Reglur um kjör íþróttamanns Grundarfjarðar

Í byrjun mars voru kynnt drög að reglum um kjör íþróttamanns Grundarfjarðar. Drögin voru sett hér á heimasíðuna og íþróttafélögum var sent bréf með beiðni um að senda athugasemdir við drögin fyrir 11. apríl. Fáar ábendingar hafa borist nefndinni en íþróttafélög og einstaklingar eru hvattir til að senda athugasemdir í síðasta lagi 18. apríl nk.  

Viðvera atvinnuráðgjafa SSV

Atvinnuráðgjafar á vegum Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, SSV-Þróun og ráðgjöf, eru með reglulega viðtalstíma víðsvegar um Vesturland. Í Grundarfirði eru þeir með viðverutíma á bæjarskrifstofunni annan og fjórða fimmtudag í hverjum mánuði milli kl. 9 og 12.  

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð heldur tónleika í Grundarfirði

Kór Menntaskólans við Hamrahlíð Kór Menntaskólans við Hamrahlíð hefur verið á tónleikaferðalagi um Snæfellsnes undanfarna daga. Ferðin byrjaði með tónleikum í Reykholti í Borgarfirði sl. föstudag og síðan þá hefur kórinn haldið tónleika í Ólafsvík, Stykkishólmi og Grundarfirði og haft aðsetur í Fjölbrautaskóla Snæfellinga. Kórinn hélt síðustu tónleika ferðarinnar í dag í Fjölbrautaskóla Snæfellinga fyrir nemendur og starfsfólk Fjölbrautaskólans og Grunnskóla Grundarfjarðar. Í kórnum eru um 70 nemendur.

1x2 í Sögumiðstöðinni !

Áhugasamir tipparar voru mættir í Sögumiðstöðina á laugardagsmorguninn til að freista gæfunnar. Við tókum að gamni myndir af nokkrum þeirra og er fyrsta myndin af áskorendum vikunnar þeim Guðna Hallgríms og Guðmundi Jóns Guðni og Guðmundur

Sundæfingar.

Mánudaginn 11.apríl byrja sundæfingar. Til að byrja með verða æfingar á mánudögum og fimmtudögum kl 15:30 - 16:20 fyrir lengra komna og á miðvikudögum kl 14:30 - 15:00 fyrir byrjendur. Athugið að börnin verða að vera orðin synd. Sjáumst á sundæfingu - Sundráð

Sundlaugin opnar á laugardag

Sundlaugin opnar laugardaginn 9. apríl. Athugið að viðgerð á heitu pottunum er ekki lokið! Fyrst um sinn verður sundlaugin opin sem hér segir: Virka daga kl. 16-21.* Laugardaga og sunnudaga kl. 12:15-18. Hætt er að selja ofan í laug hálftíma fyrir lokun.   *Ath. á mánudögum og fimmtudögum eru sundæfingar til kl. 16:30. Aðeins er hægt að fara í heitu pottana á meðan á sundæfingum stendur.

Verkstjóri í áhaldahúsi

Grundarfjarðarbær auglýsir laust til umsóknar starf verkstjóra í áhaldahúsi bæjarins. Verkstjóri sér um undirbúning, skipulagningu og vinnu við ýmsar verklegar framkvæmdir og umhirðuverkefni á vegum áhaldahúss, s.s. við gatnakerfi og opin svæði, hreinlætismál, fráveitu og vatnsveitu, hefur umsjón með sumarstörfum og vinnuskóla og ýmsum fleiri verkefnum. Lögð er mikil áhersla á sveigjanleika, enda eru verkefni og vinnulag töluverðum breytingum háð. Iðnmenntun er æskileg, en reynslu má meta til jafns, krafa er gerð um haldgóða tölvukunnáttu og ritfærni. Lögð er áhersla á vinnusemi, samviskusemi, frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð. Konur jafnt sem karlar koma til greina í starfið.  

Starfslýsing vegna starfs verkstjóra í áhaldahúsi

Í auglýsingu um lausa stöðu verkstjóra í áhaldahúsi Grundarfjarðar í síðustu viku kom fram að starfslýsing kæmi út í dag, 6. apríl. Starfslýsingin verður væntanlega afgreidd á fundi bæjarráðs Grundarfjarðar 7. apríl, og verður birt á vef Grundarfjarðabæjar að honum loknum.   Bæjarstjóri  

Fréttir af borun

Frá borsvæði, mánudaginn 4. apríl sl.   Bormenn frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða eru búnir að bora 430 metra. Borun gengur hægt þessa stundina vegna þess að bergið er mjög hart. Kristján Sæmundsson, sérfræðingur hjá Orkustofnun, telur borunina ganga eðlilega miðað við berglög á svæðinu. Borinn er kominn í gegnum fyrri æðina og hefur rennslið verið stöðvað og er köldu vatni dælt ofan í holuna til þess að auðveldara sé að ná sandinum upp. 

Aðalfundur Félags atvinnulífsins í Grundarfirði

Aðalfundur FAG verður haldinn fimmtudaginn 7. apríl nk. kl. 20 í Sögumiðstöðinni. Gestur fundarins er Þórólfur Árnason fyrrverandi borgarstjóri og framkvæmdastjóri Tals. Hann fjallar um spurninguna "Hvernig markaðssetjum við Grundarfjörð"?    Allir velkomnir!   Stjórn FAG