskeid@grundarfjordur.is 
Sjá nánar í frétt um sumarnámskeiðin hér á bæjarvefnum og í nokkra daga í viðbót er hægt að sjá viðtal við Eglé hér.

Spennistöðvargarður - kofabyggð og matjurtir

 

KOFASMIÐJA – smíðanámskeið fyrir börn fædd 2010-2012
Námskeiðið verður í tvær vikur, frá 13.- 24. júní, eftir hádegi kl. 13-16.
Smiðjan er hugsuð fyrir krakka sem vilja fá að smíða og búa til kofa, bekk eða eitthvað annað og í lok námskeiðs fá þau að taka afraksturinn með sér heim, þau sem það vilja. Nemendur þurfa sjálfir að koma með hamar og sög, en við verðum með timbur og nagla. Smiðjan verður staðsett innan spennistöðvargirðingarinnar – ofan við íþróttahúsið og ærslabelginn.

Umsjón með kofasmiðjunni hefur Toggi, Thor Kolbeinsson.  

Kofabyggð 1996  Krakkar í kofabyggð 1996

 

Verð á námskeiðum er eftirfarandi:

Sumarnámskeið barna:

Ein vika fyrir hádegi kl. 9-12, kr. 6.500
Ein vika eftir hádegi kl. 13-16, kr. 6.500
Ein vika allan daginn kr. 11.000.

Kofasmiðja / smíðanámskeið, börn fædd 2010-2012:

Tvær vikur eða hluti námskeiðs 7.000 kr. (lágmarks- og hámarksgjald).

Systkinaafsláttur er veittur fyrir annað barn sem nemur 30% af verði og fyrir þriðja barn 70%.

Sótt er um í gegnum vef Grundarfjarðarbæjar fyrir kl. 13:00 föstudaginn 3. júní 2022, sjá hlekk hér.

Frekari spurningum má beina til Ólafs Ólafssonar íþrótta- og tómstundafulltrúa Grundarfjarðarbæjar í netfangið ithrott@grundarfjordur.is