Föstudaginn 29. apríl 2022 áttu fulltrúar Grundarfjarðarbæjar góðan fjarfund með fulltrúum Vodafone, þeim Sigurði Amlin Magnússyni, forstöðumanni einstaklingssviðs og Trausta Guðmundssyni, forstöðumanni fyrirtækjasviðs Vodafone. Umræðuefni voru fjarskiptamál. 

Fundurinn var haldinn í framhaldi af umfjöllun bæjarráðs og bæjarstjórnar um fjarskiptamál í febrúar og mars sl. og ályktun bæjarstjórnar á 257. fundi sínum þann 10. mars sl. Bæjarstjórn hefur haft fjarskiptamálin til sérstakrar skoðunar. Fyrir lágu fjölmargar ábendingar íbúa um gæði fjarskipta, sem teknar voru saman í febrúar sl. að frumkvæði bæjarins og sendar fjarskiptafyrirtækjum til skoðunar, með ósk um viðbrögð. 
Hér má lesa ábendingarnar. 

Á fundinum með Vodafone var í meginatriðum lögð áhersla á stöðu ljósleiðaravæðingar annarsvegar og ástand farsímakerfis og farsímaþjónustu við íbúa hinsvegar og rætt um stefnu Vodafone varðandi fjarskipti til styttri og lengri tíma á svæðinu.

Eftirfarandi eru fundarpunktar frá Vodafone - í framhaldi af fundinum: 

Á fundinum lagði Vodafone áherslu á að nú þegar hefur félagið farið í þó nokkrar aðgerðir á svæðinu sem miðast að því að íbúar í Grundarfirði geti nýtt 4G háhraða þjónustu sem aðaltengingu fyrir heimili. Hraðaprófanir félagsins hafa leitt í ljós að slíkt fyrirkomulag skilar hraða sem er nokkuð umfram núverandi xDSL möguleika sem standa íbúum nú þegar til boða. Í þessu samhengi má nefna að haft var sérstaklega samband við alla þá íbúa sem leyfilegt er að vera í beinum samskiptum við í gegnum síma og þeim boðið að taka þátt í prófunum á þessu fyrirkomulagi. Einnig sáu starfsmenn frá Vodafone sérstaklega um uppsetningu á búnaðinum hjá íbúum til þess að reyna að tryggja gæði þjónustunnar hjá hverjum og einum eins vel og kostur er á. Áður en þessar prófanir hófust var aukið sérstaklega við bandvídd í lofti á núverandi 4G sendum félagsins í Grundarfirði til þess að tryggja að hægt væri að taka á móti þó nokkrum fjölda nýrra notenda á svæðinu.

Þessu til viðbótar hyggur félagið á uppbyggingu á 5G þjónustu á staðnum.  Hraðamælingar félagsins á 5G tengingum hafa leitt í ljós umtalsverða hraðaaukningu samanborið við 4G, þó mismunandi eftir aðstæðum hverju sinni. Gert er ráð fyrir að uppbyggingu kerfisins verði lokið á öðrum eða þriðja fjórðungi ársins 2022. Vert er að hafa í huga að félagið hefur tryggt að allur sá búnaður sem nú þegar er kominn inn á heimili þeirra sem eru að taka þátt í 4G prófunum okkar á svæðinu styður einnig við 5G þjónustuna. Gæði og hraði myndi því aukast sjálfkrafa hjá þeim sem eru nú þegar farnir að nota 4G þjónustuna sem aðaltengingu heimila. Það er trú félagsins að uppbygging 5G háhraða þjónustu sé mjög álitlegur kostur samanborið við ljósleiðaravæðingu þegar litið er til gæða þjónustu og fjárfestingarkostnaðar.

Fram komu á fundinum athugasemdir frá bæjarstjórn varðandi grunnþætti farsímaþjónustu almennt sem og útvarpsþjónustu sem Vodafone rekur á svæðinu. Varðandi þessa þætti vill Vodafone koma eftirfarandi á framfæri:

1. Ráðist verður í mælingar á almennri farsímaþjónustu (í þéttbýli og í dreifbýli í kringum Grundarfjörð) og niðurstöður úr slíkri skýrslu dregnar saman á næstu vikum. 

2. Gæði útvarpsþjónustu og núverandi högun útsendingar könnuð sérstaklega m.t.t. athugasemda frá bæjarstjórn.

Einnig var markaðsfærsla og nærþjónusta við íbúa rædd sérstaklega. Vodafone hefur í hyggju að kynna sitt vöruframboð og sína þjónustu vandlega á næstu vikum og mánuðum, félagið lítur á uppbyggingu á háhraðaneti í lofti (4G/5G) sem mikið tækifæri bæði fyrir félagið sjálft en ekki síður íbúa Grundafjarðar. Nánari útfærsla á markaðslegri boðmiðlun er þó í stöðugri þróun hjá félaginu og erfitt að segja nákvæmlega með hvaða hætti hún verður að svo stöddu. Að því sögðu þá hefur Vodafone nú þegar hafið þá vinnu í kjölfarið af fundi með bæjarstjórn að kanna möguleika á rekstri umboðsmanns á staðnum sem gæti þá veitt nauðsynlega þjónustu (t.d. afhendingu á búnaði, sim-kortum eða almennri þjónustu). Ákvörðunin um að framkvæma slíkt liggur þó ekki endanlega fyrir.