Nýr verkstjóri áhaldahúss kominn til starfa

Jónas Pétur Bjarnason hefur tekið við starfi verkstjóra áhaldahúss. Hægt er að ná í hann í s: 691-4343. Jónas er boðinn velkominn til starfa hjá Grundarfjarðarbæ

Lífsbjörg Þjóðar

Nýr áfangi í Eyrbyggju sögumiðstöð, „Lífsbjörg Þjóðar“, var opnaður formlega þann 17. júní sl. Um leið var opnuð myndlistasýning Guðmundar Rúnars Guðmundssonar. Meðfylgjandi myndir voru teknar á opnuninni.   Ingi Hans og Pálína Gísladóttir

17. júní sundmótið.

Það voru 18 krakkar sem tóku þátt á 17.júní sundmóti UMFG og var yngsti keppandinn 6 ára. Keppt var í bringusundi og skriðsundi. Nokkru fyrir mótið kom í leitirnar farandbikar sem veita á ár hvert, fyrir besta afrek mótsins, bikarinn hafði verið vel geymdur uppi í hillu hér í bæ í nokkur ár, en er nú kominn í umferð aftur. Besta afrek mótsins átti Jóhanna Steinþóra og fær hún gripinn til varðveislu í eitt ár.  

Tilboð opnuð í viðbyggingu leikskólans

Í dag, miðvikudaginn 16. júní, voru opnuð tilboð í viðbyggingu Leikskólans Sólvalla ásamt breytingum á eldra húsnæði og tilheyrandi lóðarframkvæmdum. Eitt tilboð barst, frá Trésmiðju Guðmundar Friðrikssonar í Grundarfirði og hljóðar upp á tæpar 50,5 millj. kr. Kostnaðaráætlun hönnuða var tæpar 39,3 millj. kr. Eftir á að yfirfara tilboðið.

Nýja hafnarvogin vígð!

Búið er að koma nýju hafnarvoginni við Grundarfjarðarhöfn fyrir. Vogin er tæpir 23 metrar á lengd og getur nú vigtað stóra flutningabíla í heild sinni. Ragnar Haraldsson vígði vigtina í dag þegar hann ók einum flutningabíl fyrirtækisins Ragnars og Ásgeirs ehf. upp á vogina. Bíllinn er um það bil 18 metra langur og rúmaðist því vel á voginni.     Ragnar Haraldsson, Hafsteinn Garðarsson, hafnarvörður og Runólfur Guðmundsson formaður hafnarstjórnar  

Húsnæðisskortur – byggjum meira

Grein bæjarstjóra, birt í Vikublaðinu Þey 16. júní 2005:   Hjá Grundarfjarðarbæ verðum við mjög fljótt vör við það þegar þrengist um á fasteignamarkaði, bæði hvað varðar leiguhúsnæði og fasteignir til kaups/sölu. Mikið er leitað til bæjarins um leiguhúsnæði og með almennar fyrirspurnir um laust íbúðarhúsnæði í bænum. Undanfarna mánuði, og reyndar um alllangt skeið, hefur verið töluverð hreyfing á húsnæði og sú staða er uppi nú að mjög fá hús eru til sölu, kannski má segja að það sé bara búið að kaupa flest það íbúðarhúsnæði sem yfirhöfuð er til sölu, a.m.k. þessa stundina. Mjög mikil eftirspurn er eftir húsnæði og mikið spurt um lóðir og ljóst að margir íhuga nýbyggingar, án þess þó að hafa látið til skarar skríða.

Skemmtiferðaskip í Grundarfjarðarhöfn

Fyrsta skemmtiferðaskip sumarsins kom til hafnar í Grundarfirði sunnudaginn 12. júní sl. Alls hafa 10 skip boðað komu sína í sumar auk þess sem ein skúta hefur tilkynnt komu sína til Grundarfjarðar. Næsta skemmtiferðaskip, Ocean Monarc, kemur kl. 08:00 í fyrramálið og stoppar til  kl. 13:30.   Paloma 1 þegar það sigldi út fjörðinn á sunnudagskvöld 

Innritun nýnema á haustönn 2005 í FSN

Innritun nýnema (nemenda sem eru að koma úr 10. bekk) verður dagana 13. og 14. júní kl. 10:00 – 17:00. Nemendur eru beðnir um að koma til viðtals í skólann með foreldrum/forráðamönnum sínum þá daga. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi lokið rafrænni skráningu þegar þeir koma til viðtals, en þeir geta einnig fengið aðstoð við skráninguna á staðnum.

Stórsigur hjá 4.fl kv.

Á föstudaginn spilaði 4.fl kv á móti HK. Stelpurnar í UMFG sigruðu þann leik 11-3. Lið UMFG átti stórleik og vonum við að þetta hafi aðeins verið byrjunin á því sem koma skal í sumar. Næsti leikur hjá 4.fl kv er miðvikudaginn 22.júní en á spila þær við Þrótt R í Reykjavík. 2.fl kvenna spilar á mánudaginn við lið Ægis í Þorlákshöfn og 5.fl ka fer á miðvikudaginn og spilar við lið Álftaness á Bessastaðavelli. Nú eru síðustu forvöð að panta félagsgalla UMFG í bili. Tekið verður við pöntunum 13 júní og síðan ekki fyrr enn eftir 13.júlí. UMFG

Áfram stelpur - 16. Kvennahlaup ÍSÍ

16. Kvennahlaup ÍSÍ fór fram laugardaginn 11. júní í Grundarfirði eins og víðar á landinu, og reyndar erlendis líka. Lagt var af stað frá Esso-plani kl. 11.00 og var gengið tvær vegalengdir, 2,5 og 5 km. Að hlaupi eða gögnu lokinni var boðið upp á hressingu í Þríhyrningnum og  allir þátttakendur fengu verðlaunapening. Frítt var í sundlaugina á eftir. Veður var hentugt til hreyfingar, milt og gott.