Margt leynist á Grundfirskum heimasíðum

Það er margt fróðlegt að finna á Internetinu, m.a. heimasíður sem Grundfirðingar hafa búið til og halda úti.   Á heimasíðu Guðjóns Elissonar, www.gauiella.is, er kominn inn tengill þar sem er að finna loftmynd af þéttbýli Grundarfjarðar.   Á síðunni segir: ,,Sum heimilanna og fyrirtækjanna sem sjást á þessari mynd eru með heimasíður og eru þá viðkomandi hús á loftmyndinni einnig tenglar inn á þær heimasíður sem við á. Endilega sendið tölvupóst til Gaua ef þið Grundfirðingar eruð með heimasíðu sem ekki er með tengil á húsið ykkar og mun því kippt í lag. Vonandi fæst bráðlega nýrri loftmynd líka.”  

Eldgamlar fundargerðir - vegamál

Bæjarstjóri fékk í síðustu viku beiðni um að fletta upp á tilteknu atriði í gamalli fundargerðarbók hreppsnefndar Eyrarsveitar frá 1947. Var það gert og umbeðnar heimildir fundnar. Í leiðinni datt bæjarstjóri ofan í nokkrar fundargerðir í sömu bók, og eins og svo oft áður, er ekki hægt að hætta að lesa þennan fróðleik – og reyndar skemmtiefni – þegar byrjað er.  

Sögumiðstöð - áfangi - Blöðruskalli

Þann 14. janúar sl. kom verkefnisstjórn og starfsmaður þróunarverkefnis um Eyrbyggju – sögumiðstöð og sögugarð saman til fundar á bæjarskrifstofu, ásamt fulltrúa Atvinnuráðgjafar Vesturlands (ATSSV). Tilefnið var að nú er lokið tilteknum áfanga í vinnu við verkefnið og var lögð fram skýrsla sem Ingi Hans Jónsson starfsmaður verkefnisins hefur unnið um möguleika á stofnsetningu sögumiðstöðvar í Grundarfirði og sögugarðs á Grundarkampi, sjá nánar í bæjardagbók þann 22. október 2002. Verkefnið var styrkt af ATSSV og var Ólafur Sveinsson forstöðumaður ATSSV fulltrúi í verkefnisstjórninni, auk þess sem starfsmaður og verkefnisstjórn nutu dyggilegs stuðnings Ásthildar Sturludóttur ferðamálafulltrúa ATSSV. 

Bæjarstjórnarfundur - fjárhagsáætlun o.fl.

 Á janúarfundi bæjarstjórnar var í kvöld samþykkt fjárhagsáætlun ársins 2003 fyrir bæjarsjóð og fyrirtæki hans. Á næstunni verður sagt frá því hér í bæjardagbók hvað í áætluninni felst, í hvaða framkvæmdir eða fjárfestingar á að ráðast á árinu, o.s.frv.

Þverun Kolgrafarfjarðar

Mjög mikið er spurt um það hér í Grundarfirði hvað líði áformum um þverun Kolgrafarfjarðar.  Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar í síðustu viku er vinna við að útbúa útboðsgögn vegna framkvæmdarinnar nú á lokastigi.   Búið er að auglýsa verkið á EES-svæðinu, en það þarf að gerast með góðum fyrirvara.   Áform eru uppi um að tilboð verði opnuð í byrjun mars n.k., að verkið geti hafist í byrjun apríl en að verklok verði haustið 2005. Er það frávik frá fyrri áætlunum sem gerðu ráð fyrir verklokum 2004, en helgast af nauðsynlegum verktíma fyrir framkvæmdina.   

Tæknibærinn Grundarfjörður; Rafrænt samfélag

Byggðastofnun hefur kynnt sveitarfélögum að á næstunni verði efnt til samkeppni meðal sveitarfélaga um þróunarverkefni undir yfirskriftinni ,,Rafrænt samfélag”. Er það liður í framkvæmd á byggðastefnu Alþingis 2002-2005 og hefur bæjarstjórn Grundarfjarðar samþykkt að sækja um þátttöku í verkefninu, eins og áður hefur verið greint frá hér á heimasíðunni. 

39. Stjórnarfundur

39. stjórnarfundar Eyrbyggja 7. janúar 2003  kl 20:00 á Cafe Borg í Kópavogi   Viðstaddir: Ásthildur Elva Kristjánsdóttir, Elínbjörg Kristjánsdóttir, Gísli Karel Halldórsson, Guðlaugur Pálsson, Hermann Jóhannesson, Hrafnhildur Pálsdóttir, Ásgeir Þór Árnason (sem gestur), Sigurberg Árnason (sem gestur).  

Jólin kvödd

Jólin voru framlengd um einn dag í Grundarfirði að þessu sinni. Þrettándabrennan sem vera átti í gær, var slegin af vegna roks. Hún fór fram í dag og var margt álfa og furðufólks á ferðinni, þar á meðal álfadrottningin sjálf og álfakóngur.   Það var foreldra- og kennarafélag Grunnskólans sem stóð fyrir skemmtuninni og Björgunarsveitin Klakkur sá fyrir vel heppnaðri flugeldasýningu.  

Gleðilegt nýtt ár!

Árið 2002 er liðið – og aldrei það kemur til baka, eins og segir í sálminum. Árið 2003 er gengið í garð, snjólaust og nánast vorveður í lofti.   Töluvert af flugeldum var sent upp í loftið á áramótunum, en því miður höfðu ekki allir fyrir því að hreinsa afgangana upp eftir sig, svona það sem ekki flýgur út um víðan völl. Enn er þó tími til þess þar sem ekki hefur snjóað yfir herlegheitin.