Á skíðum skemmti ég mér...

Mynd: Sverrir Karlsson  Skíðalyftan var opnuð í gær. Mjög margir skelltu sér á skíði í veðurblíðunni og var ekki að sjá annað en að gestir hafi verið mjög ánægðir og skemmt sér vel. Lyftan er opin í dag frá kl. 15:00-18:00 og um helgina frá kl. 11:00- 18:00. Nú er um að gera að taka skíðin úr geymslunni og nýta sér þessa frábæru aðstöðu sem við höfum hér rétt við bæjardyrnar.  

Fjölskyldustefna: Vinnuhópar teknir til starfa

Miðvikudagskvöldið 18. janúar 2006 tóku vinnuhópar til starfa við mótun fjölskyldustefnu. Rétt tæplega 50 manns voru mættir á vinnufundi í húsnæði Fjölbrautaskóla Snæfellinga, en fimm hópar fjalla um þarfir einstaklinganna í samfélaginu á mismunandi aldursskeiðum; 0-14, 14-20, 20-40, 40-60 ára og 60+. Ætlunin er að hóparnir eigi nokkra fundi og skili svo niðurstöðum á sameiginlegum fundi í lok febrúar. Þá taka stýrihópur og bæjarstjórn við og ljúka gerð fjölskyldustefnu.   Enn er tækifæri að taka þátt í starfi hópanna eða koma skilaboðum á framfæri inn í hópastarfið, með því að mæta á næsta fund eða hafa samband við hópstjóra. Næstu fundir þeirra eru sem hér segir:

Frá skíðadeild

Í fyrra vetur hittust nokkrir áhugasamir einstaklingar sem höfðu áhuga á að endurvekja skíðadeildina í Grundarfirði. Núna í janúar hefur hópurinn verið að vinna að því að koma skíðalyftunni og allri aðstöðu í gott lag. Síðastliðinn laugardag var haldinn vinnudagur á skíðasvæðinu Gráborg.  Gengið var vasklega til verka og voru öryggisgirðingar lagaðar í kringum efstu möstrin, haldið var áfram að lagfæra pallinn í kringum skálann, skíðaskálinn þrifinn og salernisaðstaða lagfærð.  Nú eru helstu öryggisatriðin komin í góðan farveg hjá okkur og bíðum við bara eftir aðeins meiri snjó svo að hægt sé að opna lyftuna. Viljum við þakka þessu góða fólki kærlega fyrir gott starf um helgina.   Unnið að opnun

Skíðalyftan opnar.

Skíðalyftan opnar í dag kl 15.  Þeir sem að áhuga hafa á því að starfa við lyftuna eru beðnir um að hafa samband við Kötu í síma 6902145. Stefnt er að því að lyftan verði opin á hverum degi frá kl 15:00 á meðan veður og snjór leyfa. Til þess að það verði hægt þurfa áhugasamir að gefa kost á sér í lyftuvörslu.

Mótun fjölskyldustefnu Grundfirðinga - næstu skref

Eins og flestum er kunnugt stendur nú yfir vinna við mótun fjölskyldustefnu Grundfirðinga. Stýrihópur hefur verið að störfum. Á íbúaþingi í mars sl.  komu fram margar gagnlegar ábendingar og á fjölmennum og góðum fundi í lok nóvember var enn bætt við.       Nú er komið að næsta skrefi og miðvikudagskvöldið 18. janúar n.k. verður haldinn fundur þar sem vinnuhópar hefja störf.  Þegar hafa um þrjátíu manns skráð sig í vinnuhópa og geta allir áhugasamir bæst í hópinn með því að mæta á fundinn á miðvikudaginn næsta.   

Metár í Grundarfjarðarhöfn!

Heildarafli árið 2005 var 20.586.089 kg í 1.559 löndunum. Heildarafli árið 2004 var 15.028.872 kg í 1.392 löndunum. Heildarafli ársins 2003 var 12.765.745 kg. Í töflunum hér að neðan má sjá sundurliðun á lönduðum afla eftir tegundum árið 2005 og yfirlit yfir vöruflutninga, komur skemmtiferðaskipa o.fl. árin 2004 og 2005.   Landaður afli árið 2005 eftir tegundum   Tegundir 2005   Þorskur 4.242.002 Kg Ýsa 3.004.783 Kg Karfi 4.179.144 Kg Steinbítur 1.315.217 Kg Ufsi 854.724 Kg Beitukóngur 545.952 Kg Sæbjúgu 129.633   Rækja 188.296 Kg Langa  95.377 Kg Keila 21.893 Kg Gámafiskur 5.356.379 Kg Aðrar tegundir  652.689 Kg Samtals 20.586.089   Vöruflutningar, komur skemmtiferðaskipa ofl.   2005 2004 Olíuflutningar  7.928 tonn 6.999 tonn Aðrir flutningar  1.451 tonn 1.593 tonn Skemmtiferðaskip 8   Komur 13 Komur Gámaeiningar 446 388  

Hundaeigendur athugið!

Samkvæmt reglum um hundahald í Grundarfirði er bannað að fara með hunda inn á lóð Leikskólans Sólvalla. Undanfarið hefur starfsfólk leikskólans orðið vart við ummerki eftir hunda á lóðinni. Hundaeigendur eru vinsamlegast beðnir um að virða þessar reglur og fara ekki með hunda sína inn á lóðina!

Skiladagur nýrra bóka

Þeir sem fengu nýjar bækur fyrir 4. jan. mega drífa sig að lesa og skila þeim. Þær hafa flestar 14 daga skilafrest og aðrir lesendur bíða spenntir eftir þeim. Þetta á við um barnabækur líka þó að þær hafi allar 30 daga skilafrest. Látum nýju bækurnar ganga svo að sem flestir komist til að lesa þær næstu mánuðina.

Grafið fyrir 5 íbúðum í Grundarfirði í dag

Framkvæmdir við Ölkelduveg   Í dag þann 11. janúar 2006, var verið að grafa fyrir fimm íbúðum í bænum. Við Ölkelduveg var verið að taka grunn fyrir 4 íbúða raðhús sem Stafna á milli ehf. á Akranesi byggir. Í Fellasneið var einnig verið að grafa grunn í dag fyrir einbýlishúsi.   Framkvæmdir í Fellasneið

Þrettándabrennan

Í gær var loksins kveikt í þrettándabrennunni en veður hefur verið óhagstætt undanfarna daga.   Nokkrir tugir manna fylgdust með brennunni en engum sögum fer hins vegar af álfum. Sennilegt þykir að margir þeirra séu uppteknir við að koma sér fyrir í nýjum heimkynnum eftir flutninga um áramótin.