Á 639. fundi bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar, 3. júlí 2025, var rætt um ástand þjóðvega á Snæfellsnesi, ekki síst um boðaða aukafjárveitingu til vegamála 2025. Sumarhlé er á fundum bæjarstjórnar í júlí og ágúst og fer bæjarráð með umboð bæjarstjórnar á meðan.

Hér má sjá fundargerð og fylgigögn málsins.

Ályktun um viðhald þjóðvega á Snæfellsnesi

Málsnúmer 2009014

Enn eru til umræðu á vettvangi bæjarstjórnar og bæjarráðs Grundarfjarðarbæjar samgöngumál og ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar, þar sem ástandið hefur aldrei verið verra. Á það ekki síst við í næsta nágrenni Grundarfjarðar, á Snæfellsnesi og langleiðina suður í Borgarnes.

Bæjarstjórn hefur margsinnis gert athugasemdir við hættulegt ástand þjóðvegarins. Fyrr á þessu ári sendu sveitarstjórnir á Vesturlandi ákall til forsætisráðherra og innviðaráðherra um að brýn þörf væri til að bregðast strax við bágbornu ástandi tiltekinna vegarkafla, með neyðarfjárveitingu í allra brýnustu viðgerðirnar, til að tryggja íbúum, atvinnulífi og ferðafólki lágmarks öryggi á vegunum.

Bæjarráð þakkar ráðherrunum fyrir að hafa brugðist hratt við ákalli sveitarstjórnarfólks á Vesturlandi og boðið til fundar 10. mars sl. þar sem tækifæri gafst til þess að ræða þessi mál.

Nú þegar árið er hálfnað, þá hafa boðaðar aukafjárveitingar til samgöngumála ekki skilað sér til Vegagerðarinnar í formi samþykktra fjárheimilda til svæðisbundinna stofnana Vegagerðarinnar, en krafa er um skýra fjárheimild þegar farið er af stað í undirbúning og framkvæmdir samgöngumannvirkja. Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar lýsir vonbrigðum sínum með það.
 
Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar vísar í fjölmargar bókanir bæjarstjórnar um ástand þjóðvegar 54, Snæfellsnesvegar.

Bæjarráð lýsir enn og aftur yfir þungum áhyggjum af síversnandi og hættulegu ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi, ástandi sem er að stórum hluta til komið vegna skorts á viðhlítandi viðhaldi.

Ástand þjóðveganna hefur sjaldan verið eins slæmt og nú. Hættan sem leiðir af ástandi veganna er algjörlega óviðunandi fyrir notendurna. Á það jafnt við um íbúa, gesti, atvinnubílstjóra og neyðarflutninga. Jarðsig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, slitlag er gróft og bútakennt eftir áralangar holufyllingar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og víða eru vegir of mjóir. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál.

Verulega aukin umferð, þar á meðal stórauknir þungaflutningar á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til vegagerðar, ekki síst til almenns viðhalds. Þó nýjar vegaframkvæmdir séu af hinu góða, þá má ekki gleymast að sinna viðhaldi eldri vega. Í þeim liggja mikil verðmæti sem fara forgörðum, sé viðhaldi þeirra ekki sinnt.

Í febrúar sl. þurfti Vegagerðin að moka tjöru af „blæðandi“ þjóðvegum á Snæfellsnesi. Fjölmargir akandi vegfarendur urðu fyrir óþægindum og tjóni á ökutækjum sínum, vegna ástands þjóðveganna, þegar þykk tjara lagðist á hjólbarða og aðra fleti bifreiða. Slíkt er ekki einungis hvimleitt, heldur er umferðaröryggi stórlega ógnað í slíku ástandi, auk þess sem það veldur eigendum ökutækja fjárhagstjóni. Viðbúið er að slíkt ástand geti skapast aftur eins og ástand umræddra vega er.

Bæjarráð Grundarfjarðarbæjar ítrekar fyrri óskir um stóraukna fjármuni til nauðsynlegra viðgerða og viðhaldsframkvæmda á þjóðvegi 54.

Samþykkt samhljóða.

Bæjarstjóri sagði frá því að hún hefði óskað eftir því að hluti þjóðvegar 54, annars vegar frá Grundargötu 4 og að bæjarmörkum í austri, og hins vegar frá Hellnafelli að Kirkjufellsbrekku, yrði malbikaður, en nú standa einmitt yfir framkvæmdir við endurbyggingu síðarnefnda vegarkaflans. Bæjarráð tekur undir þessar óskir og telur umferðarþunga á þessum köflum gefa tilefni til að styrkja vegina enn frekar með malbiksyfirlögn.