Orðsending til íbúa Grundarfjarðarbæjar:

Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar fylgist grannt með þróun í efnahagsmálum Íslands dag frá degi.  Þær hamfarir í peningamálum sem dunið hafa yfir koma illa við alla, þar með talið sveitarfélög.  Bæjarstjórnin mun leggja allt kapp á að tryggja og viðhalda áfram grunnþjónustu bæjarins og það að óþægindi íbúa verði í lágmarki vegna þeirra þrenginga sem kunna að vera í augsýn.  Bæjarstjórnin vonar og óskar þess að íbúar haldi rósemi sinni og láti ekki bugast við þær óþægilegu fréttir sem dynja yfir þessa daga.  Bæjarstjórnin bendir á, að íbúar geta leitað til bæjarskrifstofunnar um viðtöl vegna erfiðleika og einnig er mögulegt að leita til félagsþjónustu Snæfellinga um ráðgjöf og aðstoð.  Bæjarfulltrúar eru einnig reiðubúnir til þess að eiga fundi með íbúum um þessi mál og önnur sem varða heill þeirra og byggðarlagsins.   Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar færir íbúum bæjarins og Snæfellingum öllum bestu óskir um að þetta efnahagslega fárviðri valdi ekki skaða og miklum erfiðleikum.    Bæjarstjórn Grundarfjarðarbæjar.  

Skapandi handverk úr heimabyggð

Þá höfum við hafið starfsemi handverksfélags hér í Grundarfirði. Fyrsti fundur var haldinn sunnudaginn 5. október. Það var fámennt en góðmennt og var ákveðið að næsti fundur yrði haldinn á miðvikudaginn 15. október kl: 20:00 í salur að borgarbraut 16 efri hæð (þar sem fjarnámið var til húsa.) Við viljum ítreka að engum félagsmanni er skylt að koma verkum sínum í sölu eða á sýningu þannig að ef þig langar að eyða kvöldstund af og til í góðum félagsskap láttu þá endilega sjá þig.  

Æðruleysi og hugprýði er einkenni Íslendinga þegar erfiðleikar steðja að

Þeir stóru atburðir sem gerst hafa undanfarna daga og vikur í efnahagslífi Íslands láta engan ósnortinn.  Allir verða fyrir áfalli við þær fréttir sem borist hafa.  Margir verða fyrir fjárhagslegum skaða vegna hækkandi skulda, lækkunar og jafnvel hruns á verði hlutabréfa og margvíslegra óþæginda sem erfiðleikar bankanna valda fólki.  Við þessar aðstæður er mikilvægt að halda ró sinni, horfast í augu við vandann, en láta hann ekki buga sig.  Nokkur atriði er vert fyrir okkur öll að hafa í huga við þessar aðstæður:   Það er aldrei öll von úti - alltaf birtir upp um síðir. Tölum varlega - hræðum ekki börnin eða aðra. Fjölskyldur ættu að ræða saman yfirvegað - um að gera að ræða við einhvern ef líðanin er slæm. Það er fólk til staðar fyrir utan fjölskylduna sem er einnig reiðubúið til að hlusta og aðstoða við að finna leiðir - prestar - heilsugæslan - bæjaryfirvöld - félagsþjónustan - ráðgjafarstofa heimilanna og bráðum verða opnaðar sérstakar ráðgjafarstofur á vegum félagsmála- og tryggingaráðuneytisins. Það er hollt í erfiðleikum að rifja upp og fara yfir hvaða hlutir eru þó jákvæðir í öllu saman og það, að auðsæld er ekki eingöngu talin í fjármunum. Það getur verið gott fyrir hópa að koma saman, t.d. til þess eins að fara í göngutúr og spjalla létt saman á meðan.   Við sem þjóð munum vinna okkur út úr þessum hremmingum sem nú ríða yfir eins og öllum öðrum sem komið hafa.  Hversu langan tíma það tekur vitum við ekki núna, en því fyrr sem við hefjumst handa, því styttra verður í góða stöðu að nýju.   Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, bæjarstjóri.

Bæjarstjórnarfundur 9. október

Næsti fundur bæjarstjórnar Grundarfjarðarbæjar verður haldinn í samkomuhúsinu fimmtudaginn 9. október kl. 16.15. 

Rökkurdagar 24.-26. október.

Skelfing í skammdeginu – uppákomur fyrir alla fjölskylduna.  Nú styttist í rökkurdaga og vill fræðslu- og menningarmálanefnd af því tilefni minna á smásögukeppnina sem stendur yfir. Samin skal drauga- eða spennusaga að hámarki 500 orð. Skilafrestur er 10. október. Grundfirðingar á öllum aldri geta tekið þátt og vegleg verðlaun eru í boði. Sögum skal skila á bæjarskrifstofuna. Dagskrá rökkurdagana er nú óðum að taka á sig mynd. Í boði verður meðal annars: uppákomur í leikskóla og grunnskóla, kvikmyndamaraþon, draugaball, upplestur úr ýmsum sögum, samverustund á bókasafninu og margt fleira. Þeir sem hafa hugmyndir að viðburðum hafi samband við fræðslu- og menningarmálanefnd (Sigurður 894-1566)  

Stígamót hefja þjónustu á Vesturlandi

Stígamót bjóða upp á ókeypis viðtalsþjónustu og sjálfshjálparstarf fyrir bæði konur og karla sem beitt hafa verið hvers kyns kynferðisofbeldi. Þjónustan hefur hingað til fyrst og fremst nýst á höfuðborgarsvæðinu. Eftir myndarlega fjáröflun Zontakvenna hefur verið ákveðið að auka og bæta þjónustuna við fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðisins.  

Eldri borgarar athugið

Við minnum á spilakvöldið á fimmtudaginn 2. október í fjölbrautarskólanum.