Sundæfingar.

Um helgina var Sóley Einarsdóttir sundkennari hjá okkur. Krökkunum var skipt í tvo hópa og voru tvær æfingar á dag hjá hvorum hóp. Krakkarnir tóku miklum framförum á þessum stutta tíma og var Sóley ánægð með þau. Veðrið hefði mátt vera betra en krakkarnir létu það nú ekki á sig fá og var mæting á æfingarnar góð, en krakkarnir voru frekar þreytt eftir helgina enda ekki vön að vera á tveimur klukkutíma sundæfingum á dag. Við tókum nokkra myndir á æfingunum og látum þær fylgja með hér fyrir neðan. Það er ljóst að ef krakkarnir verða áfram jafn dugleg í sundinu og nú um helgina þá verðum við ekki í vandræðum með að byggja upp jafn öfluga sunddeild og var hér fyrir nokkrum árum. Emil Robert

Fyrri dagur sjóstangaveiðimóts SJÓR

Fyrri dagur sjóstangaveiðimóts Sjóstangaveiðifélags Reykjavíkur (SJÓR), sem haldið er hér í Grundarfirði, gekk vel fyrir sig. Keppendur eru á milii 50 og 60 og var róið á 13 bátum. Aflinn hefði mátt vera meiri að sögn nokkurra keppenda á bryggjunni í dag, þegar mannskapurinn var að tínast í land. Veður var með eindæmum gott, sól og blíða. Alls eru haldin 8 mót í sumar sem teljast til Íslandsmeistarakeppni í sjóstöng, auk svipaðs fjölda innanfélagsmóta á vegum sjóstangaveiðifélaganna. Síðari dagur mótsins er laugardaginn 7. maí.   Löndun á bryggjunni   

Opnunartími sundlaugar um helgina

Vegna sundnámskeiða opnar sundlaugin ekki fyrr en kl. 14 á laugardag og sunnudag. Opið er til kl. 18 báða dagana.   Sundlaugin er opin mánudaga til föstudaga kl. 16:00-21:00 og um helgar kl. 12:15-18:00. Frá og með 23. maí lengist opnunartími. Sumartími verður nánar auglýstur síðar.

Skoðun á ástandi og frágangi rotþróa í sveitinni

Helgi Helgason og Gunnar P. Gunnarsson fara yfir stöðu málaUndanfarið hafa Helgi Helgason heilbrigðisfulltrúi Vesturlands og Gunnar Pétur Gunnarsson umsjónarmaður fasteigna hjá Grundarfjarðarbæ verið á ferð um sveitina til þess að gera skoðun á ástandi og frágangi rotþróa en slík skoðun hefur þegar verið gerð í þéttbýlinu. Auk skoðunar á sveitabæjum var einnig gerð skoðun á einstökum sumarhúsum.  

Sjóstangveiðimót í Grundarfirði

Mikið líf var við höfnina í morgun milli kl. 05:00 og 06:00 þegar árrisulir sjóstangveiðimenn fóru til veiða. Sjóstangveiðifélag Reykjavíkur heldur sitt árlega félagsmót hér í Grundarfirði í dag og á morgun og mættu á milli 50 og 60  þátttakendur, konur og karlar, á bryggjuna í morgun. Kl. 06:00 voru 13 bátar ræstir út í einu.  

Gatnaframkvæmdir við Hrannarstíg

Föstudaginn 6. maí nk. verður Hrannarstígur lokaður frá Grundargötu að Fossahlíð vegna vinnu við klæðningu/slitlag frá kl. 10:00 og fram eftir degi.   Verkstjóri

Leikskólinn Sólvellir er „stofnun mánaðarins” hjá Grundarfjarðarbæ

Frumkvæði að því að leikskóli var stofnaður í Grundarfirði átti Rauðakrossdeildin hér, sem réðst í verkefnið „Leikskóli“ árið 1976. Þá var ákveðið að byggja leikskóla að Sólvöllum 1 og voru það Rauðakrossdeildin og sveitarfélagið sem stóðu að byggingunni.  

Stofnun mánaðarins!

Á næstu mánuðum er ætlunin að kynna starfsemi einstakra stofnana Grundarfjarðarbæjar, með því að taka fyrir eina stofnun í hverjum mánuði. Hugsunin er að miðla upplýsingum, vonandi til fróðleiks og gamans í bland. Jafnvel þó allir viti af því að leikskóli, grunnskóli og áhaldahús starfi í þessum bæ, þá er örugglega ýmislegt sem varpað getur frekara ljósi á starfsemina í viðkomandi stofnun. Forstöðumaður hverrar stofnunar eða starfsemi tekur saman vikulega fróðleiksmola sem eru birtir á vef Grundarfjarðarbæjar og hefur Vikublaðið Þeyr tekið vel í að birta þetta jafnframt í blaðinu. Allar ábendingar og athugasemdir við þetta tiltæki eru vel þegnar, um leið og minnt er á vef bæjarins, www.grundarfjordur.is   Leikskólinn Sólvellir er stofnun maímánaðar og mun að auki standa fyrir opnum degi 24. maí til kynningar á starfseminni.  

Gámastöðin lokuð á morgun

Gámatöðin verður lokuð á morgun, uppstigningardag.   Gámastöðin er opin virka daga kl. 16:30-18:00 og kl. 10:00-12:00 á laugardögum. 

Franskir nemendur í heimsókn í Grundarfirði

Franskir nemendur frá Paimpol eru nú í heimsókn í Grundarfirði og verða til 11. maí.  Heimsóknin er liður í samstarfsverkefni á milli skólanna sem byggist á verkefnavinnu, tölvusamskiptum og gagnkvæmum heimsóknum. Frakkarnir gista heima hjá 9. bekkingum sem þeir hafa verið í tölvusamskiptum við í vetur. Nemendur 9. bekkjar Grunnskóla Grundarfjarðar fara til Frakklands þann 30. maí nk. og verða þeir á heimilum Frakkanna fyrri hluta ferðarinnar en fara síðan til Parísar og verða þar í 3 daga. Áætluð heimkoma er 12. júní.  Það má búast við að Frakkarnir setji svip á bæinn þessa daga og að sjálfsögðu tökum við vel á móti þeim. Meðfylgjandi myndir voru teknar á Hótel Framnesi þar sem hópurinn, Íslendingar og Frakkar, snæddi saman.