Frá þjóðvegi 54, Snæfellsnesvegi við Breiðablik, í september 2019. Ástand vegarins hefur versnað ár …
Frá þjóðvegi 54, Snæfellsnesvegi við Breiðablik, í september 2019. Ástand vegarins hefur versnað ár frá ári sökum ófullnægjandi viðhalds.

Á 273. fundi sínum þann 8. júní 2023 áréttaði bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar fyrri ályktanir sínar frá september 2020, apríl 2022 og apríl 2023, um brýnar endurbætur þjóðvega á Snæfellsnesi. Ályktanir bæjarstjórnar hafa einkum snúist um bágborið ástand þjóðvegar 54, frá Borgarnesi, um Mýrar og vestur eftir Snæfellsnesi, og á kafla vestan þéttbýlis Grundarfjarðar. Einnig um þjóðveg 56 um Vatnaleið. 

Í síðustu ályktun bæjarstjórnar, á fundi 13. apríl 2023, taldi bæjarstjórn miðað við framvindu viðhaldsverkefna og stöðu, að endurskoða ætti fjárveitingar og flokkun verkefna á verstu vegarköflunum, þar sem viðhaldsleysi þeirra hafi orsakað þörf fyrir endurbyggingu. Stærslu og brýnustu viðhaldsverkefnin ættu að færast úr flokki viðhalds bundinna slitlaga yfir í nýframkvæmdir þar sem tryggja þyrfti sérstakar fjárveitingar í samgönguáætlun til nýbyggingar brýnustu vegarkaflanna. 

Á fundi sínum þann 8. júní 2023 tók bæjarstjórn undir ályktun sem stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi hafði gert á fundi þann 7. júní 2023 þar sem skorað er á yfirvöld samgöngumála að veita nú þegar fjármunum til þess að fara í viðhaldsverkefni við Snæfellsnesveg nr. 54. Viðhald vegarins á stórum köflum þoli enga bið.

Sú viðbót var hinsvegar gerð við fyrri bókanir bæjarstjórnar, að ef ekki verði farið í endurbætur fljótlega á verstu köflunum, á þjóðvegi 54, Snæfellsnesvegi, telji bæjarstjórn að ráðast þurfi í aðgerðir eins og að draga úr umferðarhraða til þess að tryggja umferðaröryggi á veginum.