Á 271. fundi sínum þann 13. apríl 2023 (mál nr. 10 á dagskrá) ályktaði bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar um viðhald þjóðvega á Snæfellsnesi. Bæjarstjórn hefur áður vakið athygli á slæmu ástandi umræddra vegarkafla og ályktað um málefnið, þ.e. á fundum sínum þann 10. september 2020 og 7. apríl 2022, sjá nánar málsnúmer 2009014.
Bókun bæjarstjórnar er eftirfarandi:
Lagðar fram upplýsingar um fjárveitingar til viðhalds þjóðvega á Vestursvæði (Vesturland og Vestfirðir) á árinu 2023.
Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar lýsir enn yfir þungum áhyggjum af lélegu og síversnandi ástandi þjóðvega á Snæfellsnesi og að Borgarnesi, ástandi sem er að stórum hluta til komið vegna skorts á viðhlítandi viðhaldi.
Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar skorar á innviðaráðherra og fjárlaganefnd Alþingis að tryggja fjármagn til nauðsynlegs viðhalds á þjóðvegum á Vesturlandi, sér í lagi á þjóðvegi 54, Snæfellsnesvegi og þjóðvegi 56 um Vatnaleið.
Í ályktunum bæjarstjórnar um ástand vegamála frá 10. september 2020 og 7. apríl 2022 var að finna eftirfarandi lýsingu:
"Ástand þjóðvegar 54, frá Borgarnesi, um Mýrar og vestur eftir Snæfellsnesi, er mjög bágborið. Sig og frostskemmdir hafa gert veginn ósléttan yfirferðar, vegkantar eru víða brotnir og hafa gefið eftir á löngum köflum og vestan Vegamóta er vegurinn of mjór. Á kafla vestan þéttbýlis Grundarfjarðar eru vegkantar einnig lélegir og þarfnast styrkingar. Á sumum stöðum er vatnsagi á vegi mikið vandamál. Sama á við um þjóðveg 56 um Vatnaleið.
Verulega aukin umferð, þar á meðal stórauknir þungaflutningar á síðustu árum, sumar sem vetur, kallar á aukin framlög til Vegagerðarinnar, ekki síst til almenns viðhalds. Þó nýjar vegaframkvæmdir séu af hinu góða, þá má ekki gleymast að sinna viðhaldi eldri vega þannig að sú fjárfesting skili arðsemi; geti þjónað hlutverki sínu og öryggi vegfarenda sé tryggt."
Framangreind lýsing er því miður enn í fullu gildi og ljóst er að ástand þjóðveganna hefur sjaldan verið eins slæmt og nú, og óviðunandi hætta stafar af ástandinu á stórum köflum.
Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar eru eftirfarandi fjárhæðir áætlaðar í viðhald þjóðvega á Vestursvæði árið 2023:
I. Viðhald bundinna slitlaga (malbik, yfirlagnir og blettanir, viðgerðir á holum, köntum og hjólförum) samtals 922 m.kr. sem er einungis hækkun um 25 m.kr. frá fyrra ári.
II. Styrkingar og endurbætur 405 m.kr., sem er einungis hækkun um 35 m.kr. frá fyrra ári.
Viðhaldsfé, samtals að fjárhæð 1.327 m.kr., er engan veginn nægilegt til að anna brýnni þörf og sé horft til þróunar verðlags er hér um að ræða raunlækkun fjárveitinga milli ára.
Meðal stærstu og mest aðkallandi verkefnanna í styrkingum og endurbótum sem bíða á Snæfellsnesi eru Snæfellsnesvegur 54 um Kaldármela, Snæfellsnesvegur 54 um Skjálgarhraun, Snæfellsnesvegur 54 frá Hellnafelli við Grundarfjörð út fyrir Kirkjufell og Stykkishólmsvegur 58. Mörg minni verkefni er einnig orðið virkilega aðkallandi að ráðast í, sem framangreindar fjárveitingar duga engan veginn til.
Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar bendir á að yfirlagnir eru gríðarlega mikilvægar til að viðhalda góðu yfirborði vega og tryggja að yfirborð springi ekki eða aflagist. Þegar ekki næst að halda við yfirborði vega með klæðingu eða malbiki er hætta á að þeir brotni niður og verði það lélegir að frekari aðgerða sé þörf, með styrkingum og endurbótum. Sú er orðin raunin með stóra kafla á framangreindum vegum og er þörf fyrir fjármagn í allra brýnustu verkefnin til styrkinga og endurbóta, sbr. lið II hér framar, áætluð að lágmarki um 6 milljarðar kr. Þær fjárhæðir miðast einungis við verulega aðkallandi viðgerðir, þ.e. á vegaköflum sem eru mjög illa farnir, ónýtir eða jafnvel hættulegir vegfarendum. Fjölmörg slík verkefni bíða og þokast hægt áfram, eins og ganga má út frá þegar fjármagn til styrkinga og endurbóta er einungis um 7% af því sem áætlað er að þurfi í brýnustu verkefnin.
Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar telur, miðað við framvindu viðhaldsverkefna og framangreinda stöðu, að endurskoða eigi fjárveitingar og flokkun verkefna á framangreindum vegarköflum, þar sem viðhaldsleysi þeirra hefur orsakað þörf fyrir endurbyggingu. Bæjarstjórn telur að stærstu og brýnustu viðhaldsverkefnin eigi að færast úr flokki viðhalds bundinna slitlaga yfir í nýframkvæmdir þar sem nýbyggingu brýnustu vegarkaflanna verði tryggðar sérstakar fjárveitingar í samgönguáætlun. Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar skorar á innviðaráðherra og fjárlaganefnd Alþingis að tryggja að svo verði.
Samþykkt samhljóða.