Hjallatún – tvær lóðir til umsóknar

Grundarfjarðarbær auglýsir tvær lóðir fyrir iðnaðarstarfsemi í Hjallatúni lausar til umsóknar. Þær eru:

Hjallatún 1  (núverandi geymslusvæði bæjarins)

Stærð: 2.907 m2
Byggingarmagn 1.163 m2 (nýtingarhlutfall 0.4)
Hámarkshæð bygginga: 7,5 m
Í dag er á lóðinni geymslusvæði bæjarins, sem mun víkja. Sjá nánari skilmála deiliskipulags.

Hjallatún 3

Stærð: 2.983 m2
Byggingarmagn: 1.194 m2 (nýtingarhlutfall 0.4)
Hámarkshæð bygginga: 7,5 m.
Sjá nánari skilmála deiliskipulags.

Lóðirnar eru auglýstar í samræmi við deiliskipulag iðnaðar- og athafnasvæðis vestan Kvernár í samræmi við Samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði og bætast þær þar með á úthlutunarlista yfir lausar lóðir sem hægt er að sjá á vefsjá bæjarins. Sjá neðar.

Nánar um lóðirnar og skipulagsáætlanir

Í gildi er deiliskipulag iðnaðarsvæðisins frá 1999, með nokkrum síðari breytingum. Breyting tók gildi á deiliskipulaginu þann 28. september 2023 þar sem lóðin Hjallatún 1 var stækkuð lítillega. Jafnframt er í vinnslu heildarendurskoðun á deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæðið þar sem skipulagssvæðið stækkar umtalsvert. Drög að breyttu deiliskipulagi voru kynnt almenningi og hagsmunaaðilum í sumar og verður endanleg tillaga auglýst á næstunni. Ekki er gert ráð fyrir að austurhluti deiliskipulagssvæðins taki umfangsmiklum breytingum fyrir auglýsingu og er því ákveðið að auglýsa tvær lóðir til úthlutunar áður en endurskoðað deiliskipulag tekur gildi. Þar sem deiliskipulagið er enn í vinnslu geta stærðir lóða þó breyst lítillega fyrir gildistöku endurskoðaðs deiliskipulags.

Í deiliskipulagstillögunni eru gefnir upp bindandi hæðarkótar fyrir yfirborð lóða og gólfkóta bygginga. Ekki er heimilt að víkja frá uppgefnum hæðarkótum.

Lóðirnar verða afhentar með núverandi yfirborði. Á Hjallatúni 1 verður grindverk fjarlægt en niðursteyptur veggur undir grindverk verður skilinn eftir. Lagðar verða lagnir að lóðarmörkum. Lóðum er úthlutað með fyrirvara um hnit- og hæðarsett lóðarblöð. Kvöð er um að jarðveg af lóðunum skuli losa á nærliggjandi svæði, skv. nánari leiðbeiningum bæjarins.

Skilmálar og greiðslur

Varðandi úthlutunarreglur og afhendingu vísast til almennra skilmála í Samþykkt um úthlutun lóða í Grundarfirði, samanber m.a. 1. gr. og 3. gr. um úthlutunarskilmála. Gatnagerðargjald greiðist skv. gjaldskrá, sömuleiðis greiðast byggingarleyfisgjald og önnur gjöld með venjubundnum hætti við úthlutun lóða og samþykkt byggingaráforma. Vegna lóðarinnar Hjallatún 1 greiðist aukalega 1,5 millj. kr. skv. ákvörðun bæjarstjórnar vegna breytinga á notkun lóðar og flutnings geymslusvæðis.

Umsóknarfrestur er til og með 11. nóvember 2024.

Berist fleiri en ein umsókn um lóð sem uppfylla skilyrði úthlutunarreglna skal hlutkesti ráða úthlutun. Eftir þann tíma skal úthluta lóð til fyrsta umsækjanda sem eftir leitar, að uppfylltum skilyrðum reglnanna. Sótt skal um lóðir í íbúagátt Grundarfjarðarbæjar.

Umsókn um byggingarleyfi skal hafa borist byggingarfulltrúa innan 6 mánaða frá úthlutunardegi.

Samþykkt um úthlutun lóða

Lausar lóðir inná vefsjá bæjarins

Gildandi deiliskipulag iðnaðarsvæðis

Frétt um vinnslutillögu deiliskipulags

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í ráðhúsinu að Borgarbraut 16, 350 Grundarfirði, í síma 430-8500 eða á vef sveitarfélagsins, www.grundarfjordur.is