Bæjarfulltrúar, bæjarstjóri, byggingarfulltrúi og fulltrúar Mílu funduðu í Grundarfirði 12. apríl 20…
Bæjarfulltrúar, bæjarstjóri, byggingarfulltrúi og fulltrúar Mílu funduðu í Grundarfirði 12. apríl 2022.

Þriðjudaginn 12. apríl 2022 áttu bæjarfulltrúar Grundarfjarðarbæjar, ásamt bæjarstjóra og byggingarfulltrúa, góðan fund í Ráðhúsinu með fulltrúum Mílu, þeim Jóni Ríkharð Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Mílu og Ingimar Ólafssyni, sviðsstjóra grunnkerfa hjá Mílu. Umræðuefnið voru fjarskiptamál.

Fundurinn var haldinn í framhaldi af umfjöllun bæjarráðs og bæjarstjórnar um fjarskiptamál í febrúar og mars sl. og ályktun bæjarstjórnar á 257. fundi sínum þann 10. mars sl. og ósk um úrbætur á fjarskipta-/netsambandi. Sú vinna bæjarstjórnar byggði m.a. á fyrri samtölum við Mílu og ekki síst fjölmörgum ábendingum íbúa um gæði fjarskipta, sem teknar voru saman í febrúar sl. að frumkvæði bæjarins og sendar fjarskiptafyrirtækjum til skoðunar, með ósk um viðbrögð. Ábendingar íbúa snéru bæði að heimilistengingum og farsíma - hér má lesa ábendingarnar. Í erindi til Mílu þann 26. mars sl. var jafnframt óskað eftir sýn Mílu á stöðu og framtíðaráform um uppbyggingu vegna ljósleiðara.

Míla brást mjög vel við erindi bæjarins og mættu fulltrúar fyrirtækisins á fund með fulltrúum bæjarins þann 12. apríl sl., eins og áður sagði.

Míla hafði þá framkvæmt ítarlega greiningu á gæðum þeirrar þjónustu sem félagið býður í Grundarfirði. Í því fólst greining á fastlínutengingum og farsímaþjónustu félagsins. Framkvæmd greiningar og niðurstöður hennar voru kynntar fyrir fulltrúum bæjarins. 

Á næstunni munu fulltrúar bæjarins einnig eiga fundi með fulltrúum fjarskiptafyrirtækja um fjarskiptamál og þjónustu í Grundarfirði.

Hér fyrir neðan er að finna stutta samantekt á greiningu og kynningu Mílu á fyrrgreindum fundi þann 12. apríl sl.: 

Fastlínutengingar

Míla býður fastlínutengingar til heimila í bænum sem flestar eru Ljósnetstengingar. Í heild eru 272 tengingar á Ljósneti og 7 á ADSL. Að auki eru 47 ljósleiðaratengingar skráðar í notkun á símstöð en stærstur hluti þeirra er í dreifbýli. 

Ljósnet uppfyllir ágætlega kröfur um flutningsgetu fyrir hefðbundna heimilisnotkun, s.s. með sjónvarpi, internet og IP-síma. Ljósnetstengingar eru í notkun á rúmlega 30 þúsund heimilum á landinu öllu og talsvert af þeim er á stöðum þar sem notandinn hefur aðgang að ljósleiðara og því val um tengingar. Eðlileg Ljósnetstenging á því að virka ágætlega, en ábendingar íbúa í Grundarfirði gáfu til kynna að svo væri ekki að fullu hér. Ástæður þessa þurfti því að greina. 

Sett var af stað mæling á línugæðum á öllum línum í þéttbýlinu sem gefur góða sýn á línugæði og flutningsgetu. Greining á tengingum leiddi í ljós að almennt væru gæði tenginga á staðnum góð. Um 2% tenginga voru með talsverðan vanda en landsmeðaltal þar er um 3%. Um 80% tenginga ná 40mb/s eða meiri hraða og 93% meiri en 30mb/s. Vitað er um alvarlega bilun sem varð í streng í Grundarfirði í byrjun árs og hafði hún án efa mikil áhrif á notendur. Bilunin kom fyrst upp í lok síðasta árs en reyndist mun umfangsmeiri en upphaflega var áætlað og því lauk viðgerð ekki fyrr en í byrjun mars. Bilunin hafði mikil áhrif á um 30 notendur vestan símstöðvar, en búið var að lagfæra hana þegar greining Mílu fór fram. 

Vitað er að ýmislegt annað en línugæði hafa áhrif á upplifun notenda. Greining leiddi í ljós að nokkuð víða voru eldri beinar (e. router - búnaður fjarskiptafélags ásamt wifi) í notkun sem gat haft áhrif á upplifun notenda. Einnig er þekkt að gæði innanhússlagna geta haft mikil áhrif á gæði tenginga.  Loks geta gæði wifi-tenginga innanhúss verið mjög misjöfn og eru þau háð húsnæði, fjarlægð frá wifi-búnaði og fjölda tengdra tækja. Auk greiningar á línugæðum sendi Míla teymi á staðinn í einn dag til að heimsækja notendur. Valdir voru tólf notendur þar sem greining sýndi möguleg vandamál innanhúss. Ellefu notendur þáðu heimsókn og í flestum tilfellum var hægt að bæta stöðuna og víðast var skipt um endabúnað. Notendur eru hvattir til að skoða vel endabúnað frá fjarskiptafélagi og fá hann endurnýjaðan ef hann er orðinn gamall. 

Ljósleiðari

Fyrir liggur að ljósleiðari er framtíðin. Nokkrar heimilistengingar eru með talsvert skerta þjónustu sem ekki verður lagfært nema með ljósleiðaravæðingu. Ljósleiðaravæðing leysir vanda sem tengist línugæðum en hefur takmörkuð áhrif á innanhússlagnir eða wifi. Þarfir notenda geta verið mjög misjafnar og ljósleiðari er lausnin þar sem notkun er meiri en hefðbundin heimilisnotkun því flutningsgeta ljósleiðara er margföld. Ljósleiðari er kominn í helstu stofnanir bæjarins og er í boði fyrir flest fyrirtæki. 

Áætlun sem kynnt var á vef Mílu í nóvember síðastliðnum gerir ráð fyrir að ljósleiðaravæðing bæjarins hefjist í sumar. Sjá mynd: 

Míla framkvæmdir 2022

 

 

 

 

 

 

 

 Gera má ráð fyrir að verkefnið taki í heild þrjú ár, 2022-2024, og verði að mestu lokið árið 2024.

Fulltrúar Grundarfjarðarbæjar óskuðu eftir að skoðað yrði hvort hægt væri að útvíkka það svæði sem taka á í ár, m.t.t. legu tenginga og er það í skoðun hjá Mílu.

Farsími

Míla á og rekur fjóra farsímasenda í sveitarfélaginu; við símstöðina í Grundarfirði, á Klakki og Akurtröðum austan við þéttbýlið og hjá Lágarkoti vestan þéttbýlisins. Farsímasendar Mílu þjóna eingöngu dreifingu fyrir viðskiptavini Símans. Að auki þjónar sendir við Kothraun í Helgafellssveit notendum Símans gegnum GSM reiki. Greining Mílu á eingöngu við um senda Mílu en nær ekki til farsímadreifingar annarra.

Míla sendi skönnunarbíl til að skoða nákvæmlega gæði og dreifingu farnets í sveitarfélaginu. Greiningin sýndi að styrkur 3G og 4G er mjög svipaður og er góður fyrir bæði úti- og innisamband nema austast í bænum,​ þar er ótryggt innisamband sem má bæta.

Míla er tilbúin að bæta við sendi á íþróttahúsinu til að bæta sambandið austast í bænum, fáist fyrir því leyfi.

Farsímasamband á þjóðvegum

Farsímaþjónusta hefur að mestu verið byggð upp á markaðslegum forsendum í samkeppni. Þó farsímadreifing hafi batnað mikið er hún enn ótrygg, sérstaklega í dreifbýli.

Míla er með þrjá senda í dreifbýli en​ þrátt fyrir það er lélegt vegasamband á ákveðnum stöðum og einnig ótryggt innisamband á nokkrum lögbýlum. 

Til að bæta dekkningu lögbýla þarf nýja sendastaði sem ólíklegt er að verði reistir á markaðslegum forsendum. Í gangi er verkefni hjá ríkinu um hvernig bæta eigi dekkningu í dreifbýli þar sem uppbygging verður ekki gerð á markaðslegum forsendum. Það á sérstaklega við um samband á þjóðvegum.

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar mun í framhaldi af þessum upplýsingum skoða þessi mál frekar.

Um 5G

Míla upplýsti einnig að 5G er væntanlegt, fyrst í þéttbýli. Ekki er komin tímasetning á uppsetningu sem verður líklega síðar í ár eða byrjun þess næsta.

Í gögnum sem Grundarfjarðarbær lét taka saman fyrr á árinu, sem og í svörum Mílu á fyrrgreindum fundi, er ljóst að 5G-kerfi kemur ekki í staðinn fyrir ljósleiðara, eins og stundum heyrist í umræðunni, en 5G mun við rétt skilyrði geta boðið meiri hraða en núverandi Ljósnetstengingar.