Tilkynning frá sundlaug Grundarfjarðar

Sundlaug ásamt heitum pottum og sturtu verður lokuð í dag miðvikudaginn 6. ágúst. Á morgun verður sundlaugin lokuð en heitu pottarnir og sturtuaðstaða verða opin. Áætlað er að sundlaugin verði opnuð á ný á föstudaginn, 8. ágúst.

Aðsóknarmet í Sögumiðstöðinni í Grundarfirði

Fimmtán ára strákur úr Grafarvogi, Ívar Smárason, varð fimm þúsundasti gesturinn í Eyrbyggju Sögumiðstöð þetta sumarið.  Ívar var á ferðalagi ásamt foreldrum sínum og bróður og annarri fjölskyldu.  Þau höfðu varið verslunarmannahelginni í blíðu og góðu yfirlæti á tjaldstæðinu í Grundarfirði og komu við í Sögumiðstöðinni áður en haldið var heim á leið.  Á myndinni sést hvar Ingi Hans Jónsson  forstöðumaður afhendir Ívari stóra Macintosh dós, í tilefni af því að hann var fimmþúsundasti gestur sumarsins.  Einnig var honum boðið upp á veitingar á Kaffi Emil.  

Víðavangshlaup UMFG.

Þáttakendur í víðavangshlaupinu Síðustu ár hefur verið haldið létt víðavangshlaup á Góðri stund í Grundarfirði, en keppnin í ár var með aðeins breyttu sniði.  Keppt var um fjölmennasta hverfið sem reyndust vera gulir, fámennasta hverfið var græna hverfið, en rauðir mættu ekki til leiks.  Fótfráasta hverfið var gula hverfið og síðan voru veittar viðurkenningar fyrir elsta og yngsta keppandan.  Verðlaun voru fyrir fyrstu 3 sætin og svo skemmtilega vildi til að mæðgur voru í 1 og 2 sæti í kvennaflokki og feðgar í karlaflokki.  Að hlaupi loknu fengu allir svala og prins polo, Grundafjarðarbær bauð í sund og Hrannarbúðin bauð fjölmennasta hverfinu upp á ís í Kósý.  Frjálsíþróttadeild UMFG þakkar öllum sem lögðu til vinninga og aðstoð.   KH.

Tilkynning frá sundlauginni.

Sundlaug Grundarfjarðar er lokuð tímabundið vegna bilunar, en opið er í heitu pottana og sturtur. 

HSH valið fyrirmyndarfélagið þriðja árið í röð

HSH var valið fyrirmyndarfélagið á Unglingalandsmótinu sem fram fór í Þorlákshöfn. Það var Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, sem tilkynnti þetta á lokathöfn mótsins í gærkvöldi. HSH var þessa heiðurs aðnjótandi þriðja árið en á unglingalandsmótinu á Hornarfirði og á Laugum var félagið einnig fyrir valinu. Innganga HSH við setningu mótsins vakti mikla athygli og var mikill metnaður lagður í hana af hálfu héraðssambandsins. Umgjörð liðsins var sömuleiðis öll til fyrirmyndar á mótinu.    Frétt af vef UMFÍ.

Menningarverðlaunin Helgrindur veitt í annað sinn

Hin árlegu verðlaun fræðslu- og menningarmálanefndar, Helgrindur,  voru veitt um síðustu helgi. Verðlaunin eru veitt fyrir óeigingjarnt starf í þágu menningar í Grundarfirði. Að þessu sinni hlaut starfsfólk tónlistarskólans verðlaunin.   Við tónlistarskólann starfa Þórður Guðmundsson skólastjóri, Ari Einarsson, Baldur Orri Rafnsson og Alexandra Suhkova, og hafa þau starfað við skólann frá 2005.   Nemendur við skólann eru nú rúmlega 100. Fyrir utan hefðbundna kennslu eru árlega haldnir tónleikar á vegum skólans, jólatónleikar og vortónleikar. Á fyrstu tónleikanna mættu 30 áhorfendur en á þá síðustu 260 áhorfendur þannig að starfið hefur farið vaxandi jafnt og þétt.   Í skólanum er lögð mikil áhersla á samspil nemenda sem og kennara og við skólann eru starfandi tvær skólahljómsveitir og lúðrasveit sem stofnuð var í janúar á þessu ári. Þórður er stjórnandi eldri skólahljómsveitar, Alexandra er stjórnandi yngri skólahljómsveitar og Baldur er stjórnandi lúðrasveitar.   Nú í vetur var hafið samstarf við framhaldsskólann um Tónsmiðju sem var áfangi í framhaldsskólanum og Ari var kennari við þann áfanga.   Einnig er samstarfsverkefni milli Tónlistarskólanna í Grundarfirði og Stykkishólmi sem er Trommusveit Snæfellsness og þar eru Baldur Orri og Martin Markvoll stjórnendur en sveitin æfir skrúðgöngutakta meðal annars.   Þess má einnig geta að Þórður og Baldur tóku sig til árið 2007 og gáfu út disk í tengslum við bæjarhátíðina Á góðri stund og fengu til liðs við sig unga og aldna Grundfirðinga. Ágóðinn af sölu disksins rann til Krabbameinsfélags Snæfellsness. Félagarnir sömdu einnig hátíðarlagið Á góðri stund.   Starfsfólk tónlistarskólans er því í góðri sveiflu og stefnir að enn stærri hlutum á komandi árum. Nú á dögunum var ráðinn til starfa fimmti kennarinn við tónlistarskólann og gaman verður að sjá hvernig stækkun skólans verður á komandi skólaári.