Kvikmyndahátíðin nálgast

  Dögg Mósesdóttir, skipuleggjandi kvikmyndahátíðarinnar Northern Wave, var í viðtali á Rás 1 í þættinum Kviku síðastliðinn laugardag. Þeir sem vilja hlusta á þetta fína viðtal geta gert það á ruv.is undir Kviku.

112 í grunnskólanum

    Í tilefni af 112 deginum heimsóttu Slökkvilið Grundarfjarðar, sjúkraflutningamenn og björgunarsveitin Klakkur grunnskólann og fræddu nemendur um neyðarþjónustu og starfsemi sína. Einnig voru veitt verðlaun fyrir eldvarnargetraun sem lögð var fyrir 3. bekk um land allt í eldvarnarvikunni í desember. Einn Snæfellingur fékk verðlaun en á landinu öllu voru aðeins  33 verðlaunahafar. Hinn eldklári verðlaunahafi heitir Gunnar Ingi Gunnarsson og afhenti slökkviliðsstjóri honum verðlaunin fyrir hönd Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Í verðlaun hlaut Gunnar viðurkenningarskjal, reykskynjara, 8.000 kr. inneign á bankabók og bíómiða.  

Þorrinn blótaður í leikskólanum

Í tilefni þorrans héldu leikskólabörnin skemmtun í Samkomuhúsinu í dag og buðu fjölskyldum sínum og  1. bekk grunnskólans að horfa á. Þar sýndi hver árgangur ( 2003 – 2006) sitt atriði, s.s frumsamið leikrit, nokkur  söngatriði og tískusýningu.  Eftir  frábær og fjörug skemmtiatriði buðu börnin gestum sínum með sér yfir í leikskólann þar sem þorramatur var á borðum.    

Eyrarrósin afhent

Af vef skessuhorns.   Eyrarrósin, sérstök viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni var afhent á Bessastöðum í gær. Það var Landnámssetur Íslands í Borgarnesi sem hlaut verðlaunin að þessu sinni og tóku hjónin Sigríður Margrét Guðmundsdóttir og Kjartan Ragnarsson við þeim. Auk Landnámssetursins var Eyrbyggja – Sögumiðstöð í Grundarfirði tilnefnt til verðlaunanna og Skaftfell, miðstöð myndlistar á Austurlandi. Verðlaunin veitti Dorrit Moussaieff forsetafrú en hún er jafnframt verndari Eyrarrósarinnar. Landnámssetrið fékk að launum fjárstyrk að upphæð1,5 milljón króna og verðlaunagrip eftir Steinunni Þórarinsdóttur.   Tilnefndir ásamt Dorrit forsetafrú.

Eyrbyggja tilnefnd til Eyrarrósarinnar

Ingi Hans Jónsson, forstöðumaður Sögumiðstöðvarinnar í Grundarfirði, fékk símtal í vikunni þar sem honum var greint frá því að umsókn hans um Eyrarrósina væri meðal þriggja verkefna sem valin hefðu verið í tilnefningu til verðlaunanna. Hefur stjórn Sögumiðstöðvar verið boðuð til Bessastaða í dag klukkan 16.00 en þar verður tilkynnt um hvaða verkefni fái Eyrarrósina. 

112-dagurinn 2009 – öryggi barna og ungmenna

Dagur neyðarnúmersins, 112-dagurinn, er haldinn um allt land miðvikudaginn 11. febrúar. Að þessu sinni leggja samstarfsaðilarnir áherslu á að vekja athygli grunnskólabarna á því víðtæka öryggis- og velferðarneti sem þau hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið ef eitthvað bjátar á. Börnunum er jafnframt bent á að þau geta sjálf gert ýmislegt til að stuðla að eigin öryggi og annarra, meðal annars með þátttöku í starfi sjálfboðaliðasamtaka. Viðbragðsaðilar heimsækja grunnskóla um allt land og fræða nemendur um neyðarnúmerið og starfsemi sína.   Að venju verður skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur á 112-daginn og veitt verða vegleg verðlaun í Eldvarnagetrauninni.

Unglingalandsmótið í Grundarfirði verður árið 2010

Á fundi stjórnar UMFÍ þ. 7. febrúar sl. var samþykkt að verða við ósk stjórnar HSH um að unglingalandsmótið í Grundarfirði verði haldið árið 2010 eða einu ári síðar en upphaflega var ákveðið.  Þessi ósk um að vera með mótið ári síðar en upphaflega var sótt um, er til komin vegna þeirra efnahagsþrenginga sem dunið hafa yfir.  Þessi frestur veitir aukið svigrúm til að undirbúa svæðin sem mótið verður haldið á.  Stefnt er að því að ljúka við undirbúning á þessu ári að undanskildu gerviefni á hlaupa- og stökkbrautir á frjálsíþróttavellinum, en það er lang dýrasta framkvæmdin sem eftir er.  Félagsmenn HSH og Grundfirðingar almennt munu taka vel á móti gestum á unglingalandsmótinu árið 2010 og tryggja að mótið verði glæsilegt í alla staði.

Eldri borgarar athugið

Félag eldri borgara minnir á heimasíðu félagsins á http://ellismellir.123.is/

Dagur leikskólans

  6. febrúar er dagur leikskólans, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.   Hér í Leikskólanum Sólvöllum er mikið um að vera í febrúar mánuði fyrir utan venjulegt starf, elstu nemendurnir fara í heimsókir í Bókasafnið einu sinni í viku, nemendur úr Framsveitinni fara í heimsókn í Fellaskjól, það er fjólublárdagur, vasaljósadagur (myrkurdagur), mömmu- og ömmudagur í tilefni konudagsins, þá eru viðburðir tengdir Bollu-, Sprengi- og Öskudegi, tannlæknirinn kemur í heimsókn í Framsveitina og Þorrablótið verður haldið miðvikudaginn 11. febrúar og hefst með skemmtiatriðum nemenda (f. 2003-2006) kl. 10:30 í Samkomuhúsinu og síðan verður Þorramatur í leikskólanum.  

Skrítnar stelpur á kvikmyndahátíð í Grundarfirði

Frétt á vísi.is: Listahópurinn Weird Girls Project verður áberandi á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni Northern Wave Festival sem verður haldin í Grundarfirði í annað sinn í lok febrúar.