Hverfahátíðir

Eins og flestir vita verður sú nýbreytni tekin upp á hátíð Grundfirðinga nú í lok júlí ,,Á góðri stund í Grundarfirði" að hafa svokallaðar hverfahátíðir. Bænum er skipt upp í fjögur hverfi þar sem hvert hverfi fær sinn lit. Hvert hverfi heldur svo ,,hverfahátíð" seinni part laugardags. Að hátíð lokinni ganga hóparnir fullum skrúða niður að hátíðarsvæði þar sem hvert hverfi verður með skemmtiatriði.  

3.fl kv spilaði við FH í gær.

 Í gær spilaði 3.fl kv við FH og endaði leikurinn með jafntefli 2-2. Mörk Grundarfjarðar gerðu þær Stefanía og Sandra. Stelpurnar okkar spiluðu langt frá sinni réttu getu í leiknum og ekki hjálpaði dómarin til með að halda leiknum á sæmileg plani.

4.fl A og B spiluðu í brjáluðu roki

Í gær spilaði 4. fl kvenna við lið Þróttar R. Hrikalega hvasst var á vellinum og var örugglega hlaupið meira á eftir boltanum utan vallar heldur en innan. Úrslitin urðu þannig að A lið Grundarfjarðar sigraði A lið Þróttar R 3-2 og voru það þær Helga Rut,Sigurrós og  Laufey Lilja sem skoruðu fyrir okkar lið. B liðin gerðu síðan markalaust jafntefli, okkar lið var allan tíman í sókn en stelpunum tókst ekki að koma boltanum í markið.

Sigur hjá 3.fl kvenna

Stelpurnar í 3.fl spiluðu í gær við lið Skallagríms og unnu leikinn 6-4. Mörk Grundarfjarðar skoruðu Kamilla,Hafdís Lilja og Kristín. Góð mæting áhorfenda var á leikinn. Stelpurnar eru komnar með 9 stig og eru í öðru sæti í sínum riðli. 

Höfnin með þeim fyrstu til að uppfylla ákvæði um siglingavernd

Í maí sl. staðfesti Siglingastofnun Íslands formlega verndaráætlun Grundarfjarðarhafnar, skv. ákvæðum alþjóðasamþykktar um siglingavernd. Í lok júní var svo staðfest að höfnin hefði uppfyllt skilyrði reglna um hafnavernd. Grundarfjarðarhöfn var þannig með fyrstu íslensku höfnunum til að ljúka gerð verndaráætlunar og fá staðfestingu á gildi hennar og tilheyrandi ráðstöfunum.  

Sundlaugin lokuð fimmtudag og föstudag

Sundlaug Grundarfjarðar verður lokuð nk. fimmtudag og föstudag vegna viðgerða.   Sundlaugarverðir 

Friðrik Vignir með tónleika í Stokkhólmi

  Friðrik Vignir Stefánsson organisti Grundarfjarðarkirkju mun halda einleikstónleika í Stokkhólmi í boði organista Katarina safnaðar. Tónleikarnir verða haldnir í Katarina-kirkju fimmtudaginn 15. júlí nk. kl. 12.00.    Af því tilefni mun Friðrik Vignir bjóða Grundfirðingum á opna æfingu fimmtudagskvöldið 8. júlí nk. kl. 20.30 þar sem þeim gefst kostur á að hlusta á efnisskrá hans. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.    

Nýr læknir á heilsugæslustöðina

Hjalti Guðmundsson læknir tekur til starfa á Heilsugæslustöð Grundarfjarðar í dag, 1.júlí. Hann mun starfa hér í 2 mánuði, eða til 1. september nk.

Skemmtiferðaskipið Ocean Monarch

Skemmtiferðaskipið Ocean Monarch kom til Grundarfjarðar á áttunda tímanum í morgun. Skipið ristir mjög djúpt og getur því ekki laggst að bryggju. Farþegar skipsins eru um 400, flestir þýskir, og fara um 320 þeirra í rútuferðir í dag. Sem stendur er verið að ferja farþegana í land. Áætlað er að skipið verði hér til 13:30. Þess má geta að Ocean Monarch er eina skipið sem ekki getur laggst að bryggju af þeim 13 skipum sem heimsækja Grundarfjarðarhöfn þetta sumarið.