Af samstarfi Landsbankans og UMFG.

Landsbankinn í Grundarfirði og UMFG eru með samstarfssamning og það nýttu stelpurnar í 5.,4. og 3. fl í fótbolta sér. Þær lögðu 1000 kr inn á Sportklúbbs reikning sinn í Landsbankanum og fengu í staðinn íþróttatösku merkta UMFG, Landsbankanum nafninu sínu. Þetta eru góðar töskur sem eiga eftir að nýtast þeim vel á keppnisferðalögum.  

Sorphirða fellur niður í dag

Sorphirða fellu niður í dag vegna þess að sorpmóttökustöðin í Fíflholtum er lokuð vegna veðurs. Sorpið verður hirt í fyrramálið.   Skipulags- og byggingarfulltrúi 

Af veðri

Sunnanhvassviðrið sem gengur nú yfir landið er farið að réna í Grundarfirði og þegar þetta er ritað, um 23-leytið, er meðalvindhraði kominn í 19 m/sek af SSA. Vindhraðinn var mestur um 26 m/sek milli 18 og 20 í kvöld og fór mest í um 34-36 m í hviðum (Grundarfj.) á sama tímabili. Töluverð úrkoma hefur fylgt lægðinni.    

Takið frá laugardaginn 19. febrúar

Á fundi sínum í gær, 3. febrúar, samþykkti bæjarráð Grundarfjarðar að efna til opins samráðsfundar (íbúaþings) um skipulagsmál og fleiri tengd efni og verður fundurinn haldinn laugardaginn 19. febrúar n.k.  Til hefur staðið að halda opinn fund til að fá svarað ákveðnum spurningum sem lúta að skipulagi og þróun byggðar í bæjarfélaginu og var ákveðið að fá Ráðgjafarfyrirtækið ALTA hf. til að undirbúa og stýra fundinum, þar sem leitað verður eftir sjónarmiðum íbúanna og framtíðarsýn um uppbyggingu og skipulag bæjarins. Meira um þetta síðar.   Takið því frá laugardaginn 19. febrúar n.k. fyrir skemmtilega umræðu og þátttöku í að móta framtíðina okkar.

40. þorrablót Hjónaklúbbs Eyrarsveitar

40. þorrablót Hjónaklúbbs Eyrarsveitar var haldið laugardaginn 29. janúar sl. Blótið tókst vel og var mikil stemming meðal gesta. Þorramaturinn kom frá Veislunni á Seltjarnarnesi og hljómsveitin Swiss lék fyrir dansi. Í þorranefndinni þetta árið voru Ella og Kiddi Jóhanna og Gunnar, María og Árni, Jóna og Smári, Fjóla og Jói, Anna og Steini, Eygló og Addi og Fríða og Gummi. Þorrablótsnefndin 2005

Landaður afli í Grundarfjarðarhöfn í janúar 2005

Í töflunni hér að neðan má sjá landaðan afla eftir tegundum í janúar 2005 í samanburði við landaðan afla í janúar 2004. Heildarafli í janúar 2005 voru 1.671 tonn samanborið við 1.248 tonn á sama tíma í fyrra. Þess má geta að sl. janúarmánuður er stærsti janúarmánuður í aflatölum hingað til. Undanfarin ár hefur landaður afli í janúar verið í kringum 1.000 tonn.   Tegundir 2005 2004 Þorskur 436.460 301.477  kg Ýsa 288.504 215.866  kg Karfi 34.598 8.967  kg Steinbítur 167.126 47.630  kg Ufsi 31.523 8.582  kg Beitukóngur 29.875 0  kg Rækja 0 0  kg Langa  2.061 1.730  kg Keila 727 2.153  kg Gámafiskur 650.668 631.939  kg Aðrar tegundir  29.696 29.849  kg 1.671.238 1.248.193  kg