Kæru íbúar!

Uppfært kl. 23:30 miðvikudag 1. desember:

Nú í kvöld eru 51 íbúar skráðir í einangrun (58 í gær) og 22 í sóttkví í Grundarfirði (sama og í gær). Þegar þetta er skrifað liggur fyrir að ekkert nýtt smit hefur bæst við í dag, miðvikudag. Nokkrir hafa lokið einangrun.

----

Brýn ástæða er til að sýna aðgát. Við höfum mikla hagsmuni af því að daglegt líf geti haldið áfram með eðlilegum hætti og að fyrirtæki og stofnanir geti starfað án skakkafalla.  Sýnum ábyrgð og samstöðu - gætum sóttvarna.

---

Hér er yfirlit yfir stöðu mála og þjónustu hjá stofnunum Grundarfjarðarbæjar og fleirum.

Fyrst sett inn kl. 14:00 mánudag 22. nóv. Uppfært síðast kl. 23:30 miðvikudag 1. desember.

Leikskólinn Sólvellir

 • Leikskólinn tók aftur til starfa mánudag 29. nóv.
 • Foreldrar koma fyrst um sinn með börnin að inngangi, þar sem starfsfólk tekur á móti börnunum. 
 • Foreldrar eru vinsamlegast beðnir að koma ekki inná deildir eða í fatahengi. 

Grunnskóli, heilsdagsskóli, tónlistarskólinn og leikskóladeildin Eldhamrar

 • Starfsemi hófst mánudag 29. nóv.
 • Um 30-40 grunnskólabörn eru nú í einangrun og tveir kennarar. 

Æfingar UMFG

 • Æfingar UMFG verða á fimmtudag 1. des. og föstudag 2. des., skv. tilkynningu félagsins.

Íþróttahús og heitir pottar

 • Opið frá og með mánudegi 29. nóv. 

Félagsmiðstöðin Eden

 • Í skoðun. 

Bókasafnið, Sögumiðstöðin og félagsstarf á vegum félagasamtaka í húsinu

 • Bókasafnið er opið frá og með mánudegi 29. nóv.
 • Sjá einnig hér: Gefins og gaman á Bókasafni Grundarfjarðar
 • Eftirfarandi félagsstarf í Sögumiðstöðinni fellur niður þessa vikuna:
  • Molakaffi og meðlæti, miðvikudag 1. des.
  • Handavinnuhópurinn
 • Sjöa vikunnar, úr myndasafni Bærings, er enn á sínum stað á bæjarvefnum - njótið, sjá hér.  

Ráðhús-bæjarskrifstofa

 • Óbreytt opnun. Viðskiptavinum einnig bent á póstkassa í anddyri Ráðhúss. 
 • Netfang bæjarins er grundarfjordur@grundarfjordur.is og netföng starfsmanna bæjarins er öll að finna hér.
 • Einungis fjarfundir eru heimilaðir hjá stofnunum bæjarins í bili.
 • Sími bæjarstjóra er 8986605, einkum fyrir brýn erindi tengd Covid næstu daga. 

Grundarfjarðarhöfn, áhaldahús og slökkvilið 

 • Óbreytt starfsemi, en starfsstöðvar eru lokaðar fyrir öðrum en starfsmönnum. 
 • Samningur er milli slökkviliða á Snæfellsnesi um útköll. Sunnudagskvöldið 21. nóv. var slökkviliðum nágrannasveitarfélaga gert viðvart um viðkvæma stöðu og áhrif á mönnun í Grundarfirði. 
 • Okkur finnst gott og gleðilegt að segja frá því að áhaldahúsið er búið að setja upp jólaljós víða í bænum. Meira á eftir að koma :-)

Fjölbrautaskóli Snæfellinga

Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól

 • Heimilið er lokað fyrir gestum. Í boði er að ná í heimilisfólk í gegnum myndsíma með aðstoð starfsfólks.
Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga
 • Sími félags- og skólaþjónustunnar, 430 7800, er öllum opinn kl. 9:00-15:30 virka daga, ef einhverjar spurningar vakna.
 • Félags- og skólaþjónustan minnir einnig á hjálparsíma Rauða krossins, 1717. Hjálparsíminn er alltaf opinn, trúnaði og nafnleynd heitið og hann er ókeypis.

 Þrif og sótthreinsun

 • Um hádegi á mánudag, kom til okkar fyrirtæki sem sérhæfir sig í þrifum og sótthreinsaði grunnskóla, íþróttahús, Eldhamra og tónlistarskóla. Á þriðjudag sl. var leikskólinn þrifinn. 

Ennfremur er bent á upplýsingar og skilaboð á Covid-síðu á bæjarvef

Ef einkenni - förum í skimun

Skilaboð sóttvarna hjá HVE eru þessi:

 • Ef við finnum fyrir einkennum, þá eigum við umsvifalaust að panta okkur tíma í skimun. Ekki giska - látum tékka! 
 • Hér má lesa um hver einkenni Covid-19 eru.  
 • Þetta gildir jafnvel þó við séum bólusett. 
 • Munum líka, að börnin eru oft alveg einkennalaus. Ef þau hafa verið í nánum samskiptum við smitaða, þá er æskilegt að taka heimapróf eða/og hraðpróf hjá heilsugæslustöðinni.
 • Bóka má tíma með því að hringja á heilsugæslustöðina í síma 432-1350 eða fara inná "mínar síður" á heilsuvera.is  
 • Ef við höfum spurningar og höfum tök á því, þá er gott að nota netspjallið á covid.is - þannig léttum við álagi af heilsugæslustöðinni sem hefur í nógu að snúast núna. 

Sóttvarnir

Stillum snertingu í hóf og þvoum okkur oft um hendurnar. Það er einfalt og mjög áhrifaríkt að spritta. Notum grímur. Forðumst margmenni. Best er að aðeins einn frá hverju heimili fari í búð og sinni öðrum erindum. 

Bólusetning

HVE hefur auglýst tíma fyrir örvunarbólusetningu þann 1. desember nk. milli 11-12 í íþróttahúsinu. Sjá auglýsingu HVE á Facebook og hér á vef bæjarins.

Húsnæðismál

Ef einhver lenda í húsnæðisvandræðum vegna yfirvofandi sóttkvíar, endilega hafið samband. Það má láta mig vita í bjorg@grundarfjordur.is eða s. 898-6605. Við munum leita leiða til að leiðbeina eða aðstoða fólk með þau mál, ef með þarf.

Verslunarferðir og aðrar nauðsynjar

Það má hafa samband við Rauða kross deildina í Grundarfirði ef fólk kemst ekki í búð eða vantar aðrar nauðsynjar.
Hafa má samband við formann deildarinnar, Sævöru Þorvarðardóttur, í síma 869-5628 eða í netfangið formadur.grundarfjordur@redcross.is 
Sjá upplýsingar hér. 

Eins hafa sumir verslunar- og veitingamenn boðið heimsendingu. 

Að lokum

Við skulum áfram sýna okkar bestu hliðar og gera allt sem við getum til að hindra útbreiðslu smita, okkar sjálfra vegna og allra hinna.  

Það er frábært að heyra af því að íbúar séu að aðstoða kunningja og nágranna, með mat og húsnæði. Samstaðan er dýrmæt. 

 

Ég vil hrósa foreldrum grunnskólanemenda fyrir það hve dugleg þau voru að deila með sér upplýsingum um stöðuna á sínum heimilum. Upplýsingar milli foreldra innan bekkja ýttu klárlega undir enn meiri árvekni um stöðuna. 

Verslanir og þjónustufyrirtæki eiga skilið hrós fyrir góða þjónustu, m.a. að bjóða heimsendingu á vörum, veitingum og fleiru.

Mér finnst stjórnendur stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna hafa tekið af myndarskap á málum í sínum fyrirtækjum, bæði þegar smit hefur komið upp og svo til forvarna. 

Ég vil svo hrósa íbúum fyrir að sýna þolinmæði og skilning á stöðunni. Þegar svo margir bæjarbúar eru komnir í einangrun og sóttkví hefur staðan mikil áhrif á þjónustu og starfsemi. 

Batakveðjur sendum við til þeirra sem veikst hafa. 

Með hlýrri kveðju,

Björg, bæjarstjóri