Unglingadeildin Pjakkur gengur í hús

Næstkomandi þriðjudag kl 20:00 mun unglingadeildin Pjakkur ganga í hús og selja klósettpappír. Þetta er fjáröflun fyrir deildina. Endilega takið vel á móti krökkunum þegar þau banka uppá hjá ykkur.

Skippers d´Islande siglingakeppni 2006

Þann 4. október sl. komu þrír Frakkar í heimsókn til Grundarfjarðar. Þau eru skipuleggjendur siglingakeppninnar Skippers D’Islande sem farin verður í júní-júlí á næsta ári. Heimsókn Frakkanna var liður í undirbúningi keppninnar og voru skoðaðar aðstæður í Grundarfjarðarhöfn og -bæ. Siglingakeppnin hefst í Primpol í Frakklandi, vinabæ Grundarfjarðar, þann 24. júní nk. Siglt verður um 1.210 mílna leið til Reykjavíkur og þaðan haldið til Grundarfjarðar.

Gamla löggustöðin rifin

Eitt af eldri húsum bæjarins mun á næstunni hverfa úr miðbænum, þ.e. Grundargata 33. Það er gamla löggustöðin, þar sem Gallerí Grúsk hafði síðast aðstöðu. Olíufélagið Esso og verslun Ragnars Kristjánssonar voru á sínum tíma í húsinu, sem var byggt árið 1945 skv. upplýsingum Fasteignamats ríkisins. Nú stendur til að rífa húsið og voru tilboð opnuð í rif og hreinsun á húsinu, föstudaginn 30.09 sl. Þrír verktakar buðu í verkið en það voru Vélaleiga Kjartans, Dodds ehf. og Rávík ehf. Rávík ehf. átti lægsta boð og var ákveðið að taka því. 

Á kjörskrá 8. október n.k.

Þann 8. október n.k. verður gengið til kosninga um sameiningu fimm sveitarfélaga á Snæfellsnesi. Þau eru Snæfellsbær, Stykkishólmsbær, Grundarfjarðarbær, Eyja- og Miklaholtshreppur og Helgafellssveit.                       Á kjörskrá í sveitarfélögunum fimm á Snæfellsnesi eru samtals 2.677 íbúar, 1393 karlar og 1.284 konur. Í Grundarfjarðarbæ eru 635 einstaklingar á kjörskrá, eða tæp 24% kjósenda, 338 karlar og 297 konur.  

Stofnun visthóps(hópa)

 Grundarfjarðarbær auglýsir eftir áhugasömum aðilum til að taka þátt í visthópi/hópum undir merkjum Vistvernd í verki. Um er að ræða framkvæmd á markmiðum bæjarins í áætlun skv. Staðardagskrá 21. Með þátttöku í verkefninu Vistvernd í verki lærist hvernig hægt er að taka upp vistvænni lífsstíl með ýmsum einföldum breytingum á daglegu lífi, án þess að dregið sé úr lífsgæðum.

Íbúafjölgun í Grundarfirði

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands voru 964 íbúar í Grundarfirði 1. október sl. Þann 1. desember í fyrra voru skráðir íbúar 938. Það sem af er árinu eru 7 börn fædd í Grundarfirði og eru því aðfluttir umfram brottflutta 19 manns. Heildarfjölgun á fyrstu níu mánuðum ársins er 26 íbúar.

Hópleikur UMFG-getrauna heldur áfram

Hópleikurinn hélt áfram  þessa helgi og var laugardagurinn jafnframt síðasti dagurinn til að skrá sig í leikinn. Það eru því 11 hópar sem keppa til loka tímabilsins. Gaman er að skoða frá hvaða stöðum í bænum einstaklingarnir koma sem mynda hópana. Sjáum hér til gamans hvar einstaklingarnir búa.