Ingi Hans vinnur við nýjan vegg sem afmarkar betur rými fyrir starfsemi bókasafnsins sem er til húsa…
Ingi Hans vinnur við nýjan vegg sem afmarkar betur rými fyrir starfsemi bókasafnsins sem er til húsa í Sögumiðstöðinni. Mynd tekin 21. janúar 2021.

Nú stendur yfir spennandi uppbygging í Sögumiðstöðinni. Eins og sagt var frá í frétt hér á bæjarvefnum í byrjun desember sl. verða gerðar breytingar sem miða að því að Sögumiðstöðin verði líflegt menningar- og samfélagssetur. Breytingar verða gerðar á húsrými Sögumiðstöðvar að Grundargötu 35 þannig að það nýtist á sem hagkvæmastan hátt fyrir fjölbreytta starfsemi. Stór breyting felst m.a. í því að betri aðstaða verður nú sköpuð fyrir margvíslegt menningar- og félagsstarf íbúa. 

Það er Ingi Hans Jónsson sem tók að sér að stýra verkinu. Undirbúningur stóð yfir í desember og þann 11. janúar sl. hófst vinna við breytingar í húsinu. Byrjað er á minniháttar tilfæringum og framkvæmdum. Hluti sýninga í húsinu var tekinn niður tímabundið og annað verndað fyrir ryki. Myndir og munir sem tilheyra ljósmyndasafni Bærings Cecilssonar voru í desember sl. fluttir í eldtrausta geymslu. Bókasafnið er til húsa í Sögumiðstöðinni og verður það nú afmarkað betur með frekari lokun á milli safnsins, Bæringsstofu og miðrýmis sem hugsað er fyrir félagsstarf. Orri Árnason arkitekt kemur að verkinu vegna þeirra breytinga sem gera þarf á húsinu og hanna, en Orri er uppalinn í Grundarfirði og Grundfirðingum að góðu kunnur. Til gamans má geta þess að afi Orra, Emil Magnússon kaupmaður, byggði húsið sem nú hýsir Sögumiðstöð og rak þar Verslunina Grund um árabil.

Næstu skref eru að afmarka betur sýningarrými Sögumiðstöðvar og ljúka breytingum á Bæringsstofu, sem er "bíósalur" og hýsir ennfremur muni úr safni Bærings heitins Cecilssonar ljósmyndara með meiru. Sjón er sögu ríkari og meðfylgjandi myndir tala sínu máli. 

Bæjarráð og formaður menningarnefndar kynntu sér breytingarnar í fylgd Inga Hans þann 27. janúar sl. 

Smellið á mynd til að skoða betur og lesa texta.

Hanni umsjónarmaður fasteigna og Ingi Hans pakka niður dóti í Sögumiðstöð   

 

 Eygló Bára formaður menningarnefndar, Unnur Þóra, Rósa og Sævör úr bæjarráði og Björg bæjarstjóri skoða framkvæmdir í Sögumiðstöðinni 27. janúar 2021 með Inga Hans.